Þjónandi forysta

  • Þekkingarsetur, viðburðir
    • Ráðstefnur hér á landi frá 2008
      • Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015
      • Ráðstefna á Bifröst 31. október 2014 – Dagskrá
      • Samstaða og árangur – Ráðstefna 14. júní 2013
  • Pistlar
  • Rannsóknir, greinar & bækur
    • Þjónandi forysta í hnotskurn
    • Í atvinnulífinu
    • Líkan Dirk van Dierendonck um þjónandi forystu
    • Íslenskar rannsóknir
  • Fréttabréf
  • Hafa samband
  • English
You are here: Home / Archives for Sigrún

Forvarnir kulnunar í starfi og heilsueflandi þjónandi forysta

September 21, 2022 by Sigrún

Vanlíðan í starfi er vaxandi vandi á vinnustöðum og mikilvægt er að leiðtogar og starfsmenn séu meðvitaðir um og beini sjónum að heilbrigðu starfsumhverfi og viðurkenndum áhrifaþáttum á vinnustað sem geta eflt vellíðan og dregið úr líkum á kulnun í starfi.

Þekking okkar um heilbrigt starfsumhverfi byggist á rannsóknum ýmissa frumkvöðla sem vörpuðu ljósi á sálfélagslega áhrifaþætti á vinnustað og tengsl þeirra við starfsánægju, vellíðan og forvarnir gegn kulnun í starfi. Rannsóknir þessar ná aftur um fjörtíu ár þegar Christina Maslach birti fyrstu rannsóknir sínar um áhrifaþætti kulnunar í starfi og á svipuðum tíma birtu Karasek og Theorell tímamótarannsóknir sínar um samband álags, áhrifa og stuðnings við líðan fólks í starfi.

Nýr bókarkafli varpar ljósi á stöðu þekkingar og rannsóknir síðustu ára um áhrifaþætti á vinnustað sem tengjast kulnun í starfi, árangursríkum forvörnum og heilsueflandi þjónandi forystu. Kaflinn lýsir niðurstöðum fræðilegs yfirlits um áhrifaþætti kulnunar í starfi sem snúa einkum að langvarandi álagi og vandamálum í starfi, takmörkuðum áhrifum á eigin störf og takmörkuðum félagslegum stuðningi starfsfólks og stjórnenda.

Rannsóknir sýna að sjálfræði getur verndað starfsmann fyrir neikvæðum áhrifum álags og sama á við um félagslegan stuðning. Þá sýna rannsóknir að aðgangur að bjargráðum sem fylgja ábyrgðarskyldu og áhrif á eigið starf geta unnið gegn vanlíðan fólks í starfi. Sýn á tilgang starfa og innri starfshvatar efla starfsánægju og sama gildir um umbun sem er í takt við framlag.

Skýr ábyrgðarskylda, áhrif á eigið starf og mótun eigin starfs (e. job crafting) geta minnkað áhrif álags á kulnun í starfi, jafnvel þegar álag er mikið. Þá getur sveigjanleiki í starfi, t.d. í sambandi við tímasetningu og staðsetningu verkefna, dregið úr áhrifum álags á kulnunareinkenni.

Gagnkvæmur félagslegur stuðningur á vinnustað getur dregið úr líkum á kulnun í starfi og felst meðal annars í uppbyggilegum starfsanda, virðingu, kurteisi, sameiginlegum gildum og styðjandi samskiptum. Félagslegur stuðningur í starfi getur virkað sem forvörn kulnunar í starfi, jafnvel þegar áhrif á eigin störf eru lítil.

Hér fyrir neðan er mynd af líkani sem byggir á stöðu þekkingar og lýsir samspili stuðnings í starfi og ábyrgðarskyldu sem myndar ramma starfsins. Innan ramma starfsins er starfsmanni falið frelsi til að hafa áhrif á eigið starf, móta eigið starf (e. job crafting) og skapa nýjar hugmyndir.

Heildræn nálgun forystu sem beinist að viðurkenndum áhrifaþáttum á vinnstað er mikilvæg til að tryggja árangursríkar forvarnir kulnunar í starfi og brýnt að viðbrögð og meðferð við kulnun í starfi snúi markvisst að þessum áhrifaþáttum. Mikilvægt er að stjórnendur og leiðtogar séu meðvitaðir um og beini sjónum að viðurkenndum áhrifaþáttum kulnunar í starfi og efli jafnframt virka þátttöku og samvinnu starfsfólks og annarra hlutaðeigandi til forvarna gegn kulnun í starfi.

