Þjónandi forysta

  • Þekkingarsetur, viðburðir
    • Ráðstefnur hér á landi frá 2008
      • Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015
      • Ráðstefna á Bifröst 31. október 2014 – Dagskrá
      • Samstaða og árangur – Ráðstefna 14. júní 2013
  • Pistlar
  • Rannsóknir, greinar & bækur
    • Þjónandi forysta í hnotskurn
    • Í atvinnulífinu
    • Líkan Dirk van Dierendonck um þjónandi forystu
    • Íslenskar rannsóknir
  • Fréttabréf
  • Hafa samband
  • English
You are here: Home / Archives for Framtíðarsýn

Ný rannsókn um þjónandi forystu og áherslur viðbragðsaðila við eldgosi í Eyjafjallajökli. MSc rannsókn Sólrúnar Auðbertsdóttur

January 31, 2016 by Sigrún

Sólrún Auðbertsdóttir lauk á síðasta ári MSc gráðu í heilbrigðisvísindum frá Háskólanum á Akureyri og fjallaði MSc ritgerð hennar um áherslur viðbragðsaðila við eldgosinu í Eyjafjallajökli.  Sólrún tók viðtöl við alls fjórtán viðbragðsaðila á sviði björgunarstarfa, heilsugæslu, löggæslu og fleiri sviða.  Rannsóknin beindist að áherslum þeirra í samskiptum og samvinnu og voru orð þeirra og áherslur speglaðar í hugmyndafræði þjónandi forystu. Rannsóknin ber heitið ,,Að vera í takt við samfélagið en samt að sýna festu” Áherslur viðbragðsaðila í samskiptum og samvinnu
vegna eldsumbrota undir jökli.

Í ritgerðinni segir að ,,Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að áherslur viðbragðsaðila, sem rætt var við, einkenndust af einlægum áhuga og ánægju af því starfi sem þeir unnu. Takmark þeirra var að tryggja öryggi og velferð. Samstaða náðist með góðum undirbúningi, áherslu á upplýsingar, samvinnu á jafningjagrunni, hlustun og dreifðri ábyrgð. Draga má þá ályktun að þjónandi forysta einkenni samskipti og samvinnu þeirra sem rætt var við. Rannsóknin hefur fræðilegt gildi og niðurstöður varpa ljósi á nýja hlið þjónandi forystu og gefa vísbendingar um að þjónandi forysta geti haft uppbyggileg áhrif á störf og áherslur viðbragðsaðila.”

Sólrún hlaut rannsóknarstyrk úr Rannsókna- og vísindasjóði Suðurlands og hélt á dögunum erindi um rannsókn sína á hátíðarfundi sjóðsins að viðstöddu fjölmenni og nýjum styrkhöfum sjóðsins. Sólrún er hjúkrunarfræðingur og starfar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem hjúkrunarstjóri á Heilsugæslunni í Þorlákshöfn.

Sólrúnu eru færðar innilegar hamingjuóskir í tilefni MSc prófsins.

Hér er ritgerðin á pdf formi.

Solrun

Sólrún Auðbertsdóttir tekur við rannsóknarstyrk Rannsókna- og vísindasjóðs Suðurlands.

thjonandi-forysta-logo

Filed Under: Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, einlægur áhugi, Eyjafjallajökull, Framtíðarsýn, Hlustun, MSc rannsókn, Rannsóknarstyrkur, Rannsóknir, Samfélagsleg ábyrgð, Viðbragðsaðilar

Sjö þættir sem einkenna þjónandi leiðtoga

September 22, 2015 by Sigrún

Þjónandi leiðtogi nýtir margskonar stjórnunarstíla. Sérstaðan þjónandi forysta er sú að hún byggir á siðferðilegum grunni og samfélagslegri ábyrgð og felur í sér viðhorf sem stjórnandinn hefur að leiðarljósi, bæði í starfi sínu og daglegu lífi:

1) Þjónandi forysta er því meira en bara stjórnunarstíll, hún er hugmyndafræði þar sem leiðtoginn nýtir margskonar stjórnunaraðferðir sem samrýmast siðfræðilegum gildum og hugsjóninni um að vera bæði leiðtogi og þjónn með hag heildarinnar að leiðarljósi.

2) Greenleaf benti á að prófsteinn þjónandi forystu væri hvort samstarfsfólk leiðtogans yrðu heilbrigðara, frjálsara, sjálfstæðara, fróðara og líklegra til þess að verða sjálf þjónar.

3) Í þjónandi forystu er áhersla lögð á að gefa starfsfólkinu svigrúm til að hafa áhrif á störf sín, að þroskast sem persónur og koma til móts við þarfir þeirra til að það nái árangri í starfi.

4) Þjónandi forysta felur í sér kröfur til stjórnandans, sértaklega um sjálfsþekkingu og vitund um eigin hugsjón, markmið og ábyrgð.

5) Þjónandi leiðtogi þjálfar með sér hæfni í að hlusta og að vera nálægur starfsfólki um leið og hann eflir með sér sjálfsþekkingu og rýni í eigin viðhorf, þekking og færni.

