Þjónandi forysta

  • Þekkingarsetur, viðburðir
    • Ráðstefnur hér á landi frá 2008
      • Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015
      • Ráðstefna á Bifröst 31. október 2014 – Dagskrá
      • Samstaða og árangur – Ráðstefna 14. júní 2013
  • Pistlar
  • Rannsóknir, greinar & bækur
    • Þjónandi forysta í hnotskurn
    • Í atvinnulífinu
    • Líkan Dirk van Dierendonck um þjónandi forystu
    • Íslenskar rannsóknir
  • Fréttabréf
  • Hafa samband
  • English
You are here: Home / Archives for Valdar greinar

Viðhorf starfsfólks í velferðarþjónustu til starfsumhverfis, forystu og stjórnunar

October 30, 2017 by Sigrún

Eydís Ósk Sigurðardóttir hefur lokið rannsókn til MS gráðu við Háskólann á Bifröst og fjallar rannsóknin um viðhorf starfsfólks í velferðarþjónustu til starfsumhverfis, forystu og stjórnunar.

Í ritgerðinni segir að tilgangurinn með rannsókninni sé að kanna viðhorf starfsmanna til starfsumhverfis, forystu og stjórnunar á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og að kanna ánægju starfsfólks í starfi með það að leiðarljósi að auka árangur skipulagsheilda, bæta hag og líðan starfsmanna og auka starfsánægju. Til hliðsjónar þeim gögnum sem rannsóknin byggir á var rýnt í viðhorfskannanir og verkefni á mannsauðssviði ásamt fjarvistarskráningu.

Rannsóknin er mikilvægt framlag til þróunar þekkingar um þjónandi forystu og áhugavert að kanna viðhorf til þjónandi forystu meðal starfsfólks velferðarsviðs. Rannsóknin varpar ljósi á nýjar hliðar þjónandi forystu með bandarísku mælitæki (OLA) sem ekki hefur verið notað áður hér á landi.

Helstu niðurstöður gefa til kynna að í starfsumhverfi á Velferðarsviði er þjónandi forysta til staðar. Starfsánægja hafði jákvæða fylgni við þjónandi forystu og við alla undirþætti þjónandi forystu. Vægi þjónandi forystu var mest í hópi yfirmanna og að meðaltali var starfsánægja meiri hjá konum, hjá starfsmönnum með framhaldskólamenntun og hjá þeim sem störfuðu í minna en 20 klukkustundir á viku. Starfsánægja hefur jákvæð marktæk tengsl við þjónandi forystu og er það í takt við íslenskar og erlendar rannsóknir. Starfsumhverfið leggur áherslu á að meta samstarfsfólk og traust og virðing er til staðar.

Tækifæri eru í forystu, stjórnun og starfsumhverfinu á velferðarsviði Reykjavíkurborgar sem felast í því að skerpa á forystu og framtíðarsýn og frekari uppbyggingu á sviði mannauðsmála. Mikilvægt er að huga að vinnuálagi í starfsumhverfinu og þeim þáttum sem efla og hvetja starfsfólk. Efling er mikilvægur þáttur í þjónandi forystu og efling í starfi stuðlar að vexti og þroska í starfi sem getur bætt hag starfsmanna, gæði þjónustunnar og árangur skipulagsheildarinnar.

Ritgerðin er aðgengileg hér á pdf.

 

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Ábyrgðarskylda, Íslenskar rannsóknir, Hlustun, MSc rannsókn, OLA, Rannsóknir, Robert Greenleaf, Servant leader, Servant leadership, Starfsumhverfi, Valdar greinar

Þjónandi forysta og starfsumhverfi starfsmanna í stjórnsýslu sveitarfélaga

September 1, 2017 by Sigrún

Magnea Steinunn Ingimundardóttir hefur lokið rannsókn til meistaragráður við Háskólann á Bifröst með áherslu á þjónandi forystu og starfsumhverfi starfsmanna í stjórnsýslu sveitarfélaga.

Í ritgerðinni segir m.a. að mikilvægt sé fyrir stjórnsýslu sveitarfélaga að rýna í hvaða breytinga er þörf til að mæta þeim áskorunum sem sveitarfélög standa frammi fyrir en rannsóknir á stjórnun og starfsumhverfi starfsmanna í stjórnsýslu sveitarfélaga eru fáar.

Í rannsóknni var vægi þjónandi forystu í stjórnsýslu sveitarfélaga kannað og skoðað hvort tengsl væru á milli einkennandi þátta þjónandi forystu og mats starfsmanna á sjálfræði í starfi. Gerð var spurningakönnun sem náði til um 600 starfsmanna hjá sjö sveitarfélögum. Mælitækið Servant Leadership Survey var notað auk spurninga um sjálfræði í starfi og niðurstöður greindar eftir þáttum SLS listans.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að þjónandi forysta er til staðar í stjórnsýslu sveitarfélaga og að starfsmenn njóta sjálfræðis í starfi að einhverju leyti. Rannsóknin sýndi jafnframt martækna fylgni á milli heildarmælingar þjónandi forystu og sjálfræðis í starfi, sem er í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að þjónandi forysta er hugmyndafræði og leiðtogaaðferð sem ástæða er fyrir stjórnsýslu sveitarfélaga að skoða nánar til að stuðla að aukinni framþróun og nýsköpun í stjórnsýslu sveitarfélaga og er ástæða til að rannsaka þetta efni nánar.