Heilsueflandi þjónandi forysta beinist að því að efla þætti á vinnustað sem geta verndað starfsmenn gegn því að fá einkenni kulnunar í starfi og lýst er hér að ofan. Hér fyrir neðan er mynd af líkani sem lýsir heilsueflandi þjónandi forystu með heildrænni nálgun sem eflir heilbrigt starfsumhverfi og vellíðan með áherslu á 1) sjálfræði og gagnkvæman stuðning, 2) persónulegan styrk og innri starfshvöt og 3) sameiginlegan tilgang og skýra ábyrgðarskyldu.

Heimild: Sigrún Gunnarsdóttir (2021). Heilsueflandi forysta, heilbrigt starfsumhverfi og vellíðan í starfi. Staða þekkingar. Rannsóknir í viðskiptafræði II. Ritstjórar: Gylfi Dalmann, Runólfur Smári Steinþórsson og Þórhallur Örn Guðlaugsson. Háskólaútgáfan. Bls. 167- 184.

Filed Under: Accountability, Hlustun

Þjónn fólksins

March 6, 2022 by Sigrún

Volodymyr Zelensky forseti Ukraínu hefur stigið fram sem áhrifamikill leiðtogi sem hefur sameinað þjóð sína og uppörvað hana á örlagaríkum tímum innrásar í landið. Zelenskyy hefur ekki síst vakið athygli fyrir að koma fram sem jafningi fólksins og hefur bókstaflega stigið fram sem leiðtogi sem er fremstur meðal jafningja.

Framganga Zelensky á tímum innrásarinnar í Úkraníu sýnir forystu sem mótast af einlægum vilja til þjóna sem og hugrekki og járnvilja til að efla varnir lands og þjóðar.

Þessar áherslur og aðgerðir Zelensky hafa vakið athygli og aðdáun um heim allan og í viðtali á RÚV 6. mars s.l. talaði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands um Zelensky sem ,,þjóðhetju Úkraínumanna og tákn hugrekkis“ og að Zelensky væri ,,táknmynd þess sem er gott og gilt í þjóðarleiðtoga“.

Þjónn fólksins
Aðdragandi forsetatíðar Zelensky er hlutverk hans sem forseti Úkraínu í sjónvarpsþætti sem bar heitið Þjónn fólksins (Servant of the People). Þessi reynsla leiddi síðar til framboðs hans til forseta undir nafni stjórnmálaflokks sem ber sama heiti og sjónsvarpsþátturinn. Zelensky hlaut 73% atkvæða í forsetakosningunum og nýtur nú sívaxandi trausts meðal þjóðarinnar.


Þjónn sem verður leiðtogi

Leiðtogi sem fléttar saman mýkt þjónsins og staðfestu forystunnar endurspeglar megináherslur hugmyndafræði þjónandi forystu sem snúast um 1) einlægan áhuga á hagsmunum annarra, 2) auðmýkt sem byggir á innra öryggi og 3) stefnu sem sameinar fylgjendur. Í þjónandi forystu er leitast við að skapa jafnvægi mildi og festu; ástríki og aga; frelsis og ábyrgðar.


Adam Grant prófessor við Wharton háskólann og höfundur fjölmargra bóka um stjórnun og forystu er einn þeirra sem hefur fjallað um einstaka forystuhæfileika og hugrekki Zelensky. Grant skrifar um einstaka hæfileika Zelensky að geta fléttað saman mjúka og harða hlið leiðtogans; að geta þjónað fólkinu og að gera barist fyrir fólkið. Grant lýsir forystu Zelensky meðal annars þessum orðum:


Við fylgjum leiðtogum sem berjast fyrir okkur og við færum fórnir fyrir leiðtoga sem þjóna okkur

We follow the leaders who fight for us—and we make sacrifices for the leaders who serve us

Árangur þjónandi forystu kemur fram í rannsóknum og nýlegum dæmum sem sýna að áherslur og aðferðir þjónandi forystu reynast árangursríkar í forystu þjóðarleiðtoga eins og framganga Jacindu Ardern forsætisráðherra Nýja Sjálands sýnir meðal annars. Gagnsemi þjónandi forystu hefur jafnframt komið sérstaklega fram á tímum kreppu, til dæmis í árangri ýmissa leiðtoga á tímum Covid-19.

Áhugi á þjónandi forystu hefur aukist undanfarin ár og rannsóknri sýna að hún getur skilað góðum árangri og eflt vellíðan víða í samfélaginu, meðal annars í heilbrigðisþjónustu og í skólum. Þjónandi forysta getur haft góð áhrif á ferðaþjónustu og styrkt árangur íþróttaþjálfunar. Þá getur hagnýting þjónandi forystu haft góð áhrif á rekstur og árangur flugfélaga og haft góð áhrif á líðan og árangur starfsfólks á almennum markaði.