6) Með þjónandi forystu er teflt saman umhyggju og ábyrgð í starfi, hollustu við hugsjón með skapandi nálgun, stöðugri þekkingarleit og virðingu fyrir framlagi og skoðunum hvers og eins.

7) Í stuttu máli má segja að þjónandi forysta einkennist af 1) einlægum áhuga á hugmyndum og hagsmunum annarra, 2) sjálfsþekkingu leiðtogans og vilja hans til að horfast í augu við styrkleika sína og veikleika og 3) framtíðarsýn leiðtogans þar sem tilgangur, hugsjón og ábyrgð á verkefnum kristallast og birtist meðal annars með einbeittri hlustun, uppbyggilegum samskiptum, jafningjabrag, falsleysi og auðmýkt.

Byggt á: Greenleaf (1970/2008); Prosser (2010) og Sigrún Gunnarsdóttir (2011).

Greenleaf-Improve-Silence

Filed Under: Accountability, Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Ábyrgð, Ábyrgðarskylda, Foresight, Framtíðarsýn, Greenleaf Center, Hlustun, Hugmyndafræðin, Hugsjón, Humility, Robert Greenleaf, Servant leader, Servant leadership, Valdar greinar

Þjónandi forysta í stjórnun sveitarfélags – Kolfinna Jóhannesdóttir, sveitarstjóri í Borgarbyggð á ráðstefnunni á Bifröst 25. september 2015

September 10, 2015 by Sigrún

Kolfinna Jóhannesdóttir, sveitarstjóri í Borgarbyggð er meðal fyrirlesara á ráðstefnunni á Bifröst 25. september 2015. Erindið sitt kallar hún: ,,Þjónandi forysta í stjórnun sveitarfélags” og lýsir inntaki þess með eftirfarandi orðum:

Í erindi mínu mun ég fjalla um gildi þjónandi forystu í stjórnun sveitarfélags. Mikilvægi þess að hlusta og bera umhyggju fyrir hagsmunum og velferð annarra framar eigin völdum. Þá mun ég fjalla um samspil þess að bera virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum án þess að missa sjónar á heildarmyndinni og framtíðarsýn fyrir samfélagið í heild. Ég mun fjalla um mikilvægi jafnvægislistarinnar í starfi mínu þar sem þarf að sýna umhyggju og sveigjanleika en jafnframt aga og reglufestu. Þá mun ég fjalla um mikilvægi þess fyrir leiðtoga að hafa skýra framtíðarsýn fyrir samfélagið sem heild og taka dæmi úr starfi mínu sem sveitarstjóri í Borgarbyggð.

Það verður áhugavert að hlýða á Kolfinnu lýsa viðhorfum sínum og innsýn í þjónandi forystu í ljósi viðfangsefna sveitarstjórans. Þar á meðal um framtíðarsýnina sem Robert K. Greenleaf leit á sem einn af allra mikilvægustu þáttunum í þjónandi forystu og bendir á að forskot leiðtogans felist ekki síst í því að hafa tilfinningu fyrir hinu ókomna, greina hvers má vænta, hafa forgöngu um hlutina og leiða fólk áfram. Sjá nánar í grein hér.

Kolfinna Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Borgarbyggð

Kolfinna Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Borgarbyggð

Bifrost

 

 

 

 

 

 

 

 

Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015

Skráning

Yfirskrift ráðstefnunnar er: Þjónandi forysta og brautryðjendur.

Á ráðstefnunni munu fyrirlesarar og þátttakendur leita svara við spurningunni: ,,Hvernig getur þjónandi forysta verið drifkraftur brautryðjandans?”.  Varpað verður t.d. ljósi á hvernig hógværð og auðmýkt leiðtogans eflir starfsgetu og starfsánægju starfsmannanna og að margt bendi til þess ,,að tími frekjuhundsins er líklega liðinn”.

Dagskrá:

kl. 10 –  Opnun ráðstefnu

  • Dr. Carolyn Crippen, Victoria University, Kanada
  • Haraldur Líndal Pétursson, forstjóri Johan Rönning
  • Kolfinna Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar
  • Dr. Róbert Jack, heimspekingur

kl. 12 – Hádegishlé og samtal í hópum

  • Dr. Kasper Edwalds, DTU Kaupmannahöfn
  • Hildur Eir Bolladóttir, prestur Akureyri
  • Einar Svansson, lektor Háskólanum á Bifröst
  • Dr. Carolyn Crippen – ,,Begin with Listening”

kl. 15:30 – Lokaorð og ráðstefnuslit

Ráðstefnustjórar: Margrét Jónsdóttir Njarðvík og Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir.

Ráðstefnugjald kr. 24.900. Innifalið í þátttökugjaldi eru námsgögn, kaffiveitingar og hádegisverður.

Skráning á ráðstefnuna

Nemendagjald: kr. 12.500.  Sérkjör fyrir nemendur. Alls til sölu 50 nemendamiðar, fyrstir koma fyrstir fá.  ATH. Nemendur vinsamlega skrái í athugasemdadálkinn upplýsingar um nám og háskóla. Hér er hlekkur á sérkjör nemenda.

Nemendaskráning

Skráning á ráðstefnuna

Samferða á ráðstefnuna?

