Þjónandi forysta

  • Þekkingarsetur, viðburðir
    • Ráðstefnur hér á landi frá 2008
      • Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015
      • Ráðstefna á Bifröst 31. október 2014 – Dagskrá
      • Samstaða og árangur – Ráðstefna 14. júní 2013
  • Pistlar
  • Rannsóknir, greinar & bækur
    • Þjónandi forysta í hnotskurn
    • Í atvinnulífinu
    • Líkan Dirk van Dierendonck um þjónandi forystu
    • Íslenskar rannsóknir
  • Fréttabréf
  • Hafa samband
  • English
You are here: Home / Archives for The Servant as Leader

Sjö þættir sem einkenna þjónandi leiðtoga

March 17, 2016 by Sigrún

Þjónandi leiðtogi nýtir margskonar stjórnunarstíla þó hugmyndafræðin og grunnviðmiðin séu alltaf þau sömu. Sérstaðan þjónandi forysta er sú að hún byggir á siðferðilegum grunni og samfélagslegri ábyrgð og felur í sér viðhorf sem stjórnandinn hefur að leiðarljósi, bæði í starfi sínu og daglegu lífi:

1) Þjónandi forysta er því meira en bara stjórnunarstíll, hún er hugmyndafræði þar sem leiðtoginn nýtir margskonar stjórnunaraðferðir sem samrýmast siðfræðilegum gildum og hugsjóninni um að vera bæði leiðtogi og þjónn með hag heildarinnar að leiðarljósi.

2) Greenleaf benti á að prófsteinn þjónandi forystu væri hvort samstarfsfólk leiðtogans yrðu heilbrigðara, frjálsara, sjálfstæðara, fróðara og líklegra til þess að verða sjálf þjónar.

3) Í þjónandi forystu er áhersla lögð á að gefa starfsfólkinu svigrúm til að hafa áhrif á störf sín, að þroskast sem persónur og koma til móts við þarfir þeirra til að það nái árangri í starfi.

4) Þjónandi forysta felur í sér kröfur til stjórnandans, sértaklega um sjálfsþekkingu og vitund um eigin hugsjón, markmið og ábyrgð.

5) Þjónandi leiðtogi þjálfar með sér hæfni í að hlusta og að vera nálægur starfsfólki um leið og hann eflir með sér sjálfsþekkingu og rýni í eigin viðhorf, þekking og færni.

6) Með þjónandi forystu er teflt saman umhyggju og ábyrgð í starfi, hollustu við hugsjón með skapandi nálgun, stöðugri þekkingarleit og virðingu fyrir framlagi og skoðunum hvers og eins.

7) Líta má á þjónandi forystu sem samspil þriggja þátta. Samkvæmt greiningu Sigrúnar Gunnarsdóttur (2011) á skrifum Robert Greenleaf má í stuttu máli má segja að þjónandi forysta einkennist af þremur meginþáttum: 1) einlægum áhuga á hugmyndum og hagsmunum annarra, 2) vitund og sjálfsþekkingu leiðtogans og vilja hans til að horfast í augu við styrkleika sína og veikleika og 3) framsýni leiðtogans þar sem tilgangur, hugsjón og ábyrgð á verkefnum kristallast. Forysta hins þjónandi leiðtoga birtist með einbeittri hlustun, uppbyggilegum samskiptum, jafningjabrag, falsleysi og auðmýkt.

Allir þrír þættir þessa líkans eru samtengdir og geta ekki án hinna verið. Saman mynda þeir eina heild þar sem bæði þjónustuhluti og forystuhluti hugmyndarinnar eru órofa tengdir hjá einstaklingi sem er í senn bæði leiðtogi og þjónn. Líta má svo á að fyrstu tveir þættirnir (áhugi og vitund) myndi þjónustuhluta þjónandi forystu og þriðji þátturinn (framsýni) myndi forystuhluta þjónandi forystu. Sjá skýringarmynd af líkaninu hér fyrir neðan.