Mynd: https://www.labour.org.nz/jacindaardern

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Ábyrgðarskylda, þjónn verður leiðtogi, einlægur áhugi, Hlustun

Fjölbreytileiki, inngilding og þjónandi forysta

February 22, 2022 by Sigrún

Sannur áhugi á öðrum er leiðarstef þjónandi forystu og snýst um að laða fram hugmyndir, krafta og virkni hvers og eins til að vinna að sameiginlegum tilgangi og markmiðum. Hlutverk leiðtogans er að gefa öllum tækifæri til þátttöku og í raun tækifæri til forystu eftir því sem þekking, reynsla og aðstæður gefa tilefni til.

Talað er um að þjónandi forystu sé starfsandinn á hverjum stað, menningin sem mótar samskipti, skipulag og verkefni og hvílir á sameiginlegum gildum og sameiginlegri sýn. Fjöldi rannsókna sýnir að nálgun þjónandi forystu hefur góð áhrif á vellíðan, skapandi áherslur og árangur þar sem hugmyndir og kraftar sem flestra eru virkjaðir.

Fjölbreytileiki og fjölmenning

Mikilvægi fjölbreytileika og fjölmenningar er æ meira áberandi í daglegri umræðu um atvinnulífið. Það er gömul saga og ný að fjölbreytni í starfsmannahópi skapar auknar líkur á góðri frammistöðu, skapandi lausnum og auknum afköstum hópsins og getur jafnvel skapað þeim verðmætt samkeppnisforskot.

Þegar rætt er um fjölbreytileika er annars vegar átt við fjölbreytileika í sambandi við ytri og lýðfræðileg þætti svo sem aldur og kyn og hins vegar innri undirliggjandi þætti til dæmis gildismat og viðhorf.

Starfsmannahópar sem einkennast af fjölbreyttum undirliggjandi þáttum eru líklegri til þess að bæta frammistöðu og samkeppnisforskot fyrirtækis með því að miðla ólíkri reynslu, koma með ólík sjónarhorn og auðga teymið með fjölbreyttu tengslaneti og uppsprettu upplýsinga til að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Inngilding og þjónandi forysta

Fjölbreytileiki á vinnustað kallar á stjórnun og forystu sem laðar fram og styður fjölbreyttan hóps starfsmanna og virkjar sem flesta með inngildingu (e. inclusion). Mikilvægt er að í daglegri umræðu um fjölbreytileika á vinnustað gleymist ekki að taka mið af lykilþætti fjölbreytileikans sem er inngilding allra meðlima starfsmannahópsins. Hér er átt við að hver og einn upplifi sig sem viðurkenndan á eigin verðugleikum og sem samþykktan þátttakanda í hópnum

Í inngildum (e. inclusive) hópum ríkir traust milli einstaklinga, vilji er til að skilja og virða sjónarhorn hvers annars, hver og einn einstaklingur getur haft einstaka rödd og nýtt eigin styrkleika í starfi.

Leiðtogi hópsins þarf að hafa hæfni til að ná saman og skapa sameiginlega sýn og hafa getu til að miðla sýninni til allra einstaklinga innan hópsins. Þessi nálgun er í raun nálgun þjónandi forystu þar sem að megineinkenni hugmyndafræðinnar er áhugi og traust, sjálfsþekking og auðmýkt, sameiginleg sýn og skýr markmið.

Höf. Þorkell Óskar Vignisson og Sigrún Gunnarsdóttir

Filed Under: Óflokkað Tagged With: auðmýkt, Inclusion, Inngilding

Þjónn verður leiðtogi – Grunnrit um þjónandi forystu

October 17, 2021 by Sigrún

Árið 2018 kom út íslensk þýðing fyrsta rits Robert K. Greenleaf um þjónandi forystu: Þjónn verður leiðtogi.  Ritið var fyrst gefið út árið 1970 og hefur verið þýtt á fjölda tungumála.

Í ritinu fjallar Greenleaf um meginþætti hugmyndar sinnar um þjónandi forystu meðal annars um hlutverk leiðtogans að setja markmið sem vísar til þess að hafa skýran tilgang og að skapa stóran draum:

Orðið „markmið“ er hér notað í þeirri sérstöku merkingu að vísa til hins alltumlykjandi tilgangs, hins stóra draums, draumsýnarinnar, hinnar endanlegu fullkomnunar sem maður nálgast en nær aldrei í raun. Þetta er eitthvað sem eins og sakir standa er utan seilingar, eitthvað til að leitast við að ná, til að færast í áttina að eða verða. Þetta er þannig sett fram að það gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn og skorar á fólk að vinna að einhverju sem það veit ekki enn hvernig það á fyllilega að framkvæma, einhverju sem það getur verið stolt af á meðan það færist í áttina að því.