Ritgerðin er hér á pdf formi

Rigerðin er einnig aðgengileg hér á skemman.is

 

 

Filed Under: Íslenskar rannsóknir, Bifröst, Hlustun, Rannsóknir, Stjórnsýsla, Valdar greinar

Hver er þjónandi leiðtogi? – Lýsing Robert Greenleaf í bók hans Þjónn verður leiðtogi

February 24, 2017 by Sigrún

Hver er þjónandi leiðtogi?

Þjónandi leiðtogi er fyrst þjónn, eins og persónan Leó. Þetta hefst með þeirri náttúrulegu kennd að vilja þjóna, þjóna fyrst. Síðan veldur meðvitað val því að maður vill taka forystu. Gera verður skarpan greinarmun á þessari manneskju og þeirri sem er fyrst leiðtogi, ef til vill vegna þarfarinnar til að svala óvanalega mikilli valdalöngun eða til að komast yfir efnisleg gæði. Hjá slíkri manneskju mun valið um að þjóna koma síðar, eftir að hún er komin í leiðtogastöðu. Þetta eru tvær andstæðar manngerðir, sá sem er fyrst leiðtogi og sá sem er fyrst þjónn. Á milli þeirra eru svo blæbrigði og blöndur sem eru hluti af hinni óendanlegu fjölbreytni mannlegs eðlis.

Greina má muninn á manngerðunum í því hversu mikið sá sem er fyrst þjónn leggur upp úr því að komið sé til móts við þær þarfir fólks sem mestu skipta. Bestu prófsteinarnir – sem þó er erfitt að beita – eru þessir: Vaxa þeir, sem er þjónað, sem manneskjur? Verða þeir, á meðan verið er að þjóna þeim, heilbrigðari, vitrari, frjálsari, sjálfstæðari og sjálfir líklegri til að verða þjónar? Og hver eru áhrifin á þá sem minnst mega sín í samfélaginu? Munu þeir njóta góðs af eða verða að minnsta kosti ekki verr settir en áður?

Hvernig veit maður að þetta verður niðurstaðan þegar maður hefst handa við að þjóna? Það er hluti af þeirri ráðgátu sem það er að vera maður – ekki er hægt að vita það fyrir víst. Eftir nokkra yfirlegu og reynslu verður maður að setja fram tilgátu, en gera sér þó grein fyrir að hún er undirorpin vafa. Síðan framkvæmir maður í samræmi við tilgátuna og skoðar niðurstöðuna. Þannig má halda áfram að yfirvega og læra. Af og til þarf svo að endurskoða tilgátuna sjálfa.

Að lokum velur maður aftur. Ef til vill velur maður sömu tilgátuna aftur og aftur. En valið er alltaf nýtt og frjálst. Og tilgátan er alltaf undirorpin vafa. „Trú er það að velja göfugri tilgátuna.“ Ekki hina göfugustu, því maður veit aldrei hver sú tilgáta er. Heldur hina göfugri, sem er sú besta sem maður kemur auga á þegar valið fer fram. Þar sem niðurstaðna athafna er vanalega langt að bíða er trúin, sem viðheldur valinu á göfugri tilgátunni, byggð á sálfræðilegu sjálfsinnsæi. Þetta er áreiðanlegasti eiginleiki sanns þjóns.

Hinn náttúrulegi þjónn, sá sem er fyrst þjónn, er líklegri til að gefast ekki upp við að fínpússa tilgátu sína um hvað mætir þeim þörfum annarra sem mestu skipta en sá sem er fyrst leiðtogi og sem síðar þjónar vegna umvöndunar samviskunnar eða til að tryggja samræmi við almennar væntingar.

Vonir mínar til framtíðarinnar hvíla að hluta til á þeirri trú minni að á meðal hinna fjöldamörgu bágstöddu og lítt fáguðu séu margir sannir þjónar sem muni taka forystu og ennfremur að flestir þessara bágstöddu geti lært að þekkja úr hina sönnu þjóna í hópi allra þeirra sem segjast vilja þjóna þeim.

Úr riti Robert Greenleaf Servant as Leader – Þjónn verður leiðtogi (bls. 15) í þýðingu Róberts Jack.

Filed Under: Þjónandi leiðtogi, Hlustun, Valdar greinar

Hvernig lýsir Simon Sinek þjónandi forystu?

January 7, 2017 by Sigrún

Simon O. Sinek er breskur rithöfundur, fyrirlesari og ráðgjafi sem undanfarin ár hefur sett fram mjög áhugaverðar hugmyndir um samskipti, stjórnun og forystu sem um markt minna á hugmyndafræði þjónandi forystu eins og Robert Greenleaf lýsti í bókum sínum.

Simon Sinek hefur lýst hugmyndum sínum í nokkrum bókum og varð fyrst þekktur þegar hann gaf út bók sína Start With Why: How Great Leaders Inspire Everyone to Take Action árið 2009. TED fyrirlestur hans um bókina vakti gríðarlega athygli. Síðar hefur hann gefið bækurnar Leaders Eat Last: Why Some Teams Pull Together and Others Don’t (2014) og Together Is Better: A Little Book of Inspiration 2016.

Nýlega var Simon Sinek í viðtali við  Tom Bilyeu í þættinum Inside Quest þar sem Simon lýsti á mjög áhugaverðan hátt pælingum sínum um aldamótakynslóðina, samfélagsmiðla, samskipti og forystu. Viðtalið vakti mikla athygli og flaug hratt um vefmiðla og kjölfarið bauð Simon upp á samtal við sig á facebook 4. janúar 2017.