Likan thrir thaettir

Þriggja þátta líkan Sigrúnar Gunnarsdóttur (2011) um hugmyndafræði þjónandi forystu sem sett er fram samkvæmt rýni og greiningu á skrifum Robert Greenleaf um þjónandi forystu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Byggt á: Greenleaf (1970/2008); Prosser (2010) og Sigrún Gunnarsdóttir (2011).

Filed Under: Accountability, Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Ábyrgð, Ábyrgðarskylda, Íslenskar rannsóknir, Foresight, Framsýni, Framtíðarsýn, Hlustun, Hugmyndafræðin, Hugsjón, Humility, innri starfshvöt, Intrinsic motivation, jafningi, Listening, Rannsóknir, Robert Greenleaf, Servant leader, Servant leadership, sjálfsþekking, The Servant as Leader, Tilgangur, Valdar greinar, Vision, Vitund

Þjónandi forysta sem styður sköpunargleði starfsfólks

March 10, 2016 by Sigrún

Sköpun er mikilvægur liður í þjónandi forystu og æ fleiri rannsóknir renna stoðum undir gildi þjónandi forystu til að efla og glæða sköpunarkraft starfsfólks. Robert Greenleaf upphafsmaður þjónandi forystu lagði sérstaka áherslu á sköpunarkraft leiðtogans og sagði að hlutverk leiðtogans væri að glæða samtal um áhugaverðan draum og skapa þannig með starfsfólkinu sameiginlega draum og hugsjón. Framtíðarsýnin, hugsjónin og draumurinn er síðan drifkraftur starfanna og mikilvægasta næringin fyrir innri starfshvöt, bæði leiðtogans sjálfs og samstarfsfólks hans sem síðan glæðir lögun fólks til að skapa nýjar hugmyndir og nýjar lausnir.

Aðferðir þjónandi forystu og grunngildin sem hún hvílir á eru mikilvægar forsendur þess að starfsfólk upplifir frelsi til að ræða um hugmyndir sínar og að koma þeim á framfæri og í framkvæmd. Samtal sem byggir á gagnkvæmri virðingu og trausti er oft fyrsta skrefið í sköpun nýrra hugmynda. Sköpun hugmynda er ein af grunnþörfum þekkingarstarfsmanna samkvæmt rannsóknum Peter Drucker og minnir á að sköpun er ekki einasta verkefni listamanna og þeirra sem beinlínis hafa tækifæri til að skapa áþreifanlega hluti eða listaverk. Sköpunarkraftur er líka mikilvægur til að þróa hugmyndir í öllum störfum og að skapa nýjar lausnir, smáar eða stórar. Þannig er sköpun mikilvægur liður í starfi einstaklinga sem vinna í þjónustustörfum af ýmsum gerðum og líka þeirra sem vinna t.d. hefðbundin skrifstofustörf.

Sköpun nýrra hugmynda og tækifæri til að koma þeim í framkvæmd getur verið mikilvæg forsenda starfsánægju. Tækifæri til að ræða um nýjar hugmyndir getur verið miklvæg leið til að hjálpa fólki að blómstra í starfi og njóta þekkingar sinnar og krafta. Rannsóknir hérlendis og erlendis varpa ljósi á ýmsar áhugaverðar hliðar á þjónandi forystu og sköpunar og sýna að þjónandi forysta reynist mikilvæg til að efla sköpun og starfsánægju.

Rannsókn Birnu Drafnar Birgisdóttur um sköpunargleði og þjónandi forystu á Landspítala sýnir jákvætt marktækt samband á milli þjónandi forystu stjórnenda sjúkrahússins og sköpunargleði starfsfólks þar sem þetta sambandið er sterkara þegar starfshlutverk hvers starfsmanns er skýrt. Rannsóknin gefur vísbendingar um að þjónandi forysta er árangursrík leið til að efla starfsgetu og starfsánægju starfsfólks á sjúkrahúsi. Sjánari nánari upplýsingar um rannsókn Birnu Drafnar hér.