Sérhvert afrek hefst á markmiði, en ekki bara einhverju markmiði og það er ekki bara einhver sem setur það fram. Sá sem setur markmiðið fram þarf að vekja traust, sérstaklega ef um er að ræða mikla áhættu eða draumkennt markmið, því að þeir sem fylgja eru beðnir að sættast á áhættuna með leiðtoganum. Leiðtogi vekur ekki traust nema maður hafi trú á gildum hans og hæfni (þar á meðal dómgreind) og nema hann hafi nærandi anda (enþeos*) sem mun styðja þróttmikla eftirsókn eftir markmiði.

Fátt gerist án draums. Og til að eitthvað stórt geti gerst, þarf stór draumur að vera til staðar. Á bak við sérhvert mikið afrek er einhver sem dreymir stóra drauma. Til að gera drauminn að veruleika þarf mun meira en þann sem dreymir en draumurinn þarf fyrst að vera til staðar.

Robert K. Greenleaf (2018): Þjónn verður leiðtogi, bls. 28

*Forngríska orðið enþeos merkir að vera uppfullur af guðlegum anda.

Þjónn verður leiðtogi (þýð. Róbert Jack) er til sölu í bókaverslunum og í vefverslun Iðnú.

Filed Under: Þjónandi forysta, Þjónn verður leiðtogi, Ábyrgð, Ábyrgðarskylda, Íslensk þýðing, Hlustun

Aðalfundur fimmtudaginn 25/2 kl. 16:30, netfundur

February 21, 2021 by Sigrún

Minnt er á aðalfund Þekkingarseturs um þjónandi forystu haldinn á vefnum fimmtudaginn 25. febrúar nk. kl. 16:30. 

Samanber aðalfundarboð í fréttabréfi sent 8. febrúar sl.

Á fundinum verða venjuleg aðalfundarstörf.

Fundurinn er opinn öllum áhugasömum sem eru vinsamlega beðnir um að senda skilaboð til thjonandiforysta hja thjonandiforysta.is og slóð á fundinn verður send til baka.

Fréttabréf Þekkingarseturs um þjónandi forystu 8. febrúar 2021

Filed Under: Óflokkað

Hlaðvarp um þjónandi forystu. ,,Leiðsögumaðurinn sem þjónandi leiðtogi” Viðtal við Ástvald Helga Gylfason

May 19, 2020 by Sigrún

Í fyrsta þættinum í Hlaðvarpi um þjónandi forystu er rætt um þjónandi forystu í starfi leiðsögumannsins. Gestur þáttarins er Ástvaldur Helgi Gylfason leiðsögumaður hjá Arcanum Fjallaleiðsögumönnum. Ástvaldur er líka í meistaranámi í forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu við Háskólann á Bifröst.

Ástvaldur fjallar um sýn sína á þjónandi forystu og hvernig hún nýtist í starfi leiðsögumannsins. Niðurstaða Ástvalds er að áhersla leiðsögumannsins er að veita forystu með þjónustu þar sem þörfum viðskiptavinanna er mætt um leið og markmið ferðarinnar eru alveg skýr og ábyrgð og öryggi eru grundvallaratriði.

Hlaðvarp um þjónandi forystu 19. maí 2020. Gestur: Ástvaldur Helgi Gylfason, leiðsögumaður og meistaranemi í þjónandi forystu við Háskólann á Bifröst. Umsjónarkona þáttarins er Sigrún Gunnarsdóttir hjá Þekkingarsetri um þjónandi forystu.

Filed Under: Óflokkað

Að sýna ákveðna umhyggju og aga í verki. Helgi Hrafn Halldórsson um meistaranámið í þjónandi forystu

May 19, 2020 by Sigrún

Helgi Hrafn Halldórsson er með BSc í tölvunarfræði frá Háskólanum á Akureyri 2006 og byrjaði í meistaranámi í þjónandi forystu haustið 2019. Hann valdi námið til að efla sig sem leiðtoga og finnst þjónandi forysta eiga vel við starfsumhverfi hans sem stjórnandi og ráðgjafi í viðskiptagreind hjá fyrirtækinu Expectus. Vinur hans hafði mælt með náminu á Bifröst og Helga fannst fjarnámið þar vera góður kostur. Þegar Helgi sá að boðið var upp á sérstaka námslínu um þjónandi forystu fannst honum það vera spennandi og skemmtilegt að tengja við hugtakið vegna reynslu sinnar sem stjórnandi og að starfa sem þjónn: ,,Á mínum yngri árum starfaði ég sem þjónn en í dag er ég stjórnandi. Þannig þetta var aldrei spurning” segir Helgi og brosir og finnst skemmtilegt að pæla í hvernig þessi tvö hugtök vinna saman ,,þjónn og leiðtogi”