Hér er slóð á facebookhóp fyrir þá sem vilja semja um að verða samferða á ráðstefnuna.

cropped-thjonandi-forysta-260x90.jpg

Filed Under: Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Bifröst, Brautryðjendur, Foresight, Framtíðarsýn, Fyrirlestrar, jafningi, Janingi, Ráðstefnur, Servant leader, Servant leadership, Valdar greinar Tagged With: #ServantBifrost, Kolfinna Jóhannesdóttir

Er tími frekjuhundsins liðinn? Þjónandi forysta og brautryðjendur á Bifröst 25. september 2015

September 9, 2015 by Sigrún

Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem hentar og gerir gagn á flestum, ef ekki öllum, sviðum samfélagsins. Á ráðstefnum undanfarin ár hefur verið varpað ljósi á ýmsar hliðar þjónandi forystu bæði í ljósi rannsókna og ekki síður miðað við reynslu og viðhorf fólks á vinnustöðum, stofnunum og félögum. Í ár eru dregin fram tengsl þjónandi forystu við áherslur brautryðjenda á ýmsum sviðum. Viðhorf og aðferðir þjónandi forystu nýtast í öllum viðfangsefnum brautryðjandans sem má draga saman samkvæmt þremur meginþáttum þjónandi forystu (Sigrún Gunnarsdóttir, 2011):

  • Brennandi áhugi. Brautryðjandi sem er þjónandi leiðtogi sýnir viðfangsefni sínu og samferðafólki brennandi áhuga. Áhuginn birtist í einbeitingu og góðri hlustun. Með því að hlusta eftir eigin hugmyndum og hugmyndum annarra eflist skilningurinn. Hlustun og skilningur gerir brautryðjandanum kleift að draga fram mikilvægustu sjónarmiðin og að virkja fólk með sér til góðra verka.
  • Sjálfsþekking. Brautryðjandi sem kýs þjónandi forystu leggur sig fram við sjálfsþekkingu og veit að sjálfsvitund og ígrundun eflir færni til að nýta krafta sína og styrkleika. Brautryðjandinn áttar sig líka á eigin veikleikum og leitar þess vegna til annarra eftir ráðgjöf og vinnuframlagi. Sjálfsþekking eflir sjálfstraust brautryðjandans og gerir honum auðveldara að koma fram af hógværð og auðmýkt.
  • Framtíðarsýn. Brautryðjandi hefur skýra framtíðarsýn og hugsjón sem hvetur hann áfram. Framtíðarsýn þjónandi leiðtoga tengist ábyrgðarskyldu brautryðjandans sem hann smitar til samferðafólks. Hugsjón og ábyrgðarskylda sameinar kraftana, styrkir samstarfið og viðheldur hvatningu og löngun til að ná markmiðunum.

Á ráðstefnunni á Bifröst 25. september 2015 munu fyrirlesarar og þátttakendur leita svara við spurningunni: ,,Hvernig getur þjónandi forysta verið drifkraftur brautryðjandans?”. Fyrirlesarar gefa innsýn í þjónandi forystu í viðskiptum, heimspeki, verkfræði, sveitarstjórnum og á fleiri sviðum mannlífsins. Til dæmis verður varpað ljósi á hvernig hógværð og auðmýkt leiðtogans eflir starfsgetu og starfsánægju starfsmannanna. Sömuleiðis verður glímt við staðhæfinguna um að ,,að tími frekjuhundsins sé líklega liðinn”.

Tre-stigur

 

 

 

 

 

 

 

 

Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015

Skráning

Sjötta ráðstefnan um þjónandi forystu verður haldin á Háskólanum á Bifröst föstudaginn 25. september 2015 kl. 10 – 15:30.

Yfirskrift ráðstefnunnar er: Þjónandi forysta og brautryðjendur. 

https://thjonandiforysta.is/radstefna2015/

Skráning

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Ábyrgð, Ábyrgðarskylda, Bifröst, Brautryðjendur, einlægur áhugi, Foresight, Framtíðarsýn, Humility, innri starfshvöt, Intrinsic motivation, Listening, Oversight, Ráðstefnur, Responsibility, Robert Greenleaf, sjálfsþekking, Valdar greinar, Vision, Vitund

Er Lars Lagerbäck þjónandi leiðtogi?

September 8, 2015 by Sigrún

Margt bendir til þess að Lars Lagerbäck þjálfari íslenska fótboltalandsliðsins sé þjónandi leiðtogi. Það fyrsta sem vekur upp þær pælingar er framkoma hans við leikmennina og áherslur hans í viðtölum við fjölmiðla. Í báðum tilvikum er það hógværð sem er einkennandi, yfirvegum og virðing gagnvart náunganum. Annað sem bendir sterklega til þess að Lagerbäck sé þjónandi leiðtogi er fókusinn sem hann hefur á tilganginn og framtíðarsýn liðsins. Þessi skýri fókus endurspeglast greinilega hjá liðsmönnunum.

Áhugavert er að rýna í aðferðir og viðhorf Lars Lagerbäck og bera það saman við hugmyndafræði þjónandi forystu og þeirra þriggja þátta sem eru einkennandi fyrir þjónandi leiðtoga. Byggt er á viðtölum við Lagerbäck og við liðsmenn íslenska fótboltalandsliðsins og erindi sem Lagerbäck hélt um stjórnun og forystu á fundi Félags atvinnurekenda snemma árs 2015.