Rannsókn Steinars Arnar Stefánssonar sýnir að að vægi þjónandi forystu í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum sé talsvert. Þá sýna niðurstöður að mikil marktæk fylgni er á milli  þjónandi forystu og starfsánægju. Niðurstöður gefa til kynna að þjónandi forysta hafi jákvæð áhrif á starfsánægju og ástæða sé til þess að auka vægi hennar hjá íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum. Sjá nánari upplýsingar um rannsókn Seinars hér.

Einlægur áhugi hugmyndum og hagsmunum annarra ásamt sjálfsvitund hans og skýrri sýn á tilgang starfanna gerir þjónandi leiðtoga kleift að glæða áhuga starfsfólks á að skapa hugmyndir sem geta leitt til árangurs og starfsánægju. Auðmýkt leiðtogans gerir honum líka kleift að njóta framlags annarra og styrkja þannig trú starfsfólksins á eigin getu og efla þannig sköpunarkraftinn í starfsmannahópnum.

Himinn skopun thjonandi

 

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Íslenskar greinar, Íslenskar rannsóknir, Birna Dröfn Birgisdóttir, einlægur áhugi, Framsýni, Framtíðarsýn, Hlustun, Hugmyndafræðin, Hugsjón, Humility, innri starfshvöt, Intrinsic motivation, MSc rannsókn, Oversight, Rannsóknir, Responsibility, Robert Greenleaf, Sameiginlegur draumur, samtal, Servant leader, Servant leadership, sjálfsþekking, Sköpun, Sköpunargleði, Starfsánægja, Starfsumhverfi, The Servant as Leader, Tilgangur, Valdar greinar

Íslenskar rannsóknir og áhugaverðar greinar um þjónandi forystu.

March 8, 2016 by Sigrún

Nokkrar rannsóknir um þjónandi forystu hafa verið framkvæmdar hér á landi og ná til einstaklinga á ýmsum sviðum samfélagsins. Um er að ræða rannsóknir sem nýta ýmsar rannsóknaraðferðir, bæði  spurningalistakannanir og eigindlegar rannsóknir með viðtölum. Nokkrar rannsóknanna hafa verið birtar sem ritrýndar greinar, sjá nánari umfjöllun um rannsóknirnar hér.

Spurningalistakannanir um þjónandi forystu hér á landi eru unnar í samstarfi Þekkingarseturs um þjónandi forystu í samvinnu við Dr. Dirk van Dierendonck við Erasmusháskólann í Hollandi þar sem byggt er á SLS mælitækinu. Umsjón með rannsóknunum hér á landi og rétthafi íslensku útgáfu SLS mælitækisins er Dr. Sigrún Gunnarsdóttir. Rannsóknirnar hér á landi mynda eina heild og eru niðurstöður greindar miðað við einstaka hópa og einnig sem heild. Rannsóknirnar ná til ýmissa sviða samfélagsins, vinnustaða og stofnana.

Nám í þjónandi forystu í samvinnu við Þekkingarsetur um þjónandi forystu er í boði við Háskólann á Bifröst og við Háskólann á Akureyri. Auk þess býður Þekkingarsetrið ýmis námskeið, kynningar og leiðsögn um þjónandi forystu og er áhugasömum bent á að hafa samband með því að senda póst til: sigrun@thjonandiforysta.is.

Haustið 2016 verður haldið hér á landi rannsóknaþing um þjónandi forystu þar sem sérfræðingar víða að í heiminum hittast til skrafs og ráðagerða um rannsóknir á sviðinu. Þingið er einkum ætlað rannsakendum á sviði þjónandi forystu en nokkur sæti verða til sölu fyrir þau sem hafa áhuga á að taka þátt í þinginu án vísindalegs framlags. Nánari upplýsingar um þingið eru hér.