Maður þarf að sýna ákveðna umhyggju og sýna aga í verki

Helgi segir að námið á Bifröst hafi verið áhugavert og nýst vel: ,,Námið hefur nýst mér í leik og starfi. Þjónandi forysta leggur áherslur á einlægan áhuga á öðrum og það getur maður heimfært í næstum hvaða kringumstæður sem er. Ég hef notað margt af mínum lærdómi í hvaða hlutverki sem er, faðir, stjórnandi, eða ráðgjafi. Til að mynda með opnum samskiptum, virkri hlustun og ástríkum aga. Sérstaklega segir Helgi áhugavert að vinna með samspil þjónustu og forystu sem hefur verið líkt við ástríkan aga þar sem teflt er saman mildi og festu, sveigjanleika og ákveðni: ,,Það sem mér hefur fundist skemmtilegast í náminu um þjónandi forystu er samspilið sem myndast með ástríkum aga. Maður þarf að sýna ákveðna umhyggju til fólksins sem maður er í kringum. Hvort heldur sem það er fjölskylda, samstarfsfólk eða viðskiptavinir. Maður þarf að vera þessi opna týpa og stuðla að opnum samskiptum. En að sama skapi standa fastur á sínu og sýna aga í verki sem einstaklingur í forystu og sýna umhyggju fyrir fólkinu sem í kringum mann.”

Það hefur líka verið áhugavert að lesa um árangur þjónandi forystu

Árangur þjónandi forystu hefur líka vakið athygli Helga og hversu vel samspil umhyggju og ábyrgðarskyldu hentar til að mæta þörfum mismunandi hópa sem eru á vinnumarkaði til dæmis þekkingarstarfsmanna og nýrrar kynslóðar: ,,Það hefur líka verið áhugavert að lesa um árangur þjónandi forystu innan þekkingarstarfa og mismunandi kynslóða. Þá sérstaklega þegar kemur að tilgangi, hollustu og vellíðan í starfi innan upplýsingatækni og hjá þúsaldarkynslóðinni. Nokkuð sem væri áhugavert að heimfæra á íslenskar aðstæður og skoða þá í leiðinni samband ábyrgðaskyldu og sjálfstæði við þjónandi forystu.”

Fjarnámið hentar mér alveg fullkomlega

Helgi er fjölskyldumaður og segir að fjarnámið á Bifröst henti mjög vel fyrir þá sem eru í starfi og líka með fjölskyldu: ,,Fjarnámið hentar mér alveg fullkomlega. Sjálfur er ég í fullu starfi og með fjögurra manna fjölskyldu þannig það kom aldrei til greina að setjast á skóla bekk í margar klukkustundir í viku. Það að maður getur sinnt náminu á þeim tíma sem hentar manni er alveg fullkomið.”

Viðtal við Helga Hrafn Halldórsson um meistaranám í þjónandi forystu við Háskólann á Bifröst

Háskólinn á Bifröst býður upp meistaranám í Forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu. Námið er tveggja ár nám og getur lokið með MS gráðu sem felur í sér meistararitgerð eða MLM gráðu þar sem tekin eru fleiri námskeið og ekki skrifuð lokaritgerð. Námið er skipulagt í samvinnu við Þekkingarsetur um þjónandi forystu. Umsjónarkennari er Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor við skólann. Umsóknarfrestur fyrir næsta skólaár er til 20. maí 2020. Nánari upplýsingar um námið og umsóknir eru hér. 

Filed Under: Óflokkað

,, Það er einstakt að geta tengt fræðin strax við vinnuna” Ingibjörg Ósk Erlendsdóttir um meistaranám í þjónandi forystu

May 13, 2020 by Sigrún

Haustið 2019 hóf hópur nemenda meistaranám í þjónandi forystu við Háskólann á Bifröst. Ein í þessum hópi er Ingibjörg Ósk Erlendsdóttir sem hafði haft áhuga á þjónandi forystu í nokkur ár, fannst hugmyndin áhugaverð og lýsir aðdraganda þess að hún fór í námið: ,,Ég heyrði fyrst af þjónandi forystur þegar ég sat fyrirlestur hjá Sigrúnu Gunnarsdóttur árið 2014. Ég man hvað ég heillaðist af fræðunum, svo var það ekki fyr en 2019 sem ég ákvað að láta slag standa og sé ekki eftir því.“ Hér á eftir lýsir Ingibjörg sýn sinni á þjónandi forystu og reynslu sinni af náminu á Bifröst.

