Er tími frekjuhundsins liðinn? Þjónandi forysta og brautryðjendur á Bifröst 25. september 2015

Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem hentar og gerir gagn á flestum, ef ekki öllum, sviðum samfélagsins. Á ráðstefnum undanfarin ár hefur verið varpað ljósi á ýmsar hliðar þjónandi forystu bæði í ljósi rannsókna og ekki síður miðað við reynslu og viðhorf fólks á vinnustöðum, stofnunum og félögum. Í ár eru dregin fram tengsl þjónandi forystu við áherslur brautryðjenda á ýmsum sviðum. Viðhorf og aðferðir þjónandi forystu nýtast í öllum viðfangsefnum brautryðjandans sem má draga saman samkvæmt þremur meginþáttum þjónandi forystu (Sigrún Gunnarsdóttir, 2011):

  • Brennandi áhugi. Brautryðjandi sem er þjónandi leiðtogi sýnir viðfangsefni sínu og samferðafólki brennandi áhuga. Áhuginn birtist í einbeitingu og góðri hlustun. Með því að hlusta eftir eigin hugmyndum og hugmyndum annarra eflist skilningurinn. Hlustun og skilningur gerir brautryðjandanum kleift að draga fram mikilvægustu sjónarmiðin og að virkja fólk með sér til góðra verka.
  • Sjálfsþekking. Brautryðjandi sem kýs þjónandi forystu leggur sig fram við sjálfsþekkingu og veit að sjálfsvitund og ígrundun eflir færni til að nýta krafta sína og styrkleika. Brautryðjandinn áttar sig líka á eigin veikleikum og leitar þess vegna til annarra eftir ráðgjöf og vinnuframlagi. Sjálfsþekking eflir sjálfstraust brautryðjandans og gerir honum auðveldara að koma fram af hógværð og auðmýkt.
  • Framtíðarsýn. Brautryðjandi hefur skýra framtíðarsýn og hugsjón sem hvetur hann áfram. Framtíðarsýn þjónandi leiðtoga tengist ábyrgðarskyldu brautryðjandans sem hann smitar til samferðafólks. Hugsjón og ábyrgðarskylda sameinar kraftana, styrkir samstarfið og viðheldur hvatningu og löngun til að ná markmiðunum.

Á ráðstefnunni á Bifröst 25. september 2015 munu fyrirlesarar og þátttakendur leita svara við spurningunni: ,,Hvernig getur þjónandi forysta verið drifkraftur brautryðjandans?”. Fyrirlesarar gefa innsýn í þjónandi forystu í viðskiptum, heimspeki, verkfræði, sveitarstjórnum og á fleiri sviðum mannlífsins. Til dæmis verður varpað ljósi á hvernig hógværð og auðmýkt leiðtogans eflir starfsgetu og starfsánægju starfsmannanna. Sömuleiðis verður glímt við staðhæfinguna um að ,,að tími frekjuhundsins sé líklega liðinn”.

Tre-stigur

 

 

 

 

 

 

 

 

Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015

Skráning

Sjötta ráðstefnan um þjónandi forystu verður haldin á Háskólanum á Bifröst föstudaginn 25. september 2015 kl. 10 – 15:30.

Yfirskrift ráðstefnunnar er: Þjónandi forysta og brautryðjendur. 

Auðmýkt leiðtogans eflir starfsgetu og ánægju starfsmanna

Skráning