  • Fyrsta einkenni þjónandi forystu er einlægur áhugi á öðrum, hugmyndum þeirra og þörfum. Hjá Lars Lagerbäck kemur þetta mjög skýrt fram. Hann leggur áherslu á að sýna leikmönnum virðingu og traust. Hver og einn liðsmaður skiptir máli og hann leggur sérstaka áherslur á að hver maður fái að njóta sín. Frelsi einstaklinganna og sjálfræði þeirra er grundvallaratriði í þjónandi forystu og þetta kemur líka fram hjá Lagerbäck. Hann virkjar sjálfstæði hvers leikmanns og markmiðið er að hver og einn geti tekið ákvarðanir.
  • Annar hluti þjónandi forystu er sjálfsþekking og sjálfsvitund sem skerpist með því að líta í eigin barm, að horfa á sig í speglinum eins og Lagerbäck orðar það sjálfur. Hann telur mikilvægt að þjálfarinn sé meðvitaður um sjálfan sig, eigin skilaboð, t.d. óorðuð skilaboð og líkamstjáningu. Sjálfsþekking og góð sjálfsmynd birtist líka í hógværri framkomu og auðmýkt sem eru sérstök einkenni Lars Lagerbäck sem án ef smitast til leikmannanna og bætir án ef alla samvinnu þeirra á vellinum.
  • Þriðja einkenni þjónandi forystu er skörp framtíðarsýn og markmið. Þetta endurspeglast í ábyrgðarskyldu og aga þar sem hver og einn þekkir eigin ábyrgð og hlutverk. Fókus á aðalatriðin er líklega einn af þeim þáttum sem einkenna íslenska fótboltalandsliðið og skýrist án efa af skarpri sýn Lagerbäck á markmiðin og áherslu hans á aga og ábyrgð hvers og eins. Hann leggur áherslur á fáar reglur, ábyrgð hvers og eins og að fókusinn sé á aðalatriðin.

Það væri fróðlegt að rýna nánar í áherslur í þjálfun í íþróttum út frá hugmyndafræði þjónandi forystu. Hér er vísun í nokkrar pælingar sem komu fram í viðtal á RUV föstudaginn 3. september sl. Viðtalið hefst á 36. mínútu.

Lars Lagerbäck

Lars Lagerbäck

Mynd frá: http://www.ksi.is/landslid/nr/11474

 

Landslið karla

Mynd úr myndasafni KSÍ
http://myndasafn.ksi.is/fotoweb/Grid.fwx

 

Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015

Skráning

 

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Ábyrgð, Ábyrgðarskylda, einlægur áhugi, Fótbolti, Foresight, Framtíðarsýn, Hlustun, Humility, innri starfshvöt, Intrinsic motivation, Lars Lagerbäck, Listening, Servant leadership, sjálfsþekking, Tilgangur, Valdar greinar

Þjónandi forysta hjá Félagsþjónustunni í Árborg

August 28, 2015 by Sigrún

Félagsþjónustuna í Árborg og Þekkingarsetur um þjónandi forystu hafa undanfarin misseri verið í samstarfi um fræðslu og innleiðingu á þjónandi forystu. Markmiðið er að styðja starfsmenn við að kynna sér hugmyndafræði þjónandi forystu og að nýta hana í starfi.

Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, félagsmálastjóri lýsir verkefninu með þessum orðum:

Félagsþjónustan í Árborg heillaðist af hugmyndafræði Þjónandi forystu og ákvað í samráði við Sigrúnu Gunnarsdóttur að fá heilsdags námskeið fyrir forstöðumenn og sérfræðinga hennar.  Hjá félagsþjónustu Árborgar starfa rúmlega 100 starfsmenn og til að festa í sessi fræðin þá var ákveðið að þeir 23 starfsmenn sem sátu námskeiðið myndu skiptast í 4 leshópa.  Hópstjórar hittust og samræmdu efni og efnistök.  Hóparnir hittust 3-4 sinnum þar sem hugmyndafræðin var mátuð við þá deild sem viðkomandi starfsmenn störfuðu og eins sveitarfélagið í heild.  Stefnt er að því að halda sameiginlegan fund með þeim sem sóttu námskeiðið og finna sameiginlega gildi félagsþjónustunnar.  Næstu skref eru að fleiri starfsmenn fái fræðslu svo við séum öll meðvituð um hugmyndafræði þjónandi forystu.  Þeir starfsmenn sem fóru á fræðsluna hafa nýtt sér hugmyndafræðina inn í starf sitt en meðal verkefna hjá okkur er að bæta verklagsreglur svo allir viti hvert við erum að stefna og við göngum í takt.  Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem hentar vel hjá félagsþjónustunni og við erum mjög ánægð með að vera innleiða hana í starf okkar.