Við sendum Simon Sinek spurningu og báðum hann að ræða um viðhorf sín til þjónandi forystu. Svarið kom ekki á óvart enda endurspegla bækur Simon Sinek og fjölmargir fyrirlestrar hans mjög skarpa og áhugaverða sýn á gildi þjónandi foyrstu, –  þó Simon fari sparlega með að nota hugtakið :).

Svar Simon Sinek við spurningunni um þjónandi forystu 4. janúar 2017 er hér:

This manifesto from my second book Leaders Eat Last: Why Some Teams Pull Together and Others Don’t should make my views clear

Leaders are the ones who run headfirst into the unknown.
They rush toward the danger.

They put their own interests aside to protect us or to pull us into the future.

Leaders would sooner sacrifice what is theirs to save what is ours.
And they would never sacrifice what is ours to save what is theirs.

This is what it means to be a leader.

It means they choose to go first into danger, headfirst toward the unknown.

And when we feel sure they will keep us safe, we will march behind them and work tirelessly to see their visions come to life and proudly call ourselves their followers.

Inspire on.

Sjá hér: goo.gl/U1iZ56

simonsimon-leaders-eat

 

Hið fræga viðtal Simon Sinek við Tom Bilyeu í þættinum Inside Quest er hér:

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Óflokkað, Hlustun, Leaders Eat Last, Listening, Servant leader, Servant leadership, Simon Sinek, Valdar greinar

Sjö leiðir til að skapa traust, sameiginlega ábyrgð og árangur.

December 9, 2016 by Sigrún

Hugmyndafræði þjónandi forystu veitir innsýn í hvernig traust, skoðanaskipti og sameiginleg ábyrgð eru forsendur árangurs. Benda má á sjö leiðir til að skapa traust, sameiginlega ábyrgð og árangur í þjónandi forystu.

1. Sameiginlegur draumur og sameiginleg sýn. Greenleaf sagði eitt af mikilvægustu verkefnum leiðtogans væri að skapa sameiginlegan draum. Skuldbinding við málstað sem veitir innblástur styrkir einstaklingana bæði andlega og líkamlega. Hins vegar er mikilvægt að hin sameiginlega sýn sé grundvölluð á því að hver og einn þátttakandi hafi sýna eigin persónulegu sýn áður en hann gengst við hinni sameiginlegu sýn þannig að einstaklingarnir verði síður ósjálfstæðir þiggjendur, og að hópurinn, með sína sannfærandi sameiginlegu sýn, taki forystuna fyrir þá. Þegar hver og einn hefur skýra persónulega sýn og hefur mátað hana farsællega við hinn sameiginlega draum, sameiginlegu sýn og sameiginlega tilgang, verður sú samblöndun mikilsverður hvati og orkulind

2. Upplýsingar og skoðanaskipti. Í upplýsingum felast áhrif og valdabaráttan birtist í því að fólk situr á upplýsingum í stað þess að deila þeim með hópnum til að auðga og bæta starfið. Þar sem hins vegar fólk kann að tala saman, hver og einn tekur ábyrgð á sínu en tekur jafnframt tillit til framlags hinna, verður samanlögð andleg geta hópsins meiri en andleg geta þess skarpasta í hópnum. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að skoðanaskipti er forsenda sköpunar í starfi og traust er nauðsynleg forsenda þess að við segjum frá því sem út af ber í starfi okkar og þar með er traust forsenda úrbóta sem hugsanlega er þörf. Rosabeth Moss Kant hefur birt fjölda rannsókna um traust og telur traust grunnforsendu árangurs fyrirtækja og stofnana.

3. Sameiginleg ábyrgðarskylda byggir á sáttmála sem starfsfólk og stjórnendur skapa. Markmiðið í þjónandi forystu er að sérhver starfsmaður bæði veiti og þiggi forystu. Hver og einn tekur fulla ábyrgð á því sem hann þekkir best, hæfileikum sínum og sjónarmiðum. Ábyrgðarskyldan tengist tilgangi verkefnanna, framsýni og þeirri hugsjón sem leiðtoginn fylgir. Ábyrgðarskylda leiðtogans felst meðal annars í því að deila ábyrgð með öðrum starfsmönnum. Þjónandi leiðtogi er fremstur meðal jafningja og leiðtoginn sem er fremstur hverju sinni er sá sem hefur hæfileikann til að sjá fram á veginn og hafa framsýni sem skapar honum forskot til forystu.

4. Traust í samskiptum er forsenda þess að við segjum frá hugmyndum okkar og viðhorfum, jafnvel þó skoðanir séu skiptar og líklegt sé að ágreiningur verði til. Til þess að sameiginleg forysta gangi upp er mjög mikilvægt að gagnkvæmt traust sé til staðar. Aldrei má líta svo á að ein persóna, hópur eða eining sé mikilvægari en önnur. Aðstæður geta breyst og sérhver einstaklingur getur hvenær sem er þurft að taka forystu á því sviði sem hann þekkir best til. Um leið þarf hver og einn að vera þjónn allra hinna, slípa samstarfið og veita stuðning á þeim sviðum þar sem aðrir þekkja betur til og eru í forystu.  Robert Greenleaf benti á að traust verður til þegar leiðtoginn hlustar af alúð. Áhugi og virðing leiðtogans fyrir hugmyndum og sjónarmiðum annarra skapar traust og hugrekki leiðtogans birtist í því að fagna mismunandi viðhorfum og að skapa aðstæður fyrir gagnrýna umræðu og skoðanaskipti

 

5. Tækifæri til að breytast og vaxa. Ef við göngum markvisst til samstarfs við fólk sem er ólíkt okkur, hefur aðra styrkleika og veikleika en við sjálf, fáum við ómetanleg tækifæri til að breytast og vaxa. Í dag er svo komið að sá sem breytist ekki dregst aftur úr sem bæði er erfitt og skaðlegt. Ef við, sem leiðtogar, veitum fólkinu sem við þjónum, ekki stöðug tækifæri til að vaxa og breytast, völdum við því skaða. Með því bregðumst við trausti þeirra sem við veitum forystu – þeim sem við þjónum.