Idea Greenleaf

 

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Ábyrgð, Íslenskar greinar, Íslenskar rannsóknir, Bifröst, Dirk van Dierendonck, einlægur áhugi, Foresight, Framsýni, Framtíðarsýn, Greenleaf Center, Hlustun, Humility, Intrinsic motivation, jafningi, MSc rannsókn, Persuation, Rannsóknir, Robert Greenleaf, Sameiginlegur draumur, Samfélagsleg ábyrgð, Servant leader, Servant leadership, sjálfsþekking, Sköpun, Starfsánægja, Starfsumhverfi, The Servant as Leader, Tilgangur, Traust, vald, Valdar greinar, Vision, Vitund, Yfirsýn

Hugmyndir og tillögur þátttakenda á ráðstefnunni á Bifröst 25. september 2015

October 4, 2015 by Sigrún

Ráðstefnan á Bifröst um þjónandi forystu og brautryðjendur þann 25. september s.l. gekk mjög vel. Alls voru um 180 þátttakendur víða að á ráðstefnunni og nutu fyrirlestranna sem voru fluttir og samstalsins í hópum sem fór fram í hádegishléi.

Margar fróðlegar og áhugaverðar pælingar, hugmyndir og tillögur komu fram þegar rætt var um spurningarnar tvær sem varpað var fram til skoðunar:

  1. Er tími frekjuhundsins liðinn?
  2. Er auðmýkt gagnleg fyrir brautryðjendur?

Hóparnir voru alls 18 og í hverjum hóp voru tveir hópstjórar sem héldu utan um samtalið og tóku saman helstu atriðin sem fram komu í samtalinu. Hópstjórunum eru færðar bestu þakkir fyrir þeirra framlag og fyrir samantekt á því helsta sem fram kom í orðum þáttttakenda.

Samtal er grunnstef í þjónandi forystu og Robert K. Greenleaf, upphafsmaður þjónandi forystu, lagði áherslu á að birtingarmynd þjónandi forystu væri uppbyggilegt samtal og að innleiðing þjónandi forystu færi fram í gegnum samtal. Sjá til dæmis hans The Servant as Leader frá árinu 1970.

Allir punktarnir frá hópunum eru birtir hér á pdf skjali. Meðal þess sem fram kemur í samantektum hópanna er eftirfarandi:

Já, tími frekjuhundsins er liðinn meðal stjórnenda en hann lifir í samfélaginu.

En samfélagið er betur upplýst, þess vegna lýðst þetta ekki lengur.

Frekjuhundur er drottnandi persóna, sjálfhverfur, hefur ekki heildarsýn, veður yfir aðra, vantar virðingu fyrir öðrum.

Óbilandi trú á eigin ágæti – berst fyrir sínu.

Þarf að breyta frekjuhundapólítik.

Það eykur framleiðni að stefna að sama markmiði en það gerir frekjuhundurinn ekki.

cropped-thjonandi-forysta-260x90.jpg

 

 

 

Auðmýkt er nauðsynlegur hluti af nálgun brautryðjanda.

Þegar hann þarf að fá aðra með sér þá er auðmýkt mikilvægur eiginleiki.

Kvekararnir segja – hreykið ykkur ekki af verkum ykkar.

Dæmi sem nýlega hafa verið á sjónarsviðinu:

Auðmýkt landsliðsþjálfarans skein í gegn. Hann er dæmi um að menn geta breyst og vaxi því hann þurfti sjálfur að umbreyta sér og láta af hroka.

Allir punktarnir frá samtalshópunum á ráðstefnunni á Bifröst 2015 eru birtir hér á pdf skjali.

Karlar r

 

Salurr r

Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015

Salur r

 

Carolyn r

Kasper r Olof r Robert r Hildur r Haraldur r Einar rKOlfinna r

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Brautryðjendur, Ráðstefnur, Robert Greenleaf, samtal, Servant leader, Servant leadership, The Servant as Leader Tagged With: Ráðstefna Bifröst 2015

Þriggja þátta líkan um þjónandi forystu (servant leadership) byggt á hugmyndum Robert K. Greenleaf