Arborg_blatt_stort_texti_ofanvid-2362pix

thjonandi-forysta-logoInnleiðing þjónandi forystu byggir á samtali og þekkingarleit hvers og eins. Vitun og sjálfsþekking er grundvallaratriði. Byrjunarreiturinn er einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra og vilji til að þjóna. Robert Greenleaf frumkvöðull þjónandi forystu lagði höfuðáherslu á hlustun og samtal. Leiðtoginn hefur skarpa sýn á hugsjónina og skapar samtal um tilgang og framtíðarsýn. Segja má að samtal um tilgang starfa sé birtingarmynd þjónandi forystu og samtalið er líka leið til að innleiða þjónandi forystu.

Þjónandi leiðtogi er í fyrsta lagi þjónn. … Það byrjar með eðlislægri tilfinningu um að vilja þjóna, að þjóna fyrst. Síðar leiðir meðvituð ákvörðun viðkomandi til forystu. Slíkur einstaklingur er ólíkur þeim sem er fyrst leiðtogi, líklega vegna takmarkaðrar löngunar til valda og efnislegra gæða. …Munurinn felst í því að þjónninn leitast við að mæta helstu þörfum þeirra sem hann þjónar. Besti prófsteinninn á þetta, og jafnframt sá þyngsti er: Vaxa þau sem er þjónað sem einstaklingar? Verða þau heilsuhraustari? Fá þau meiri visku, frelsi og sjálfstæði? Verða þau sjálf líklegri til að vera þjónar? Og jafnframt, munu þau sem minnst mega sín í samfélaginu njóta góðs af, eða að minnsta kosti, ekki verða fyrir meira ójafnræði? (Greenleaf 1970 / 2008, bls. 15).

Robert K. Greenleaf á áttræðisafmæli sínu árið 1984

Robert K. Greenleaf á áttræðisafmæli sínu árið 1984

Filed Under: Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, árborg, einlægur áhugi, Framtíðarsýn, Hlustun, innleiðing, Robert Greenleaf, samtal, Servant leader, Servant leadership, sjálfsþekking, Tilgangur, Vitund

Valdalíkan eða þjónustulíkan: þjónandi leiðtogi er fremstur meðal jafningja. Hugmyndir Robert Greenleaf um skipulagsheildir

August 11, 2015 by Sigrún

Að safna valdi á fárra hendur eða að skapa völd margra? Robert Greenleaf hélt því fram að það væru tvær leiðir til að stjórna fyrirtækjum, félögum og stofnunum. Um væri að ræða tvö líkön, þ.e. valdalíkan og þjónustulíkan.

Valdalíkanið er hin hefðbundna aðferð þar sem einn trónir eftstur á píramída og þar fyrir neðan eru undirmenn sem taka við fyrirmælum þess sem efst situr. Í valdalíkaninu koma hugmyndirnar frá fáum, fáir bera ábyrgð og fáir taka forystu. Samskiptin fara einna helst eftir formlegum boðleiðum og lítil áhersla á sveigjanleika. Áherlsa er á skammtímamarkmið.

Í þjónustulíkani myndar teymi forystu og leiðtoginn er fremstur meðal jafningja (first among equals). Greenleaf talar um að leiðtoginn sé formaður (foreman). Teymið skapar hugmyndir, deilir valdi, ábyrgð og forystu. Samskiptin eru bæði formleg og óformleg og ýta undir sköpun og nýjar lausnir. Áhersla er á langtímamarkmið. Um leið og valdi er dreift er ljóst hverju sinni hver er fremstur meðal jafningja sem tekur úrslitaákvarðanir þegar mikið liggur við.

Hugmyndum Greenleaf um þjónustulíkanið hefur vaxið fiskur um hrygg og birtast til dæmis í hugmyndum um skipulag sem kennt er við ,,holacracy” þar sem áhersla er á hópa sem eru sjálfstæðir og er falin ábyrgð á verkefnum, skipulagi, stjórnun og forystu. Frægust er tilraun Zappos um innleiðingu þessara hugmyndir. Hugmyndin um holacracy er nátengd hugmyndinni um reinventing organization. Þekktasta dæmið frá Buurtzorg í Hollandi sem hefur náð afburðagóðum árangri í heilbrigðisþjónustu með því að fela starfsfólkinu sjálfstæði, sjálfræði og ábyrgð á verkefnum sínum. Hér á landi hefur til dæmis hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri starfað eftir svipuðum hugmyndum og m.a. innleitt aðferðir holacracy sem hafa reynst þeim vel.

Um leið og valdi er deilt og ábyrgð er sameiginleg er verklag skýrt og verkferlar allir ljósir þar sem ábyrgð á hverjum þætti liggur fyrir. Margt bendir til þess að þessar nýju áherslur í skipulagi, hugmyndafræði þjónandi forystu, breytingastjórnun og straumlínustjórnun (lean management) fari sérstaklega vel saman og séu vænlegar aðferðir til árangurs.

Robert Greenleaf setti fyrst fram hugmyndir sínar um þjónandi forystu árið 1970 og lýsti þar hversu árangursrík það væri fyrir fyrirtæki og hópa þegar leiðtoginn er í senn leiðtogi og þjónn, skapaði stöðugt jafnvægi á milli þessara tveggja hlutverka. Síðustu árin hefur áhugi á hugmyndum hans aukist verulega og fjöldi bóka, greina og rannsókna um þjónandi forystu vaxið og sömuleiðis áhuginn á hugmyndafræðinni á vettvangi atvinnulífsins. Hérlendis hefur áhugi á þjónandi forystu aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Æ fleiri fyrirtæki, félög og stofnanir sýna hugmyndafræðinni áhuga og vinna að því að hagnýta hana í skipulagi, samskiptum, stjórnun og forystu.