6. Auðmýkt í samskiptum skapar traust. Auðmýkt er ekki veiklyndi og auðmýkt er ekki skortur á sjálfstrausti eða sjálfsáliti. Sjálfsöruggum leiðtogum líður vel í eigin skinni vegna auðmýktar sinnar. Þeir þurfa ekki að sanna sig með því að berja sér á brjóst eða láta bera á ágæti sínu. Með auðmýkt reynist auðveldara að viðurkenna mistök. Auðmýkt er ekki að láta ekki til sín taka eða í sér heyra. Auðmjúkir leiðtogar láta til sín taka, en gera það á viðeigandi hátt. Auðmýkt er ekki metnaðarleysi því auðmjúkir leiðtogar hafa metnað fyrir því starfi sem þeir veita forystu. Auðmýkt felst þannig í því að hafa vera nálægt jörðinni, nálægt fólki, nálægt því sem raunverulega skiptir máli – hafa báða fætur á jörðinni.

7. Hlustun. Í ritum Robert Greenleaf er hlustun rauði þráðurinn og undirstaða þess árangurs sem hugmyndafræði þjónandi forystu leiðir af sér.  Greenleaf segir einbeitta hlustun ætíð vera fyrstu viðbrögð þjónandi leiðtoga þegar tekist er á við verkefni. Einlægur áhugi á hugmyndum og högum annarra birtist meðal annars í hlustuninni. Róbert Greenleaf lagði áherlsu á að þjálfa hlustun og væri það mikilvægast sem leiðtoginn gerði til að ná góðum árangri í störfum sínum. Hlustun þarf alls ekki að fela í sér samþykki á því sem sagt er en einlæg og einbeitt hlustun skapar traust og styrk hjá þeim sem hlustað er á.

Greenleaf-Listen

 

 

 

 

 

 

 

 

Idea Greenleaf

 

Byggt m.a. á bók Robert K. Greenleaf: Servant as Leader og grein Ann McGee-Cooper og Duane Trammell (2009): Accountability as Covenant: The Taproot of Servant Leadership.

 

Filed Under: Accountability, Auðmýkt, Þjónandi leiðtogi, Ábyrgð, Ábyrgðarskylda, ágreiningur, einlægur áhugi, Framsýni, Hlustun, Hugsjón, Humility, Listening, Samfélagsleg ábyrgð, Servant leader, Servant leadership, skiptar skoðanir, Traust, Valdar greinar, Vision

Auðmýkt skapar traust, sanngirni og árangur

September 25, 2016 by Sigrún

 

Hvað er auðmýkt?

Höfundar bókarinnar Start with Humility (Comer og Hayes, 2011)  telja til ellefu hegðunareinkenni auðmýktar, einkenni sem tjá auðmýkt og eru þess valdandi að aðrir telja viðkomandi auðmjúka(n). Hinn auðmjúki leiðtogi:

  1. viðurkennir mistök og vanþekkingu
  2. ástundar góð samskipti á öllum þrepum fyrirtækis
  3. temur sér gagnsæ vinnubrögð
  4. sýnir samkennd
  5. hefur húmor fyrir sjálfum sér
  6. er heiðarlegur
  7. er ekki í vörn
  8. er tiltæk(ur), auðvelt að nálgast hann
  9. ástundar virka hlustun
  10. hvetur til þátttöku
  11. virðir framlag annarra, bæði á formlegan og óformlegan hátt

Hvaða gagn er af auðmýkt?

Auðmjúkir leiðtogar ná árangri, þeir njóta virðingar og trausts og fólk fylgir þeim að málum. Auðmýkt er mikilvæg vegna þess að hún vekur traust sem er farsælli forystu nauðsynlegt. Athyglisvert er að skoða uppruna samsvarandi orðs í ensku – humility, orðið er leitt af orðinu humus sem merkir einfaldlega „jörð“ eða „jarðvegur“. Auðmýkt felst þannig í því að hafa vera nálægt jörðinni, nálægt fólki, nálægt því sem raunverulega skiptir máli – hafa báða fætur á jörðinni.

Hvað er auðmýkt ekki?

Auðmýkt er ekki veiklyndi og auðmýkt er ekki skortur á sjálfstrausti eða sjálfsáliti. Sjálfsöruggum leiðtogum líður vel í eigin skinni vegna auðmýktar sinnar. Þeir þurfa ekki að sanna sig með því að berja sér á brjóst eða láta bera á ágæti sínu:

  1. Auðmýkt er ekki óöryggi, heldur sjálfsöruggi til að geta viðurkennt mistök, frekar en að kenna öðrum um.
  2. Auðmýkt er ekki að láta ekki til sín taka eða í sér heyra. Auðmjúkir leiðtogar láta til sín taka, en gera það á viðeigandi hátt.
  3. Auðmýkt er ekki metnaðarleysi því auðmjúkir leiðtogar hafa metnað fyrir því starfi sem þeir veita forystu.