January 12, 2015 by Sigrún

Sigrún Gunnarsdóttir hefur sett fram þriggja þátta líka um þjónandi forystu sem byggir á hugmyndum Robert K. Greenleaf. Líkanið var fyrst birt í Tímaritinu Glíman árið 2011. Þættirnir þrír eru einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra, innri styrkur og framtíðarsýn. Líkan Sigrúnar er byggt á ýmsum ritum Greenleafs, en einkum The Servant as Leader (2008), The Institution as Servant (2009), The Leadership Crisis (1978), Life‘s Choices and Markers (1995a) og Reflections from Experience (1995b). Hér á eftir fer nánari lýsing á þremur þáttum líkansins:

1. Einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra. Einlægur áhugi á hugmyndum og högum annarra er grunnstef þjónandi forystu. Áhugi forystunnar beinist fyrst og fremst að velferð starfsfólks en ekki eigin valdi eða hagsmunum (Greenleaf 2008; 1978; 1995b). Góð hlustun er skýrasta merkið um einlægan áhuga og vilja til að kynnast hugmyndum annarra og efla hag þeirra. Greenleaf lýsir því svo í fyrsta riti sínu (2008) að fyrstu viðbrögð hjá sönnum þjóni sé að hlusta, hlusta á viðhorf, skoðanir og hugmyndir. Þetta er jafnframt eitt aðaleinkenni þjónandi leiðtoga og oft það mikilvægasta sem þjónandi leiðtogi þjálfar til að ná góðum árangri í störfum sínum. Slík þjálfun felur ekki síst í sér aga, þ.e. að þjálfa sig í að hlusta og meðtaka. Einbeitt hlustun eru fyrstu viðbrögð þjónandi leiðtoga þegar tekist er á við verkefnin (bls. 18).

Alúð og einbeitt hlustun leiðir ekki einungis til þess að leiðtoginn skilur betur hvað um er að vera og áttar sig á þörfum og hugmyndum samstarfsfólks, heldur endurspeglar slík nærvera virðingu fyrir þeim sem talað er við og skapar traust meðal samstarfsfólks. Ein allra besta leiðin til að sýna fólki virðingu og áhuga er að taka eftir því sem það segir og meðtaka hugmyndir þeirra og skoðanir. Að hlusta og meðtaka hugmyndir þarf ekki endilega að fela í sér að vera sammála viðkomandi. Aðalatriðið er að sýna fólki áhuga og virðingu með því að taka eftir og íhuga það sem talað er um og kynnt (Greenleaf 1978, 7–8).

Þjónandi leiðtogi er næmur og laginn við að taka eftir og greina þarfir annarra. Nærveran einkennist af öryggi og innri styrk. Einbeiting og athygli hvílir á vakandi vitund leiðtogans og innri ró. Af þessu leiðir að nærveran og hlustunin hefur margföld áhrif. Auk virðingarinnar sem leiðtoginn sýnir viðmælanda sínum er frelsi viðmælandans viðurkennt. Virðingin og tilfinning fyrir eigin frelsi eflir persónulegan styrk þeirra sem í hlut eiga. Greenleaf telur verkefni hins þjónandi leiðtoga ekki síst vera hið innra. Leiðtoginn þroskar og eflir eigin styrk sem endurspeglast í samskiptum og mótar samtal hans við samstarfsfólk. Innra líf leiðtogans og öryggi í eigin skinni sést í allri framkomu og smitast til samstarfsfólks (Greenleaf 2008, 44).

2. Sjálfsþekking, vitun og innri styrkur. Sjálfsþekking er einn af grunnþáttum þjónandi forystu. Hún snýst um vitund um eigin styrkleika og veikleika, markmið og hugsjónir og áhrif eigin orða og athafna (Greenleaf 1978). Verkefni leiðtogans er að efla innri styrkleika með þekkingarleit og ígrundun. Góður undirbúningur og ígrundun eru lykill að árangri þjónandi forystu. Til þess að geta sinnt verkefnum sínum er mikilvægt fyrir leiðtogann að draga sig í hlé og styrkja þannig möguleikana til ígrundunar. Forysta og ákvarðanir byggjast ekki aðeins á rökvísi og staðreyndum, heldur þarf leiðtoginn að efla eigin vitund og innsæi með ígrundun og sjálfsþekkingu (Greenleaf 2008, 28–30).

