Þjónandi forysta

  • Þekkingarsetur, viðburðir
    • Ráðstefnur hér á landi frá 2008
      • Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015
      • Ráðstefna á Bifröst 31. október 2014 – Dagskrá
      • Samstaða og árangur – Ráðstefna 14. júní 2013
  • Pistlar
  • Rannsóknir, greinar & bækur
    • Þjónandi forysta í hnotskurn
    • Í atvinnulífinu
    • Líkan Dirk van Dierendonck um þjónandi forystu
    • Íslenskar rannsóknir
  • Fréttabréf
  • Hafa samband
  • English
You are here: Home / Archives for Þjónandi forysta

Þjónn fólksins

March 6, 2022 by Sigrún

Volodymyr Zelensky forseti Ukraínu hefur stigið fram sem áhrifamikill leiðtogi sem hefur sameinað þjóð sína og uppörvað hana á örlagaríkum tímum innrásar í landið. Zelenskyy hefur ekki síst vakið athygli fyrir að koma fram sem jafningi fólksins og hefur bókstaflega stigið fram sem leiðtogi sem er fremstur meðal jafningja.

Framganga Zelensky á tímum innrásarinnar í Úkraníu sýnir forystu sem mótast af einlægum vilja til þjóna sem og hugrekki og járnvilja til að efla varnir lands og þjóðar.

Þessar áherslur og aðgerðir Zelensky hafa vakið athygli og aðdáun um heim allan og í viðtali á RÚV 6. mars s.l. talaði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands um Zelensky sem ,,þjóðhetju Úkraínumanna og tákn hugrekkis“ og að Zelensky væri ,,táknmynd þess sem er gott og gilt í þjóðarleiðtoga“.

Þjónn fólksins
Aðdragandi forsetatíðar Zelensky er hlutverk hans sem forseti Úkraínu í sjónvarpsþætti sem bar heitið Þjónn fólksins (Servant of the People). Þessi reynsla leiddi síðar til framboðs hans til forseta undir nafni stjórnmálaflokks sem ber sama heiti og sjónsvarpsþátturinn. Zelensky hlaut 73% atkvæða í forsetakosningunum og nýtur nú sívaxandi trausts meðal þjóðarinnar.


Þjónn sem verður leiðtogi

Leiðtogi sem fléttar saman mýkt þjónsins og staðfestu forystunnar endurspeglar megináherslur hugmyndafræði þjónandi forystu sem snúast um 1) einlægan áhuga á hagsmunum annarra, 2) auðmýkt sem byggir á innra öryggi og 3) stefnu sem sameinar fylgjendur. Í þjónandi forystu er leitast við að skapa jafnvægi mildi og festu; ástríki og aga; frelsis og ábyrgðar.


Adam Grant prófessor við Wharton háskólann og höfundur fjölmargra bóka um stjórnun og forystu er einn þeirra sem hefur fjallað um einstaka forystuhæfileika og hugrekki Zelensky. Grant skrifar um einstaka hæfileika Zelensky að geta fléttað saman mjúka og harða hlið leiðtogans; að geta þjónað fólkinu og að gera barist fyrir fólkið. Grant lýsir forystu Zelensky meðal annars þessum orðum:


Við fylgjum leiðtogum sem berjast fyrir okkur og við færum fórnir fyrir leiðtoga sem þjóna okkur

We follow the leaders who fight for us—and we make sacrifices for the leaders who serve us

Árangur þjónandi forystu kemur fram í rannsóknum og nýlegum dæmum sem sýna að áherslur og aðferðir þjónandi forystu reynast árangursríkar í forystu þjóðarleiðtoga eins og framganga Jacindu Ardern forsætisráðherra Nýja Sjálands sýnir meðal annars. Gagnsemi þjónandi forystu hefur jafnframt komið sérstaklega fram á tímum kreppu, til dæmis í árangri ýmissa leiðtoga á tímum Covid-19.

Áhugi á þjónandi forystu hefur aukist undanfarin ár og rannsóknri sýna að hún getur skilað góðum árangri og eflt vellíðan víða í samfélaginu, meðal annars í heilbrigðisþjónustu og í skólum. Þjónandi forysta getur haft góð áhrif á ferðaþjónustu og styrkt árangur íþróttaþjálfunar. Þá getur hagnýting þjónandi forystu haft góð áhrif á rekstur og árangur flugfélaga og haft góð áhrif á líðan og árangur starfsfólks á almennum markaði.