Hvers vegna njóta auðmjúkir leiðtogar trausts?

  • Auðmjúkir leiðtogar hafa einlægan áhuga á öðru fólki og spyrja samstarfsmenn því frekar um skoðanir þeirra og hagi.
  • Þeir gefa með hegðun sinni skýrt til kynna að þeim standi ekki á sama um annað fólk.
  • Auðmýkt getur af sér sanngirni og hjálpar leiðtoganum að sjá málin út frá sjónarhorni þeirra sem eru þeim ólíkir.
  • Með sanngirni sýnir leiðtoginn að hann sér hlutina ekki aðeins út frá sínu sjónarhorni.

Þegar leiðtogi setur hag annarra framar sínum líður starfsfólki betur, finnur að hag þeirra sé gætt, finnur að því er treyst og að því sé sýnd virðing. Allt þetta er hvatning til að gefa af sér og leggja sig fram af öllum mætti, að vanda sig og vinna saman. Árangurinn sem af því hlýst eykur traust á leiðtoganum.

Höfundar greinar: Guðjón Ingi Guðjónsson / Sigrún Gunnarsdóttir

 

Start with Humility (Comer og Hayes, 2011)

Start-Humility

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Hlustun, sjálfsþekking, Valdar greinar

Þjónandi forysta landsliðs karla í fótbolta: leikmenn og þjálfarar

July 3, 2016 by Sigrún

Margt bendir til þess að þjónandi forysta einkenni landslið karla í fótbolta. Það fyrsta sem vekur upp þær pælingar er framkoma þjálfara og leikmanna á leikvelli og áherslur leikmanna og þjálfara í viðtölum við fjölmiðla.

Það sem einkennir þjálfara landsliðsins og leikmenn er auðmýkt og hógværð sem birtist með yfirvegun og virðingu gagnvart náunganum. Þetta sést greinilega í viðtölum og líka þegar fylgst er með fasi og framgöngu leikmanna og þjálfara. Auðmýkt er lykilþáttur í þjónandi forystu og er mikilvæg forsenda þess að einstaklingarnir horfast í augu við eigin styrkleika og veikleika og gerir þeim kleift að draga fram það besta í eigin fari. Auðmýkt gerir einstaklingunum líka kleift að hlusta á sjónarmið annarra, bera virðingu fyrir náunganum og auðvelda öðrum að blómstra og að njóta sín.  Þetta sést svo vel þegar horft er á þjálfara liðsins á meðan á leik stendur. Þeir sýna sérstaka yfirvegum og gefa leikmönnum algjört frelsi til að njóta sín sem byggir þó á mikilli yfirvegun og meðvitund um grundvallarreglur og princip liðsins.  Auðmýkt kemur líka greinilega fram þegar leikmenn eru spurðir um árangur og horfur í mótum.

Annað sem einkennir landsliðið er sem sagt agi og yfirvegum. Þar er svo greinilegt að þjálfunin felst ekki síst í því að hafa reglur liðsins á hreinu og fylgja þeim í hvívetna. Á grunni þessa aga fá leikmennirnar frelsi sem birtist til dæmis í hæfni þeirra til að bregðast við óvæntum atvikum á leikvellinum þar sem þeir flétta saman eigin færni, innsæi og sköpunarkrafti til að leysa verkefnin á nýjan og árangursríkan hátt. Agi, sameiginlegir sáttmálar og reglur eru grunnstoðir árangurs í þjónandi forystu og stundum er þessum aga lýst sem ástríkum aga, – tough on the problem, gentle with the person: festa gagnvart verkefni, mildi við einstaklinginn.

Þriðja atriðið sem einkennir landsliðið og minnir mjög á þjónandi forystu er skýr sýn á tilgang, markmið og framtíðarsýn. Þessi sýn kemur skýrt fram í orðum Lagerbäck og bendir sterklega til þess að hann sé þjónandi leiðtogi og þessi skýri fókus endurspeglast greinilega hjá liðsmönnunum. Skýr sýn á tilgang og hæfileikinn til að sjá fram á veginn myndar forskot til forystu og einkennir þjónandi leiðtoga.

Rannsóknir sýna að þjónandi forysta er starfsandi í hópum, félögum og fyrirtækjum. Þjónandi forysta hefur uppbyggjandi áhrif á samskipti og áherslur og leiðir til þess að einstaklingar og hópar ná árangri sem birtist t.d. í starfsánægju, starfsorku og auknum gæðum þjónustu sem veitt. Í þjónandi forystu er markmiðið að skapa marga leiðtoga, marga einstaklinga sem eru sjálfstæðir og hæfir til að skapa og til að taka af skarið þegar á reynir. Margt bendir til þess að áherslur þjónandi forystu hjá íslenska landsliðinu í karlafótbolta hafi jákvæð áhrif á leikmennina og árangur liðsins.

Áhugavert er að rýna í aðferðir og viðhorf Lars Lagerbäck og bera það saman við hugmyndafræði þjónandi forystu og þeirra þriggja þátta sem eru einkennandi fyrir þjónandi leiðtoga. Byggt er á viðtölum við Lagerbäck og við liðsmenn íslenska fótboltalandsliðsins og erindi sem Lagerbäck hélt um stjórnun og forystu á fundi Félags atvinnurekenda snemma árs 2015.