Á ráðstefnunni á Bifröst 25. september 2015 fjallaði Einar Svansson, lektor við Háskólann á Bifröst um skipulagsheildir í ljósi þjónandi forystu og byggir umfjöllunina meðal annars á reynslu fyrirtækja sem hafa innleitt holacracy og reinventing organizations. Hér er upptaka af erindi Einars:

Byggt á Robert Greenleaf (1972): The Institution as Servant og Kent M Keith (2008): The Case for Servant Leaderhip

Bifrost - stór

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sjötta ráðstefnan um þjónandi forystu á Háskólanum á Bifröst föstudaginn 25. september 2015 kl. 10 – 15:30. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Þjónandi forysta og brautryðjendur. Á ráðstefnunni munu fyrirlesarar og þátttakendur leita svara við spurningunni: ,,Hvernig getur þjónandi forysta verið drifkraftur brautryðjandans?”.

Snemmskráning fyrir 15. ágúst 2015: Þáttökugjald kr. 19.900. Skráning frá og með 15. ágúst 2015: Þátttökugjald kr. 24.900

Drucker Servant

 

 

 

 

 

 

 

thjonandi-forysta-logo

 

 

 

 

 

 

Grotta fjara 2

Filed Under: Accountability, Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Ábyrgð, einar svansson, Foresight, Framtíðarsýn, Greenleaf Center, Hlustun, holacracy, Hugmyndafræðin, Humility, jafningi, Robert Greenleaf, Servant leader, Valdar greinar

Þrjár meginstoðir þjónandi forystu samkvæmt hugmyndum Robert Greenleaf

July 25, 2015 by Sigrún

Þrjár meginstoðir þjónandi forystu

Þjónandi forysta byggir á grunngildum lýðræðissamfélags og er dýrmætur grunnur að árangursríku skipulagi, stjórnun og samskiptum á vinnustöðum og félögum. Þjónandi leiðtogar kunna jafnvægislist umhyggju, aga, sveigjanleika og reglufestu. Hugmyndum Robert K. Greenleaf um þjónandi forystu má lýsa á grunni þriggja meginstoða sem eru innbyrðis tengdar og móta viðhorf, aðferðir og lífshætti þjónandi leiðtoga.

  1. Einlægur áhugi á hugmyndum og hag annarra. Þjónandi forysta felur í sér umhyggju fyrir hagsmunum og velferð annarra framar eigin völdum og vegsauka. Sannur áhugi birtist í hlustun sem skapar traust og er mikilvægt skref til að mæta þörfum annarra. Virðing fyrir hugmyndum og skoðunum annarra þarf ekki að fela í sér samþykki en endurspeglar viðurkenningu á sjálfstæði, frelsi og sköpunarkrafti viðmælandans. 
  1. Vitund og einbeittur ásetningur til sjálfsþekkingar. Þjónandi leiðtogi leitast við að efla sjálfsþekkingu sína og færni í gefandi og markvissum samskiptum. Vitund um áhrif eigin orða og athafna eykur sjálfsþekkingu sem er nátengd sjálfsöryggi. Sjálfsöryggi er forsenda auðmýktar og hógværðar. Með hógværri framgöngu gefur leiðtoginn öðrum svigrúm og tækifæri og opnar þannig farveg hugmynda og sköpunar.
  1. Skýr mynd af framtíðarsýn, hugsjón og tilgangi starfa. Vitund um hugsjón og tilgang starfa er drifkraftur þjónandi leiðtoga. Þekking á fortíð, vitund um nútíð og skýr sýn á framtíð gefur leiðtoganum forskot sem er um leið forsenda þess að hann geti tekið forystu og borið ábyrgð á verkefnum sínum. Þjónandi leiðtogi leitast við að sjá heildarmynd og nálgast einstaklinga, verkefni og samfélög sem eina heild. Heildræn nálgun er undirstaða samfélagslegrar ábyrgðar og aga sem einkennir þjónandi forystu og eykur um leið möguleika til að sjá tækifærin hverju sinni.

Góðir leiðtogar kveikja með fólki löngun til góðra verka. Þeir mynda tengsl og taka þátt í samtali um tilgang starfa og um framtíðina sem skapar aga. Alls staðar er þörf fyrir góða leiðtoga, hvort sem þeir eru ráðnir til þess sérstaklega eða ekki. Þjónandi leiðtogi skapar lífsgæði og árangur fyrir sjálfan sig og aðra. Þess vegna er mikilvægt að finna leiðir til að sameina krafta okkar til að þjóna og veita hvort öðru forystu með ábyrgð, umhyggju, staðfestu og hógværð.

 

Byggt á: Sigrún Gunnarsdóttir. (2011). Þjónandi forysta – fyrri hluti. Glíman, 8, 245-262. 