Greenleaf bendir á hversu langan tíma það tók fyrir hann sjálfan að þróa hugmyndirnar um þjónandi forystu. Þó að þekking og margskonar upplýsingar hafi leitt hann áfram á þeirri braut, var það ekki síður innsæi og vitund sem gerði honum kleift að sjá hugmyndina í samhengi og leyndardóminn um að leiðitoginn væri í raun þjónn (Greenleaf 2008, 14). Á svipaðan hátt þroskast og eflist hinn þjónandi leiðtogi. Hugmyndir annarra og stöðug þekkingarleit leiðtogans eru mikilvægur grunnur, en sjálfsvitund og ígrundun er jafnframt nauðsynleg. Með samspili allra þessara þátta getur þjónandi leiðtogi skilið og greint fortíð og nútíð og eflt færni sína til að sjá til framtíðar.

Þjónandi leiðtogi nær árangri með því að nota og flétta saman rökvísi og innsæi, skipulag og sköpun, sjálfstæði einstaklinga og samstöðu hópsins (Greenleaf 2008, 14). Á þessum nótum teflir Greenleaf fram ólíkum þáttum sem allir eru mikilvægar stoðir þjónandi forystu. Að sama skapi bendir hann á að um leið og ígrundun er forsenda árangurs er samtal leiðtogans við aðra jafnnauðsynlegt. Leiðtoginn skapar hugmyndir og hvetur aðra til hins sama. Hann kynnir hugmyndir sínar og hvetur aðra til að fylgja þeim. Hann tekur við gagnrýni og öðrum sjónarmiðum og er fær um og hefur styrk til að taka áhættuna sem fylgir nýjum hugmyndum (Greenleaf 2008, 17). Innri styrkur og vitund um eigin markmið og hugsjón eru lykill að árangri einstaklinga og fyrirtækja (Greenleaf 1978; 2008).

3. Hugsjón, framtíðarsýn og ábyrgð. Greenleaf álítur hugsjón, tilgang og markmið hafa sérstaka og djúpa merkingu í starfi fyrirtækja og stofnana. Hugsjón og hugmyndir sameina fólk, gefa starfi þess merkingu, glæða von og móta framtíðarsýn. Hugsjón og tilgangur er leiðarljós þjónandi leiðtoga. Leiðtoginn er þjónn sameiginlegra hugmynda starfsfólks og hann er líka þjónn hugsjónarinnar. Hlutverk leiðtogans er að hafa yfirsýn, skapa samtal um tilgang starfa og að sjá til framtíðar (Greenleaf 1978, 7–8; 2008, 25).

Hin sameiginlega hugsjón, tilgangur og markmið koma fram í daglegu samtali á vinnustaðnum. Í samtalinu slípast hugmyndir og samkomulag næst. Greenleaf bendir á að sameiginlegar hugmyndir eru ekki alltaf formlegar, ekki endilega skrifaðar niður á blað eða hengdar upp á vegg. Hugmyndir og samkomulag verða til í skapandi samtali sem þjónandi leiðtogi eflir og styður. Hann teflir saman ólíkum sjónarmiðum, glæðir gagnrýna hugsun og endurskoðun. Starfsfólkið er hvatt til að skoða og endurskoða og nota síðan sannfæringarkraft til að ná samkomulagi og skapa sameiginlegan draum (Greenleaf 1978, 6–8).

Skylda leiðtogans og alls starfsfólks í þjónandi forystu er að vera opinn fyrir tækifærum og möguleikum. Hlutverk hvers og eins er að sjá hvað viðkomandi getur gert til að láta hinn sameiginlega draum rætast. Slíkt hugarfar eflir starfsfólkið og glæðir tilfinningu þess fyrir gildi starfanna (Greenleaf 1978). Innsæi og næmi eykur líkurnar á því að hafa yfirsýn, koma auga á tækifærin og sjá samhengi hlutanna og sjá til framtíðar (Greenleaf 1978). Greenleaf bendir á að forskot leiðtogans felist ekki síst í því að hafa tilfinningu fyrir hinu ókomna, greina hvers má vænta, hafa forgöngu um hlutina og leiða fólk áfram. Hugsjónin er grundvöllurinn og hinn þjónandi leiðtogi nýtir eigið innsæi og yfirsýn til að skerpa framsýn og sannfærir samstarfsfólk um að fylkjast að settu marki.