  • Fyrsta einkenni þjónandi forystu er einlægur áhugi á öðrum, hugmyndum þeirra og þörfum. Hjá Lars Lagerbäck kemur þetta mjög skýrt fram. Hann leggur áherslu á að sýna leikmönnum virðingu og traust. Hver og einn liðsmaður skiptir máli og hann leggur sérstaka áherslur á að hver maður fái að njóta sín. Frelsi einstaklinganna og sjálfræði þeirra er grundvallaratriði í þjónandi forystu og þetta kemur líka fram hjá Lagerbäck. Hann virkjar sjálfstæði hvers leikmanns og markmiðið er að hver og einn geti tekið ákvarðanir.
  • Annar hluti þjónandi forystu er sjálfsþekking og sjálfsvitund sem skerpist með því að líta í eigin barm, að horfa á sig í speglinum eins og Lagerbäck orðar það sjálfur. Hann telur mikilvægt að þjálfarinn sé meðvitaður um sjálfan sig, eigin skilaboð, t.d. óorðuð skilaboð og líkamstjáningu. Sjálfsþekking og góð sjálfsmynd birtist líka í hógværri framkomu og auðmýkt sem eru sérstök einkenni Lars Lagerbäck sem án ef smitast til leikmannanna og bætir án ef alla samvinnu þeirra á vellinum.
  • Þriðja einkenni þjónandi forystu er skörp framtíðarsýn og skýr sýn á markmið. Þetta endurspeglast í ábyrgðarskyldu og aga þar sem hver og einn þekkir eigin ábyrgð og hlutverk. Fókus á aðalatriðin er líklega einn af þeim þáttum sem einkenna íslenska fótboltalandsliðið og skýrist án efa af skarpri sýn þjálfara liðsins og leikamanna á markmiðin og áherslu hans á aga og ábyrgð hvers og eins. Hann leggur áherslur á fáar reglur, ábyrgð hvers og eins og að fókusinn sé á aðalatriðin.

Tveir thjalfarar 27 Juni 2016 EMLandslidid og ahorfendur 22 juni 2016 i Paris EM Fotbolti

Filed Under: Aron Einar, Auðmýkt, Þjálfun, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Ábyrgðarskylda, Ástríkur agi, Íþróttir, Fótbolti, Framtíðarsýn, Hlustun, Humility, jafningi, Knattspyrna, Landslið, Landslið karla í fótbolta, Lars, Lars Lagerbäck, Servant as leader, Servant leader, Servant leadership, Valdar greinar

Menningarhæfni, barneignarþjónusta og þjónandi forysta – Birna Gerður Jónsdóttir

April 26, 2016 by Sigrún

Birna Gerður Jónsdóttir ljósmóðir og aðstoðardeildarstjóri á fæðingarvakt Landspítala gerði árið 2010 rannsókn til meistaraprófs í hjúkrunarstjórnun við Háskóla Íslands.  Rannsóknin fjallaði um barneignarþjónustu, menningarhæfni og þjónandi forystu undir heitinu: Að eignast barn í nýju landi. Viðhorf og reynsla erlendra kvenna af barneignarþjónustu á Íslandi.

Tilurð rannsóknarinnar tengist því að nýbúum hér á landi hefur fjölgað hratt undanfarin ár og æ fleiri erlendar konur eru í hópi skjólstæðinga barneignarþjónustunnar sem kallar á nýjar áskoranir umönnunaraðila. Fáar rannsóknir liggja yfir um efnið og á þeim tíma sem rannsóknin var gerð höfðu engar rannsóknir verðið gerðar um efnið hér á landi.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt misgóða reynslu erlendra kvenna af barneignarþjónustu og birta vísbendingar um að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til menningarbundinna viðhorfa í umönnun. Menningarhæfni (cultural competence) er hugtak sem lagt er til grundvallar í þessari rannsókn en markmið hennar er að dýpka skilning og þekkingu á menningartengdum viðhorfum, hefðum og væntingum erlendra kvenna til barneignarferlisins og varpa ljósi á reynslu þeirra af barneignarþjónustunni.

Við gerð rannsóknarinnar var notuð etnógrafía sem fól í sér viðtöl við sjö erlendar konur sem fæddu börn sín hér á landi. Gögn voru greind í þrjú meginþemu: 1) Fjölskyldulíf fjarri heimahögum sem vísar til aðstæðna kvennanna sem söknuðu samfélags og tengslanets að heiman. 2) Að eignast barn í nýju landi vísar til aðlögunar kvennanna og viðhorfa til barneignarferlisins sem rímaði vel við almenn viðhorf hér á landi. Sátt var við skipulag barneignarþjónustunnar en vísbendingar um einangrun og depurð eftir fæðingu. 3) Snertifletir samskipta vísar til fjölbreyttra samskipta með og án orða, með eða án túlka og var reynsla hér misgóð.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru í takt við erlendar rannsóknir og sýna almenna ánægju viðmælenda með viðmót fagfólks en gefa vísbendingar um að bæta megi barneignarþjónustuna hvað varðar fræðslu, þjónustu vegna tungumálaerfiðleika og stuðning eftir fæðingu. Samfelld ljósmæðraþjónusta virðist henta þessum hópi vel og mikilvægt að leggja áherslu á styrkingu (empowerment) kvennanna.

Í ályktun rannsóknarinnar segir að þekking heilbrigðisstarfsfólks á viðhorfum og reynslu erlendra kvenna á barneignarferlinu sé mikilvæg til að auka skilning fagfólks á þörfum þeirra og leggja grunn að skipulagi barneignarþjónustu sem hæfir best þörfum þessa minnihlutahóps.

