Þrjár meginstoðir þjónandi forystu
Þjónandi forysta byggir á grunngildum lýðræðissamfélags og er dýrmætur grunnur að árangursríku skipulagi, stjórnun og samskiptum á vinnustöðum og félögum. Þjónandi leiðtogar kunna jafnvægislist umhyggju, aga, sveigjanleika og reglufestu. Hugmyndum Robert K. Greenleaf um þjónandi forystu má lýsa á grunni þriggja meginstoða sem eru innbyrðis tengdar og móta viðhorf, aðferðir og lífshætti þjónandi leiðtoga.
- Einlægur áhugi á hugmyndum og hag annarra. Þjónandi forysta felur í sér umhyggju fyrir hagsmunum og velferð annarra framar eigin völdum og vegsauka. Sannur áhugi birtist í hlustun sem skapar traust og er mikilvægt skref til að mæta þörfum annarra. Virðing fyrir hugmyndum og skoðunum annarra þarf ekki að fela í sér samþykki en endurspeglar viðurkenningu á sjálfstæði, frelsi og sköpunarkrafti viðmælandans.
- Vitund og einbeittur ásetningur til sjálfsþekkingar. Þjónandi leiðtogi leitast við að efla sjálfsþekkingu sína og færni í gefandi og markvissum samskiptum. Vitund um áhrif eigin orða og athafna eykur sjálfsþekkingu sem er nátengd sjálfsöryggi. Sjálfsöryggi er forsenda auðmýktar og hógværðar. Með hógværri framgöngu gefur leiðtoginn öðrum svigrúm og tækifæri og opnar þannig farveg hugmynda og sköpunar.
- Skýr mynd af framtíðarsýn, hugsjón og tilgangi starfa. Vitund um hugsjón og tilgang starfa er drifkraftur þjónandi leiðtoga. Þekking á fortíð, vitund um nútíð og skýr sýn á framtíð gefur leiðtoganum forskot sem er um leið forsenda þess að hann geti tekið forystu og borið ábyrgð á verkefnum sínum. Þjónandi leiðtogi leitast við að sjá heildarmynd og nálgast einstaklinga, verkefni og samfélög sem eina heild. Heildræn nálgun er undirstaða samfélagslegrar ábyrgðar og aga sem einkennir þjónandi forystu og eykur um leið möguleika til að sjá tækifærin hverju sinni.
Góðir leiðtogar kveikja með fólki löngun til góðra verka. Þeir mynda tengsl og taka þátt í samtali um tilgang starfa og um framtíðina sem skapar aga. Alls staðar er þörf fyrir góða leiðtoga, hvort sem þeir eru ráðnir til þess sérstaklega eða ekki. Þjónandi leiðtogi skapar lífsgæði og árangur fyrir sjálfan sig og aðra. Þess vegna er mikilvægt að finna leiðir til að sameina krafta okkar til að þjóna og veita hvort öðru forystu með ábyrgð, umhyggju, staðfestu og hógværð.
Byggt á: Sigrún Gunnarsdóttir. (2011). Þjónandi forysta – fyrri hluti. Glíman, 8, 245-262.
Servant leadership – Key elements – Robert Greenleaf