Framtíðarsýn er forystuhluti þjónandi forystu. Eitt af aðaleinkennum þjónandi leiðtoga er skörp sýn á hugsjón og framtíðina og Greenleaf (1970) bendir á að hæfileiki til að sjá fram á veginn skapi raunverulegt forskot leiðtogans til forystu. Grunnstoðir þjónandi forystu eru siðfræði og ábyrgð gagnvart hagsmunum heildar sem standa framar þrengri hagsmunum og fólk hefur áhuga á að fylgja þeim að málum sem hafa sérstaklega yfirsýn og getu til að sjá fram á veginn, að sjá hvað sé líklegt að framtíðin beri í skauti sér. Hæfileikinn til að sjá fram á veginn er forystuhlutinn í þjónandi forystu, þ.e. sá þáttur sem snýr að því að veita forystu.
Allir þættir þjónandi forystu mynda eina heild. Allir þættir þjónandi forystu eru samtvinnaðir, mynda eina heild og geta ekki án hinna verið. Þjónustuhluti þjónandi forystu felst einkum í einlægum áhuga á að mæta þörfum annarra þar sem einlægur áhugi snýra að viðhorfum annarra, viðhorfum, hagsmunum og líðan. Hér er átt við raunverulegan áhuga þar sem hagsmunir annarra eru settir framar eigin hagsmunum. Hinn einlægi áhugi leiðtogans er nátengdur vitund hans sjálfs og sjálfsþekkingu, þ.e. leiðtoginn þekkir eigin styrkleika og veikleika, er meðvitaður um eigin viðhorf, markmið og drauma. Góð sjálfsvitund og sjálfsþekking eru grunnur auðmýktar og hugrekkis. Þessir tveir þættir, þ.e. einlægur áhugi og vitund tvinnast saman og eru um leið nátengdir þriðja þættinum, framtíðarsýninni, sem er vitund um sameiginlega hugsjón, sameiginlega hagsmuni og samfélagslega ábyrgð. Þessir þrír þættir þjónandi forystu fléttast saman og móta viðhorf, framkomu og starf þjónandi leiðtoga (Sigrún Gunnarsdóttir, 2011).
Gildismat og tilgangur. Framtíðarsýn þjónandi leiðtoga felur í sér gildismat sem byggir á innri löngun til að láta gott af sér leiða, að sjá fram á veginn og að leggja sitt af mörkum til að skapa bjarta framtíð fyrir einstaklinga, fyrirtæki, félög eða samfélag. Framtíðarsýnin tengist eiginlægum áhuga á þörfum annarra og einbeittum áhuga á ná markmiðum starfsins og þar með tilgangi verkefnanna. Framtíðarsýn leiðtogans snýst einnig um ábyrgðina sem hann ber og má skoða í ljósi samfélagslegrar ábyrgðar. Gildi framtíðarsýnar í þjónandi forystu varpar þannig ljósi á siðferðilega og samfélagslega ábyrgð og undirstrikar að í þjónandi forystu eru lögð áhersla á langtímamarkmið ekki síður en skammatímamarkmið (Greenleaf, 1972). Framtíðarsýn og tilfinning fyrir tilgangi skerpist með næmri vitund og góðu innsæi. Verkefni leiðtogans er að miðla framtíðarsýninni til samferðafólks og virkja það til skapandi hugsunar til að skerpa hina sameiginlegu sýn og hinn sameiginlega draum.
Sameiginlegur draumur og von. Greenleaf (1978) benti á að framtíðarsýn og sameiginlegur draumur sameini fólk og sé mikilvæg til að safna fólki saman um sameiginlega von. Verkefni leiðtogans er að glæða samtal um tilgang verkefnanna og að hvetja samstarfsfólk sitt til að skapa fleiri hugmyndir og fleiri drauma og gefa þannig öllum tækifæri til að verða leiðtogar framtíðarsýnar, hugsjóna og drauma. Hlutverk leiðtoganna er að efla gagnrýna og uppbyggilega umræðu, skiptast á skoðunum, ræða ágreining og stilla saman strengi um um sameiginlega sýn á verkefni, tilgang og framtíð.
Innri starfshvöt. Áherslur Greenleaf á framtíðarsýn (1970; 1978) tengist kenningu Fredrick Herzberg um innri starfshvöt (1987) sem byggir á því að starfsfólk vaxi og dafni með því að njóta eigin hæfileika og að hafa vitund um tilgang starfa sinna. Innri starfshvöt er drifkraftur hins góða starfs og um leið árangurs. Framtíðarsýn snýst um vitund um kjarna málsins, hugsjón og tilgang starfanna sem er uppspretta starfsgleði. Herzberg benti á að innri starfshvöt verður til vegna starfsins sjálfs og löngunar til að vaxa og þroskast, vera virt/ur, bera ábyrgð, hafa áhrif og ná árangri. Hér sést samhljómurinn við grunnstef þjónandi forystu um einlægan áhuga á þörfum og hagsmunum annarra (Greenleaf, 2008). Herzberg (1987) sýndi fram á að innri starfshvöt væri mikilvægasti þátturinn til að skapa starfsgleði og styrktist með þekkingu, frelsi, góðum samskiptum og stuðningi stjórnenda. Hér má aftur sjá tengslin við þjónandi forystu þar sem sjálfsþekking og vitundum tilgang starfsins og hugsjón eru lykilþættir.