Fræði sem eiga svo svakalega vel við þúsaldarkynslóðina

Meistaranámið í þjónandi forystu felur í sér bæði fræðilega nálgun og hagnýta tengingu. Ingibjörg segir ánægjulegt að sjá hve margar rannsóknir sýna fram á árangur fyrirtækja af þjónandi forystu sem hefur mikil áhrif á starfsánægju. ekki síst hjá nýjum kynslóðum ,,í raun hafa allar rannsóknir sýnt fram á aukna starfsánægju”. Þekkingu um þjónandi forystu hefur fleygt hratt fram undanfarin ár en hugmyndin á rætur í gömlum kenningum. Ingibjörg segir tengingu þjónandi forystu við nýjar kynslóðir mjög áhugaverða og að sjá: ,,hve gömul fræðin eru en eiga svo svakalega vel við þúsaldarkynslóðina. Eftir að hafa sökkt mér í fræðin er þjónandi forysta klálega framtíðin.“ .


Þetta er mildi og festa, fín lína, en gríðarlega mikilvægt að ná listinni við að flétta þetta tvennt saman til að uppskera

Þegar Ingibjörg er beðin um að lýsa þjónandi forysta með sínum orðum segir hún: ,,þjónandi forysta snýst mikið um hlustun og áhuga, hvaða starfsmenn vilja ekki að þeim sé sýndur áhugi? En líka um hugrekki og ábyrgðina sem þjónandi leiðtogar verða að vera meðvitaðir um. Þetta er mildi og festa, fín lína, en gríðarlega mikilvægt að ná listinni við að flétta þetta tvennt saman til að uppskera.


Námið hefur gert mig víðsýnni, auðmýkri en jafnframt hugrakkari.“

Ingibjörg segir námið áhugavert, vera mjög hagnýtt og nýtast í starfi og líka fyrir hana sjálfa sem einstakling og verkefnin í náminu feli í sér að rýna bæði fræðin og sjálfa sig: ,,Það er einstakt að vera í þessu námi og jafnframt í vinnu og geta tengt fræðin strax við vinnuna, yfirfærslan verður svo sterk. Þjónandi forysta er virkilega spennandi fræði sem eru í raun einföld en list að fara með. Ég hef líka öðlast betri þekkingu á sjálfri mér, ég held meira að segja að ég sé orðin betri manneskja, móðir, maki og vinur. Að iðka ígrundun er svo gagnlegt, verða betri í dag en í gær. Læra af reynslunni, bregðast öðru vísi við erfiðum aðstæðum. Námið hefur gert mig víðsýnni, auðmýkri en jafnframt hugrakkari.“

Ingibjörg Ósk Erlendsdóttir starfsmaður hjá Icelandair og meistaranemi í þjónandi forystu við Háskólann á Bifröst

Meistaranám í Forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu.

Háskólinn á Bifröst býður upp meistaranám í Forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu. Námið er tveggja ár nám og getur lokið með MS gráðu sem felur í sér meistararitgerð eða MLM gráðu þar sem tekin eru fleiri námskeið og ekki skrifuð lokaritgerð. Námið er skipulagt í samvinnu við Þekkingarsetur um þjónandi forystu. Umsjónarkennari er Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor við skólann. Umsóknarfrestur fyrir næsta skólaár er til 20. maí 2020. Nánari upplýsingar um námið og umsóknir eru hér. 

Filed Under: Óflokkað

,,Áhugaverð fræði sem hafa mikla tengingu við nútímann“ –Meistaranámið í þjónandi forystu

May 11, 2020 by Sigrún

Síðastliðið haust varð að veruleika langþráður draumur um þjónandi forystu um sérhæft meistaranám í þjónandi forystu við Háskólann á Bifröst í samvinnu við Þekkingarsetur um þjónandi foyrstu. Þjónandi forysta hefur verið kennd við skólann frá árinu 2013 og nú þegar fyrsti hópurinn er að ljúka fyrri hluta námsins er fróðlegt að heyra af reynslu nemenda.

Ég var fljótur að ákveða þá að vilja vera partur af þessum hópi.