Servant leadership – Key elements – Robert Greenleaf

 

Vatn Gras

 

 

 

Filed Under: Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, einlægur áhugi, Framtíðarsýn, Robert Greenleaf, Servant leadership, sjálfsþekking, Valdar greinar Tagged With: Þrjár stoðir þjónandi forystu, Robert Greenleaf

Fimm aðferðir leiðtogans til að miðla framtíðarsýn, tilgangi og von. Um hugmyndir Robert Greenleaf

July 4, 2015 by Sigrún

Framtíðarsýn þjónandi leiðtoga. Með því að tala um markmiðin styrkir leiðtoginn öryggi og von annarra. Robert Greenleaf álítur hugsjón, tilgang og markmið hafa sérstaka og djúpa merkingu í starfi fyrirtækja og stofnana.

1) Hugsjón og hugmyndir sameina fólk, gefa starfi þess merkingu, glæða von og móta framtíðarsýn. Hugsjón og tilgangur er leiðarljós þjónandi leiðtoga. Leiðtoginn er þjónn sameiginlegra hugmynda starfsfólks og hann er líka þjónn hugsjónarinnar. Hlutverk leiðtogans er að hafa yfirsýn, skapa samtal um tilgang starfa og að sjá til framtíðar (Greenleaf 1978, 7-8; 2008, 25).

2) Hin sameiginlega hugsjón, tilgangur og markmið koma fram í daglegu samtali á vinnustaðnum. Í samtalinu slípast hugmyndir og samkomulag næst. Greenleaf bendir á að sameiginlegar hugmyndir eru ekki alltaf formlegar, ekki endilega skrifaðar niður á blað eða hengdar upp á vegg. Hugmyndir og samkomulag verða til í skapandi samtali sem þjónandi leiðtogi eflir og styður. Hann teflir saman ólíkum sjónarmiðum, glæðir gagnrýna hugsun og endurskoðun. Starfsfólkið er hvatt til að skoða og endurskoða og nota síðan sannfæringarkraft til að ná samkomulagi og skapa sameiginlegan draum (Greenleaf 1978, 6-8).

3) Hlutverk hvers og eins er að sjá hvað viðkomandi getur gert til að láta hinn sameiginlega draum rætast. Skylda leiðtogans og alls starfsfólks í þjónandi forystu er að vera opinn fyrir tækifærum og möguleikum. Slíkt hugarfar eflir starfsfólkið og glæðir tilfinningu þess fyrir gildi starfanna (Greenleaf 1978).

4) Innsæi og næmi eykur líkurnar á því að hafa yfirsýn, koma auga á tækifærin og sjá samhengi hlutanna og sjá til framtíðar (Greenleaf 1978). Greenleaf bendir á að forskot leiðtogans felist ekki síst í því að hafa tilfinningu fyrir hinu ókomna, greina hvers má vænta, hafa forgöngu um hlutina og leiða fólk áfram. Hugsjónin er grundvöllurinn og hinn þjónandi leiðtogi nýtir eigið innsæi og yfirsýn til að skerpa framsýn og sannfærir samstarfsfólk um að fylkjast að settu marki.

5) Hlutverk leiðtogans er að hafa sterka tilfinningu fyrir því sem fram fer hverju sinni, hver staðan er í nútíð, og um leið að vera fær um að horfa fram á veginn, segja til um hvað sé líklegast að framtíðin beri í skauti sér. Að sjá til framtíðar er þýðingarmikið hlutverk leiðtogans. Greenleaf lítur á það sem alvarlegan brest ef leiðtoginn er ekki fær um að sjá til framtíðar. Að mati Greenleafs verður til siðferðileg brotalöm ef leiðtoginn er ekki fær um þetta tvennt, þ.e.a.s. að vera í senn tengdur við nútíð og framtíð og hafa þar með forskotið sem skapar forystuna (Greenleaf 2008, 26–27).

Byggt á grein Sigrúnar Gunnarsdóttur um þjónandi forystu í Glímunni, 2011.

Greenleaf Markmid

Filed Under: Foresight, Framtíðarsýn, Robert Greenleaf, Sameiginlegur draumur, Valdar greinar Tagged With: Framtíðarsýn, Greenleaf, Tilgangur, Von

Framtíðarsýn þjónandi leiðtoga

June 7, 2015 by Sigrún

Eitt af aðaleinkennum þjónandi leiðtoga er skörp sýn á hugsjón og framtíðina og Greenleaf (1970) bendir á að hæfileiki til að sjá fram á veginn skapi raunverulegt forskot leiðtogans til forystu. Framtíðarsýn er forystuhluti þjónandi forystu.

1) Gildismat og tilgangur. Framtíðarsýn þjónandi leiðtoga felur í sér gildismat sem byggir á innri löngun til að láta gott af sér leiða, að sjá fram á veginn og að leggja sitt af mörkum til að skapa bjarta framtíð fyrir einstaklinga, fyrirtæki, félög eða samfélag.

2) Framtíðarsýnin tengist eiginlægum áhuga á þörfum annarra og einbeittum áhuga á ná markmiðum starfsins og þar með tilgangi verkefnanna. Framtíðarsýn leiðtogans snýst einnig um ábyrgðina sem hann ber og má skoða í ljósi samfélagslegrar ábyrgðar.