Greenleaf lítur á það sem alvarlegan brest ef leiðtoginn er ekki fær um að sjá til framtíðar. Hlutverk hans er að hafa sterka tilfinningu fyrir því sem fram fer hverju sinni, hver staðan er í nútíð, og um leið að vera fær um að horfa fram á veginn, segja til um hvað sé líklegast að framtíðin beri í skauti sér. Að sjá til framtíðar er þýðingarmikið hlutverk leiðtogans. Að mati Greenleafs verður til siðferðileg brotalöm ef leiðtoginn er ekki fær um þetta tvennt, þ.e.a.s. að vera í senn tengdur við nútíð og framtíð og hafa þar með forskotið sem skapar forystuna (Greenleaf 2008, 26–27).

Byggt á grein Sigrúnar Gunnarsdóttur (2011). Þjónandi forysta. Gliman (8), bls. 248 -251. Greinin er hér á pdf. og Sigrúnar Gunnarsdóttur og Birnu Gerðar Jónsdóttur 2013.

Þriggja þátta líkan um þjónandi forystu (e. servant leadership)

Likan-SigrunarG-Thjonandi-Forysta-Skv-Robert-Greenleaf

Filed Under: Accountability, Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Ábyrgð, Ábyrgðarskylda, einlægur áhugi, Foresight, Framtíðarsýn, Hugmyndafræðin, Hugsjón, Humility, innri starfshvöt, Intrinsic motivation, jafningi, Listening, Oversight, Robert Greenleaf, Sameiginlegur draumur, Samfélagsleg ábyrgð, samtal, sannfæringarkraftur, Servant leader, Servant leadership, sjálfsþekking, The Servant as Leader, Tilgangur, Traust, Valdar greinar, Vision, Vitund, Von, Yfirsýn Tagged With: Framsýni

Fylgstu með okkur

  • Facebook
  • Twitter
  • YouTube

Þjónandi forysta í hnotskurn

Í stuttu máli má lýsa þjónandi forystu sem samspili þriggja meginstoða sem allar eru innbyrðis tengdar og mynda eina heild:

1) Fyrsta stoðin er einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra sem birtist með einbeittri hlustun og aðgerðum sem efla aðra og aðstoða þá til að blómstra og að njóta sín.

2) Önnur stoðin er vitun og sjálfsþekking sem birtist í sjálfsöryggi, auðmýkt og hugrekki.

3) Þriðja stoðin er framsýni og skörp sýn á hugsjón sem birtist með sýn á tilgang og ábyrgðarskyldu.

Segja má að fyrstu tvær stoðirnar myndi þjónustuhluta þjónandi foyrstu og þriðja stoðin myndar forystuhlutann. Sjá nánari lýsingu hér.

Líkanið sem hér er lýst byggir á hugmyndum Robert K. Greenleaf sem upphafsmaður þjónandi forystu og birti fyrsta rit sitt um hugmyndina árið 1970 og segir þar m.a.: ,,Þjónandi leiðtogi er í fyrsta lagi þjónn. […] Það byrjar með eðlislægri tilfinningu um að vilja þjóna, að þjóna fyrst. Síðar leiðir meðvituð ákvörðun viðkomandi til forystu. Slíkur einstaklingur er ólíkur þeim sem er fyrst leiðtogi, líklega vegna takmarkaðrar löngunar til valda og efnislegra gæða. (Greenleaf, 1970/2008, 15). Sjá nánar hér.

Copyright © 2023 · News Pro Theme on Genesis Framework · WordPress · Log in

 

Loading Comments...