Bragi Jónsson er í fyrsta hópnum sem hóf nám síðastliðið haust. Bragi er rekstrarstjóri Leigumarkaðar BYKO og hefur starfað hjá því fyrirtæki í 17 ár bæði samhliða námi og í fullu starfi á ýmsum sviðum fyrirtækisins. ,,Ástæða þess að ég skráði mig í nám á Bifröst er sú að ég vildi styrkja mig í mínu hlutverki sem stjórnandi og leist vel á geta stundað námið í fjarnámi samhliða vinnu. Í fyrstu skráði ég enga áherslu en las um þessa nýju áherslulínu sem í boði var og ætlaði að ákveða mig um leið og ég vissi meira um hvað þetta væri. Á nýnemadeginum hittist hópurinn sem var að hefja nám með áherslu á þjónandi forystu og ég var fljótur að ákveða þá að vilja vera partur af þessum hópi. Námið hefur ekki valdið vonbrigðum, þvert á móti hefur þetta verið einstaklega skemmtilegt og gagnlegt nám og ég hlakka til að takast á við síðari hluta námsins.

Vinnuhelgar eru frábærar og skapast oft mjög skemmtilegar umræður

Bragi hefur verið ánægður með námið, nemendahópurinn er mjög samheldinn og nemendur koma úr ólíkum áttum með mismunandi reynslu og þekkingu. Bragi segir námsefnið áhugavert og fyrirkomulagið gott. ,,Verkefnin sem lögð eru fyrir eru áhugaverð og reyna bæði á þekkingu nemenda á fræðunum og einnig er sífellt verið að reyna á nemendur við að tengja við raunveruleikann og er jafnvægið mjög gott. Sigrún Gunnarsdóttir stýrir náminu með miklum eldmóð og áhuga og smitar mjög auðveldlega út frá sér áhuga sínum á viðfangsefninu. Vinnuhelgar eru frábærar þar sem hópurinn hittist og skapast oft mjög skemmtilegar umræður um námsefnið og tengt er við málefni líðandi stundar, einnig koma skemmtilegir gestafyrirlesarar eins og t.d. Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari sem var með frábært erindi í febrúar síðastliðinn.“

Skapa þessa sameiginlegu framtíðarsýn þar sem einhver heillandi tilgangur sameinar liðsheildina í að ná settu marki

Bragi segir að fyrir hann sem stjórnanda sé margt mjög áhugavert í náminu um þjónandi forystu. ,,Fyrir mig sem stjórnanda er það sérstaklega gaman að fá að prufa mig áfram með ýmsar áherslur fræðanna í mínu starfi og sjá hvað virkar og hvað þarf að hugsa betur. Þessi skýra sýn á starfsfólkið framar öllu og þessi skylda leiðtogans að sjá til framtíðar og skapa þessa sameiginlegu framtíðarsýn þar sem einhver heillandi tilgangur sameinar liðsheildina í að ná settu marki.

Með því að hlusta er maður að sýna fólki virðingu og því finnst það skipta máli.

Með náminu á Bifröst hefur Bragi fengið enn betri skilning á því hve góð samskipi skapa mikinn árangur og orku. ,,Krafturinn sem felst í því að hlusta á fólk, það að gefa fólki 100% athygli án þess að leyfa einhverju að trufla það er svo rosalega kraftmikið og maður finnur hvað fólk kann að meta það þegar maður hlustar. Það þarf ekki alltaf að vera samþykkur því sem fólk er að segja við mann en með því að hlusta er maður að sýna fólki virðingu og því finnst það skipta máli.

Kafað er djúpt í fræðin og á sama tíma er sífellt verið að tengja við raunveruleikann og þess gætt að finna hagnýtinguna í bland við fræðin

Bragi segir að meistarnámið í þjónandi forystu sé áhugavert og gagnlegt fyrir daglegt líf bæði í vinnunni og heima. Það sé ánægjulegt að kafa ofan í rannsóknir sem sýna að með auknum áherslum þjónandi forystu í stjórnun fylgir meiri starfsánægja og bætt rekstrarafkoma. ,,Umfram allt eru þetta áhugaverð fræði sem hafa mikla tengingu við nútímann. Í náminu felst að til viðbótar við hefðbundna skylduáfanga eru teknir þrír áfangar í þjónandi forystu þar sem kafað er djúpt í fræðin og á sama tíma er sífellt verið að tengja við raunveruleikann og þess gætt að finna hagnýtinguna í bland við fræðin. Þjónandi forysta er heildstæð nálgun á stjórnun sem tvinnar saman á skemmtilegan hátt hin ólíku orð þjónn og forysta. Byggt er á þriggja þátta líkani Sigrúnar Gunnarsdóttur á hugmyndum Robert K. Greenleaf þar sem þjónustuhlutinn snýr að sjálfsþekkingu og einlægum áhuga á öðrum annars vegar, síðan er forystuhlutinn sem snýr að framtíðarsýninni og tilgangnum hins vegar.