Frelsi og ábyrgð. Í þjónandi forystu er gerð krafa um að einstaklingarnir njóti frelsis og um leið ábyrgðar. Um leið og frelsi og ábyrgð skipta höfuðmáli byggir hugmyndafræðin á því að þjónandi leiðtogi hafi mjög góða færni í gefandi samskiptum sem er forsenda þess að ná árangri fyrir sjálfan sig og heildina (Greenleaf 2008). Grunnstef þjónandi forystu er að mæta þörfum starfsfólks og laða fram hæfileika þess til góðra verka. Til að laða fram krafta og hæfileika annarra er vald notað á uppbyggilegan og réttlátan hátt og þannig lögð rækt við raunverulegan áhuga hvers einstaklings og möguleika hans til að blómstra í starfi. Áhugi forystunnar beinist fyrst og fremst að velferð starfsfólks en ekki eigin valdi eða hagsmunum (Greenleaf, 2008).
Samskipti, hlustun og yfirsýn. Góð hlustun er skýrasta merkið um einlægan áhuga og vilja til að kynnast hugmyndum annarra og efla hag þeirra. Alúð og einbeitt hlustun leiðir ekki einungis til þess að leiðtoginn skilur betur hvað um er að vera og áttar sig á þörfum og hugmyndum samstarfsfólks, heldur endurspeglar slík nærvera virðingu fyrir þeim sem talað er við og skapar traust meðal samstarfsfólks. Samkvæmt hugmyndum Greenleaf er ein allra besta leiðin til að sýna fólki virðingu og áhuga að taka eftir því sem það segir og meðtaka hugmyndir þeirra og skoðanir. Að hlusta og meðtaka hugmyndir þarf ekki endilega að fela í sér að vera sammála viðkomandi. Aðalatriðið er að sýna fólki áhuga og virðingu með því að taka eftir og íhuga það sem talað er um og kynnt sem aftur gefur leiðtoganum einstakt tækifæri til að átta sig á stöðu mála og í hvaða átt mál eru þróast, þ.e. að hafa yfirsýn og að sjá til framtíðar (Greenleaf 2008).
Hvatning í starfi og árangur. Hvatning í starfi og sameiginleg markmið eru einkenni þjónandi forystu. Þjónustan er kjarni málsins og þjónandi leiðtogi skapar löngun starfsfólksins til að vera sjálft þjónandi leiðtogar og þannig nást markmið starfsins og árangur vex. Rannsóknum á þjónandi forystu hefur fjölgað undirfarin ár og sýna niðurstöður að hugmyndafræðin hefur jákvæð áhrif á árangur fyrirtækja, hagnað þeirra, líðan starfsfólks og traust í samskiptum. Þjónandi leiðtogi virkjar fólk til góðra verka.
Samfélagsleg ábyrgð. Sýnt hefur verið fram á hversu mikið forskot þjónandi forysta hefur til að efla samfélagslega ábyrgð fyrirtækja sem er grunnur að árangri til langs tíma. Þrátt fyrir að fræðimenn og rannsakendur sýni endurtekið fram á gildi góðra stjórnunarhátta fyrir árangur og velferð starfsfólks er margt sem bendir til þess að nokkuð sé í land með að sú þekking sé hagnýtt á vinnustöðum, jafnt hér á landi sem annars staðar. Margt bendir til þess að viðhorf og aðferðir þjónandi forystu eigi ríkt erindi hér á landi til að tryggja betri árangur fyrirtækja og stofnana. Rannsóknarskýrsla Alþingis (2010) gefur sterkar vísbendingar um að siðferði, trausti og fagmennsku sé ábótavant almennt á vinnustöðum hér á landi. Þjónandi leiðtogar njóta trausts, þeir safna ekki valdi, hafa ekki áhyggjur af valdabaráttu eða mannvirðingum en beina athygli og orku að mikilvægum verkefnum sem styðja starfsgetu og ánægju starfsfólks. Markmiðið er hagur heildarinnar og þjónusta leiðtoganna birtist í viðmóti, framkomu og aðferðum sem allt byggir fyrst og fremst á lífssýn og gildismati.
Að virkja fólk til góðra verka. Í þjónandi forystu er þörfum hvers og eins starfsmanns mætt um leið og markmiðum er fylgt eftir af festu og tilgangur verkefnanna er hafður að leiðarljósi. Allt bendir til þess að hugmyndafræði þjónandi forystu eigin sérstaklega vel við í krefjandi verkefnum og einkum þegar starfsmenn laga sig að breyttum aðstæðum í starfi.Þjónandi forystu varpar nýju ljósi á hugmyndir okkar um leiðtoga og góð samskipti. Góðir leiðtogar kveikja með fólki löngun til að standa sig vel, þeir mynda tengsl, hvetja og taka þátt í samtali um tilgang starfa okkur og um framtíðina. Við höfum öll hlutverk leiðtoga, hvort sem við erum ráðin til þess sérstaklega eða ekki. Þess vegna er mikilvægt að velta fyrir sér hugmyndum um forystu og finna leiðir til að sameina krafta okkar til að þjóna og veita hvort öðru forystu með ábyrgð, umhyggju, staðfestu og hógværð. Þjónandi forysta byggir á grunngildum lýðræðissamfélags og er þess vegna dýrmætur grunnur að árangursríku skipulagi, stjórnun og samskiptum á vinnustöðum.
servant leadership, oversight, vision, meaning, foresight, responsibility