3) Samfélagsleg ábyrgð. Gildi framtíðarsýnar í þjónandi forystu varpar þannig ljósi á siðferðilega og samfélagslega ábyrgð og undirstrikar að í þjónandi forystu eru lögð áhersla á langtímamarkmið ekki síður en skammatímamarkmið (Greenleaf, 1972).

4) Framtíðarsýn og tilfinning fyrir tilgangi skerpist með næmri vitund og góðu innsæi. Verkefni leiðtogans er að miðla framtíðarsýninni til samferðafólks og virkja það til skapandi hugsunar til að skerpa hina sameiginlegu sýn og hinn sameiginlega draum.

5) Sameiginlegur draumur og von. Greenleaf (1978) benti á að framtíðarsýn og sameiginlegur draumur sameini fólk og sé mikilvæg til að safna fólki saman um sameiginlega von.

6) Hlutverk leiðtogans er að glæða samtal um tilgang verkefnanna og að hvetja samstarfsfólk sitt til að skapa fleiri hugmyndir og fleiri drauma og gefa þannig öllum tækifæri til að verða leiðtogar framtíðarsýnar, hugsjóna og drauma. Þjónandi leiðtogi eflir gagnrýna og uppbyggilega umræðu, hvetur fólk til að skiptast á skoðunum, ræða ágreining og stilla saman strengi um sameiginlega sýn á verkefni, tilgang og framtíð.

7) Innri starfshvöt. Áherslur Greenleaf á framtíðarsýn (1970; 1978) tengjast kenningu Fredrick Herzberg um innri starfshvöt (1987) sem byggir á því að starfsfólk vaxi og dafni með því að njóta eigin hæfileika og að hafa vitund um tilgang starfa sinna. Innri starfshvöt er drifkraftur hins góða starfs og um leið árangurs.

8) Framtíðarsýn snýst um vitund um kjarna málsins, hugsjón og tilgang starfanna sem er uppspretta starfsgleði. Herzberg benti á að innri starfshvöt verður til vegna starfsins sjálfs og löngunar til að vaxa og þroskast, vera virt/ur, bera ábyrgð, hafa áhrif og ná árangri. Hér sést samhljómurinn við grunnstef þjónandi forystu um einlægan áhuga á þörfum og hagsmunum annarra (Greenleaf, 2008). Herzberg (1987) sýndi fram á að innri starfshvöt væri mikilvægasti þátturinn til að skapa starfsgleði og styrktist með þekkingu, frelsi, góðum samskiptum og stuðningi stjórnenda. Hér má aftur sjá tengslin við þjónandi forystu þar sem sjálfsþekking  og vitundum um tilgang starfsins og hugsjón eru lykilþættir.

Foresight – Vision – Values – Intrinsic motivation – Robert Greenleaf

Regnbogi-2

 

Filed Under: Þjónandi leiðtogi, Foresight, Framtíðarsýn, Hugsjón, innri starfshvöt, Intrinsic motivation, Listening, Oversight, Responsibility, Robert Greenleaf, Sameiginlegur draumur, Servant leader, Servant leadership, Tilgangur, Valdar greinar, Vision, Vitund, Von, Yfirsýn Tagged With: þjónandi forysta, Forystuhluti þjónandi forystu, Framtíðarsýn, Gildismat, Greenleaf, Hugsjón, Innri starfshvöt, Sameiginlegur draumur, Servant leadereship

  • « Previous Page
  • 1
  • 2
  • 3
  • Next Page »

Fylgstu með okkur

  • Facebook
  • Twitter
  • YouTube

Þjónandi forysta í hnotskurn

Í stuttu máli má lýsa þjónandi forystu sem samspili þriggja meginstoða sem allar eru innbyrðis tengdar og mynda eina heild:

1) Fyrsta stoðin er einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra sem birtist með einbeittri hlustun og aðgerðum sem efla aðra og aðstoða þá til að blómstra og að njóta sín.

2) Önnur stoðin er vitun og sjálfsþekking sem birtist í sjálfsöryggi, auðmýkt og hugrekki.

3) Þriðja stoðin er framsýni og skörp sýn á hugsjón sem birtist með sýn á tilgang og ábyrgðarskyldu.

Segja má að fyrstu tvær stoðirnar myndi þjónustuhluta þjónandi foyrstu og þriðja stoðin myndar forystuhlutann. Sjá nánari lýsingu hér.

Líkanið sem hér er lýst byggir á hugmyndum Robert K. Greenleaf sem upphafsmaður þjónandi forystu og birti fyrsta rit sitt um hugmyndina árið 1970 og segir þar m.a.: ,,Þjónandi leiðtogi er í fyrsta lagi þjónn. […] Það byrjar með eðlislægri tilfinningu um að vilja þjóna, að þjóna fyrst. Síðar leiðir meðvituð ákvörðun viðkomandi til forystu. Slíkur einstaklingur er ólíkur þeim sem er fyrst leiðtogi, líklega vegna takmarkaðrar löngunar til valda og efnislegra gæða. (Greenleaf, 1970/2008, 15). Sjá nánar hér.

Copyright © 2023 · News Pro Theme on Genesis Framework · WordPress · Log in

 

Loading Comments...