Mun vonandi rannsaka eitthvað áhugavert viðfangsefni með tengingu við íslenskt atvinnulíf

Um þessar mundir er Bragi að hefja undirbúning seinni hluta námsins og undirbýr að skrifa meistararitgerð: ,,Sjálfur hafði ég hugsað að taka frekar MLM gráðu (semsagt að skrifa ekki ritgerð) en ég ákvað núna á vormánuðum þegar síðasti áfanginn um þjónandi forystu var búinn að það væri synd að fá ekki að stúdera þessi fræði áfram og hef því ákveðið að skrifa ritgerð. Ég horfi því björtum augum til næsta vetrar þar sem ég mun vonandi rannsaka eitthvað áhugavert viðfangsefni tengt þjónandi forystu með tengingu við íslenskt atvinnulífi.”

Viðtal við Braga Jónsson um meistaranámið í þjónandi forystu

Meistaranám við Háskólann á Bifröst

Háskólinn á Bifröst býður upp á fjölbreytt nám á ýmsum sviðum og þar á meðal er hægt að taka meistarapróf í forystu og stjórnun. Mögulegt er að velja að taka MS gráðu sem skiptist í 2/3 námskeið og svo 1/3 ritgerð og einnig er boðið upp á MLM gráðu sem er þá alfarið námskeið og engin ritgerð. Haustið 2019 var í fyrsta skipti boðið upp á að taka þessa meistaragráðu með áherslu á þjónandi forystu. Námið er skipulagt í samvinnu við Þekkingarsetur um þjónandi forystu. Umsjónarkennari er Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor við skólann. Umsóknarfrestur fyrir næsta skólaár er til 20. maí 2020. Nánari upplýsingar um námið og umsóknir eru hér.

Filed Under: Óflokkað

MS og MLM í forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu

April 19, 2020 by Sigrún

MS og MLM í forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu er í boði við Viðskiptadeild Háskólans á Bifröst.

Námið felur í sér þrjú sérhæfð námskeið í þjónandi forystu auk fjölda annarra námskeiða um forystu og stjórnun.

Nánari upplýsingar um námið eru hér á heimasíðu Háskólans á Bifröst.

Möguleiki er að ljúka náminu með MS gráðu sem felur í sér lokaritgerð (MS ritgerð) eða MLM gráðu án lokaritgerðar.

Umsjónarkennari námslínunnar er Dr. Sigrún Gunnarsdóttir, formaður Þekkingarseturs um þjónandi forystu.

Opið fyrir umsóknir til 20. maí nk.

Filed Under: Óflokkað

  • 1
  • 2
  • 3
  • …
  • 18
  • Next Page »

Fylgstu með okkur

  • Facebook
  • Twitter
  • YouTube

Þjónandi forysta í hnotskurn

Í stuttu máli má lýsa þjónandi forystu sem samspili þriggja meginstoða sem allar eru innbyrðis tengdar og mynda eina heild:

1) Fyrsta stoðin er einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra sem birtist með einbeittri hlustun og aðgerðum sem efla aðra og aðstoða þá til að blómstra og að njóta sín.

2) Önnur stoðin er vitun og sjálfsþekking sem birtist í sjálfsöryggi, auðmýkt og hugrekki.

3) Þriðja stoðin er framsýni og skörp sýn á hugsjón sem birtist með sýn á tilgang og ábyrgðarskyldu.

Segja má að fyrstu tvær stoðirnar myndi þjónustuhluta þjónandi foyrstu og þriðja stoðin myndar forystuhlutann. Sjá nánari lýsingu hér.

Líkanið sem hér er lýst byggir á hugmyndum Robert K. Greenleaf sem upphafsmaður þjónandi forystu og birti fyrsta rit sitt um hugmyndina árið 1970 og segir þar m.a.: ,,Þjónandi leiðtogi er í fyrsta lagi þjónn. […] Það byrjar með eðlislægri tilfinningu um að vilja þjóna, að þjóna fyrst. Síðar leiðir meðvituð ákvörðun viðkomandi til forystu. Slíkur einstaklingur er ólíkur þeim sem er fyrst leiðtogi, líklega vegna takmarkaðrar löngunar til valda og efnislegra gæða. (Greenleaf, 1970/2008, 15). Sjá nánar hér.

Copyright © 2023 · News Pro Theme on Genesis Framework · WordPress · Log in

 

Loading Comments...