Á ársfundi Landspítalans 25. apríl 2016 var Birna Gerður heiðruð og í umsögn segir m.a. ,,Birna er heiðarleg og góð manneskja sem treystandi er á. Hún hefur tileinkað sér stjórnunarstefnu sem einkennist af þjónandi forystu og sýnir það í verki”.

Birna Gerdur Heidrud LSH 2016

Birna Gerður Jónsdóttir heiðruð á ársfundi LSH 2016.

Ritverk Birnu Gerðar um þjónandi forystu:

Meistararitgerð Birnu Gerðar Jónsdóttur. Að eignast barn í nýju landi. Viðhorf og reynsla erlendra kvenna af barneignarþjónustu á Íslandi, 2010.

Grein Birnu Gerðar Jónsdóttur, Ólafar Ástu Ólafsdóttur og Sigrúnar Gunnarsdóttir um rannsókina í Tímariti Stjórnmála og stjórnsýslu, 2011.

Grein Birnu Gerðar Jónsdóttur, Ólafar Ástu Ólafsdóttur og Sigrúnar Gunnarsdóttur um rannsóknina í Tímariti ljósmæðra 2012.

Grein Birnu Gerðar Jónsdóttur og Sigrúnar Gunnarsdóttur um þjónandi forystu í Tímariti Stjórnmála og stjórnsýslu, 2013.

Grein Birnu Gerðar um þjónustuleiðtoga (þjónandi leiðtoga) 2006.

thjonandi-forysta-logo

 

Filed Under: Þjónandi forysta, Hlustun, Menningarhæfni, MSc rannsókn, Rannsóknir, Traust, Valdar greinar

Sýn þriggja íslenskra leiðtoga á þjónandi forystu

April 8, 2016 by Sigrún

Undanfarin ár hefur þekkingarsetur um þjónandi forystu verið í góðu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir um kennslu og ráðgjöf um hugmyndafræði og hagnýtingu þjónandi forystu. Jafnframt hafa fjölmargir stjórnendur og leiðtogar sótt ráðstefnur Þekkingarsetursins og nýtt fróðleik sem þar hefur komið fram og hugmyndir sem þar hafa skapast í samtali þátttakenda. Meðal þessara leiðtoga eru Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Bylgja Kærnested, hjúkrunardeildarstjóri og Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri. Hér fylgja nokkur orð þessara kvenna um sýn þeirra á þjónandi forystu:

Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu:

Allir opinberir starfsmenn eru þjónar almennings og það ber okkur sem störfum hjá hinu opinbera að hafa í huga í öllum okkar verkefnum. Það er auðvelt að fjarlægjast þetta grundvallarhlutverk í dagsins önn og því er mjög gott að geta leitað til Þekkingarseturs um þjónandi forystu til þess að minna sjálfan sig og samstarfsfólk sitt á mikilvægi þess að vera þjónandi en ekki síður á þá staðreynd að við gegnum ÖLL forystu bæði í starfi og einkalífi.

Bylgja Kærnested, hjúkrunardeildarstjóri, Hjartadeild 14-EG, Landspítala:

Það sem ég hef lært af lestri mínum og ráðstefnum um þjónandi forystu er að bestu leiðtogar eru þeir sem lýsa ljósinu á aðra, greiða götur þeirra og þeir fá að njóta sín. Ég hef það ávallt að leiðarljósi og líka það að taka sjálfan sig ekki of hátíðlega og koma fram við alla eins og ég vil að komið sé fram við mig. Ef ég væri ekki þjónandi leiðtogi þeirra sem vinna með mér og sjúklinga Landspítalans þá hefði ég litið að gera í því starfi sem ég er í dag. Þetta er það sem gerir daga mína í vinnunni gefandi og góða.

Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri, Velferðarráðuneyti:

Stjórnendur velferðarráðuneytisins óskuðu eftir sérstöku námskeiði í hugmyndafræði þjónandi forystu sem Sigrún Gunnarsdóttir hjá Þekkingarsetri um þjónandi forystu skipulagði og stýrði. Við erum mjög ánægð með námskeiðið og teljum að hugmyndafræði þjónandi forystu sé mjög góð og að sú þekking hafi eflt okkur sem stjórnendur. Einlægur áhugi á velferð annarra og vilji til að láta gott af sér leiða eins og kemur fram í hugmyndafræði þjónandi forystu er grundvallarþáttur okkar í velferðarráðuneytinu eins og kemur greinilega fram í gildum ráðneytisins sem eru virðing, fagmennska, framsýni og árangur.

thjonandi-forysta-logo

Filed Under: Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Hlustun, Servant leader, Servant leadership, Valdar greinar

Ábyrgðarskylda, traust og trúverðugleiki – Þjónandi forysta.

April 3, 2016 by Sigrún

Ábyrgðarskylda er mikilvæg forsenda árangurs þjónandi forystu. Ábyrgðarskyldan tengist tilgangi verkefnanna, framsýni og þeirri hugsjón sem leiðtoginn fylgir. Ábyrgðarskylda leiðtogans felst meðal annars í því að deila ábyrgð með öðrum starfsmönnum. Þjónandi leiðtogi er fremstur meðal jafningja og leiðtoginn sem er fremstur hverju sinni er sá sem hefur hæfileikann til að sjá fram á veginn og hafa framsýni sem skapar honum forskot til forystu.

