Þekkingarsetur

Þekkingarsetur um þjónandi forystu hefur það markmið að miðla þekkingu um þjónandi forystu með námskeiðum, kynningarerindum, ráðgjöf og ráðstefnum. Þekkingarsetrið styður þekkingarþróun um þjónandi forystu í gegnum kennslu og rannsóknir. Sérfræðingar á vegum þekkingarsetursins skipuleggja og veita þjónustuna miðað við óskir og aðstæður hverju sinni. Fyrirspurnir má senda til fyrirspurn@greenleaf.is eða sigrun hjá thjonandiforysta.is.

Framkvæmdateymi skipa Þorkell Óskar Vignisson, ritari, Erna Reynisdóttir, gjaldkeri og Sigrún Gunnarsdóttir, formaður (sigrun hja thjonandiforysta.is).

Þekkingarsetur um þjónandi forystu starfar hér á landi samkvæmt samningi við Greenleaf Center Indianapolis. Um er að ræða samstarfssamning til að kynna þjónandi forystu í gegnum formlegt starf þekkingarsetursins (Greenleaf Center Iceland). Samningurinn felur meðal annars felur í sér aðgang að efni sem gefið er út á vegum bandaríska setursins sem og samstarf um ráðstefnur, námskeið og þekkingarþróun um þjónandi forystu.

Áhugamannafélag um þjónandi forystu myndaði bakland skipað áhugafólki sem sótt hefur námskeið og málþing um þjónandi forystu hér á landi í aðdraganda samningsins. Í baklandinu er fjölbreyttur hópur víða að úr samfélaginu og er hlutverk þess að móta stefnu um megináherslur og verkefni til að kynna og efla þjónandi forystu hér á landi. Baklandið fundar reglulega og tekur þátt í mótun stefnu þekkingarsetursins.

Þekkingarsetur um þjónandi forystu er rekið af Áhugamannafélagi um þjónandi forystu og framkvæmdateymi hrindir í framkvæmd verkefnum samkvæmt stefnu hverju sinni. Fyrirspurnum, tillögum og ábendingum má beina til fyrirspurn@greenleaf.is eða thjonandiforysta hjá thjonandiforysta.is.

Þekkingarsetur um þjónandi forystu, kt. 480411 2260, bankaupplýsingar: 331 26 4804

Þjónandi forysta - Servant Leadership

Umsagnir viðskiptavina Þekkingarseturs um þjónandi forystu:

Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu:

Allir opinberir starfsmenn eru þjónar almennings og það ber okkur sem störfum hjá hinu opinbera að hafa í huga í öllum okkar verkefnum. Það er auðvelt að fjarlægjast þetta grundvallarhlutverk í dagsins önn og því er mjög gott að geta leitað til Þekkingarseturs um þjónandi forystu til þess að minna sjálfan sig og samstarfsfólk sitt á mikilvægi þess að vera þjónandi en ekki síður á þá staðreynd að við gegnum ÖLL forystu bæði í starfi og einkalífi.

Bylgja Kærnested, hjúkrunardeildarstjóri, Hjartadeild 14-EG, Landspítala:

Það sem ég hef lært af lestri mínum og ráðstefnum um þjónandi forystu er að bestu leiðtogar eru þeir sem lýsa ljósinu á aðra, greiða götur þeirra og þeir fá að njóta sín. Ég hef það ávallt að leiðarljósi og líka það að taka sjálfan sig ekki of hátíðlega og koma fram við alla eins og ég vil að komið sé fram við mig. Ef ég væri ekki þjónandi leiðtogi þeirra sem vinna með mér og sjúklinga Landspítalans þá hefði ég litið að gera í því starfi sem ég er í dag. Þetta er það sem gerir daga mína í vinnunni gefandi og góða.

Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri, Velferðarráðuneyti:

Stjórnendur velferðarráðuneytisins óskuðu eftir sérstöku námskeiði í hugmyndafræði þjónandi forystu sem Sigrún Gunnarsdóttir hjá Þekkingarsetri um þjónandi forystu skipulagði og stýrði. Við erum mjög ánægð með námskeiðið og teljum að hugmyndafræði þjónandi forystu sé mjög góð og að sú þekking hafi eflt okkur sem stjórnendur. Einlægur áhugi á velferð annarra og vilji til að láta gott af sér leiða eins og kemur fram í hugmyndafræði þjónandi forystu er grundvallarþáttur okkar í velferðarráðuneytinu eins og kemur greinilega fram í gildum ráðneytisins sem eru virðing, fagmennska, framsýni og árangur.

Úr sögu Þekkingarseturs um þjónandi forystu

Árið 2006 hófst undirbúningur að stofnun Þekkingarseturs um þjónandi forystu. Fyrsti opinberi viðburðurinn í nafni þjónandi forystu hér á landi var ráðstefna sem haldin var í júní 2008. Ráðstefnan var fjölsótt og þangað komu einstaklingar víða að úr samfélaginu og hlýddi á orð sérfræðinga lýsa hugmyndum sínum og reynslu af þjónandi forystu. Meðal fyrirlesara voru Kent M Keith sem þá var í forsvari fyrir Greenleaf Center for Servant Leadership í Bandaríkjunum, James Autry sem er einn af þekktari rithöfundum á svið þjónandi forystu og fulltrúar frá Schneidar Corporation sem er fyrirtæki á sviði verkfræði og hönnunar og hefur nýtt þjónandi forystu í yfir 25 ár.

Á ráðstefnunni árið 2008 var samtal þátttakenda mikilvægur liður á dagskránni og voru þátttakendur sérstaklega ánægðir með að fá tækifæri til að ræða saman í hópum um efni ráðstefnunnar og eigin pælingar og viðhorf til efnisins. Í framhaldi fyrstu ráðstefnunnar var hafist handa við að móta formlegt samstarf við Greenleafmiðstöðina í Bandaríkjunum og var samningur um samstarf formlega undirritaður á annarri ráðstefnunni hérlendis snemma árs 2010. Síðan hafa reglulega verið haldnar ráðstefnur með svipuðu formi og fyrsta ráðstefnan en mismunandi hliðar þjónandi forystu verið teknar til skoðunar.

Erlendir sérfræðingar hafa sótt okkur heim og gefið innsýn í eigin reynslu og þekkingu og jafnframt hafa íslenskir sérfræðingar og áhugafólk um þjónandi forystu deilt hugmyndunum sínum og viðhorfum. Samtal þátttakenda hefur síðan fléttað allar þessar hugmyndir og fært samræðuna enn þá nær íslenskum aðstæðum, áhuga og þörfum fólks og fyrirtækja hér á landi. Samhliða ráðstefnuhaldinu hefur Þekkingarsetur um þjónandi forystu annast fræðslu, ráðgjöf, kennslu og rannsóknir um þjónandi forystu.

thjonandi-forysta-logo