Markmiðið í þjónandi forystu er síðan að sérhver starfsmaður bæði veiti og þiggi forystu. Hver og einn tekur fulla ábyrgð á því sem hann þekkir best, hæfileikum sínum og sjónarmiðum. Eftirfarandi þættir eru mikilvægir til að skapa og viðhalda ábyrgðarskyldu í þjónandi forystu:

1. Upplýsingar. Í upplýsingum felast áhrif og valdabaráttan birtist í því að fólk situr á upplýsingum í stað þess að deila þeim með hópnum til að auðga og bæta starfið. Þar sem hins vegar fólk kann að tala saman, hver og einn tekur ábyrgð á sínu en tekur jafnframt tillit til framlags hinna, verður samanlögð andleg geta hópsins meiri en andleg geta þess skarpasta í hópnum.

2. Traust. Til þess að sameiginleg forysta gangi upp er mjög mikilvægt að gagnkvæmt traust sé til staðar. Aldrei má líta svo á að ein persóna, hópur eða eining sé mikilvægari en önnur. Aðstæður geta breyst og sérhver einstaklingur getur hvenær sem er þurft að taka forystu á því sviði sem hann þekkir best til. Um leið þarf hver og einn að vera þjónn allra hinna, slípa samstarfið og veita stuðning á þeim sviðum þar sem aðrir þekkja betur til og eru í forystu.

3. Sameiginleg sýn: Skuldbinding við málstað sem veitir innblástur styrkir mann bæði andlega og líkamlega. Hins vegar er mikilvægt að hin sameiginlega sýn sé grundvölluð á því að hver og einn þátttakandi hafi sýna eigin persónulegu sýn áður en hann gengst við hinni sameiginlegu sýn. Hætt er við því að þátttakendur sem ekki hafa hafa skilgreint sína eigin persónulegu sýn og skortir skýra sjálfsmynd og tilgang, verði ósjálfstæðir þiggjendur, og að hópurinn, með sína sannfærandi sameiginlegu sýn, taki forystuna fyrir þá. Þegar hver og einn hefur skýra persónulega sýn og hefur mátað hana farsællega við hinn sameiginlega tilgang, verður sú samblöndun mikilsverður hvati og orkulind.

4. Uppbyggileg afstaða til breytinga: Flest fögnum við innihaldsríkum áskorunum, ekki síst ef þær eru í samræmi við aukna getu og hæfni og ef við njótum stuðnings hjá góðu samstarfsfólki. Það er mun erfiðara að skila árangri án hjálpar og það getur reynst dýrkeypt að uppgötva takmörk sín of seint.

5. Tækifæri til að breytast og vaxa. Ef við göngum markvisst til samstarfs við fólk sem er ólíkt okkur, hefur aðra styrkleika og veikleika en við sjálf, fáum við ómetanleg tækifæri til að breytast og vaxa. Í dag er svo komið að sá sem breytist ekki dregst aftur úr sem bæði er erfitt og skaðlegt. Ef við, sem leiðtogar, veitum fólkinu sem við þjónum, ekki stöðug tækifæri til að vaxa og breytast, völdum við því skaða. Með því bregðumst við trausti þeirra sem við veitum forystu – þeim sem við þjónum.

Texti: Guðjón Ingi Guðjónsson og Sigrún Gunnarsdóttir. Byggt á grein Ann McGee-Cooper og Duane Trammell (2009): Accountability as Covenant: The Taproot of Servant Leadership.

Abyrgdarskylda

Filed Under: Accountability, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Ábyrgð, Ábyrgðarskylda, Framsýni, Framtíðarsýn, Hugsjón, Samfélagsleg ábyrgð, Servant leader, Servant leadership, Valdar greinar

  • 1
  • 2
  • 3
  • …
  • 5
  • Next Page »

Fylgstu með okkur

  • Facebook
  • Twitter
  • YouTube

Þjónandi forysta í hnotskurn

Í stuttu máli má lýsa þjónandi forystu sem samspili þriggja meginstoða sem allar eru innbyrðis tengdar og mynda eina heild:

1) Fyrsta stoðin er einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra sem birtist með einbeittri hlustun og aðgerðum sem efla aðra og aðstoða þá til að blómstra og að njóta sín.

2) Önnur stoðin er vitun og sjálfsþekking sem birtist í sjálfsöryggi, auðmýkt og hugrekki.

3) Þriðja stoðin er framsýni og skörp sýn á hugsjón sem birtist með sýn á tilgang og ábyrgðarskyldu.

Segja má að fyrstu tvær stoðirnar myndi þjónustuhluta þjónandi foyrstu og þriðja stoðin myndar forystuhlutann. Sjá nánari lýsingu hér.

Líkanið sem hér er lýst byggir á hugmyndum Robert K. Greenleaf sem upphafsmaður þjónandi forystu og birti fyrsta rit sitt um hugmyndina árið 1970 og segir þar m.a.: ,,Þjónandi leiðtogi er í fyrsta lagi þjónn. […] Það byrjar með eðlislægri tilfinningu um að vilja þjóna, að þjóna fyrst. Síðar leiðir meðvituð ákvörðun viðkomandi til forystu. Slíkur einstaklingur er ólíkur þeim sem er fyrst leiðtogi, líklega vegna takmarkaðrar löngunar til valda og efnislegra gæða. (Greenleaf, 1970/2008, 15). Sjá nánar hér.

Copyright © 2023 · News Pro Theme on Genesis Framework · WordPress · Log in

 

Loading Comments...