Mynd: https://www.labour.org.nz/jacindaardern

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Ábyrgðarskylda, þjónn verður leiðtogi, einlægur áhugi, Hlustun

Þjónn verður leiðtogi – Grunnrit um þjónandi forystu

October 17, 2021 by Sigrún

Árið 2018 kom út íslensk þýðing fyrsta rits Robert K. Greenleaf um þjónandi forystu: Þjónn verður leiðtogi.  Ritið var fyrst gefið út árið 1970 og hefur verið þýtt á fjölda tungumála.

Í ritinu fjallar Greenleaf um meginþætti hugmyndar sinnar um þjónandi forystu meðal annars um hlutverk leiðtogans að setja markmið sem vísar til þess að hafa skýran tilgang og að skapa stóran draum:

Orðið „markmið“ er hér notað í þeirri sérstöku merkingu að vísa til hins alltumlykjandi tilgangs, hins stóra draums, draumsýnarinnar, hinnar endanlegu fullkomnunar sem maður nálgast en nær aldrei í raun. Þetta er eitthvað sem eins og sakir standa er utan seilingar, eitthvað til að leitast við að ná, til að færast í áttina að eða verða. Þetta er þannig sett fram að það gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn og skorar á fólk að vinna að einhverju sem það veit ekki enn hvernig það á fyllilega að framkvæma, einhverju sem það getur verið stolt af á meðan það færist í áttina að því.

Sérhvert afrek hefst á markmiði, en ekki bara einhverju markmiði og það er ekki bara einhver sem setur það fram. Sá sem setur markmiðið fram þarf að vekja traust, sérstaklega ef um er að ræða mikla áhættu eða draumkennt markmið, því að þeir sem fylgja eru beðnir að sættast á áhættuna með leiðtoganum. Leiðtogi vekur ekki traust nema maður hafi trú á gildum hans og hæfni (þar á meðal dómgreind) og nema hann hafi nærandi anda (enþeos*) sem mun styðja þróttmikla eftirsókn eftir markmiði.

Fátt gerist án draums. Og til að eitthvað stórt geti gerst, þarf stór draumur að vera til staðar. Á bak við sérhvert mikið afrek er einhver sem dreymir stóra drauma. Til að gera drauminn að veruleika þarf mun meira en þann sem dreymir en draumurinn þarf fyrst að vera til staðar.

Robert K. Greenleaf (2018): Þjónn verður leiðtogi, bls. 28

*Forngríska orðið enþeos merkir að vera uppfullur af guðlegum anda.

Þjónn verður leiðtogi (þýð. Róbert Jack) er til sölu í bókaverslunum og í vefverslun Iðnú.

Filed Under: Þjónandi forysta, Þjónn verður leiðtogi, Ábyrgð, Ábyrgðarskylda, Íslensk þýðing, Hlustun

Ástríkur agi er þjónandi forysta

June 18, 2019 by Sigrún

Grunnstef þjónandi forystu eru tvö; að vera þjónn og að vera leiðtogi, í sama augnablikinu. Margir hafa bent á tengsl þjónandi forystu og góðra uppeldisaðferða og meðal þeirra sem hafa bent á þessi tengsl er Simon Sinek, sjá til dæmis hér.

Eitt af því sem tengist góðri forystu og árangursríku uppeldi er jafnvægislistinn í sambandi við mildan aga. Þessi árangursríki agi er oft kallaður ástríkur agi eða eins og enskumælandi myndi segja: tough love.

Skýr mörk og væntumþykja. Líklega kannast allir foreldrar og kennarar við glímuna um að draga skýr mörk um leið og börnum er sýnd væntumþykja. Þessi jafnvægislist tengist vellíðan barna og velgegni þeirra á ýmsum sviðum, m.a. að dragast ekki að áhættu margs konar.

Skýr ábyrgðarskylda og góður stuðningur. Í rannsóknum um árangursríka stjórnun og forystu kemur æ betur fram hversu mikilvægt þetta samspil væntumþykju og aga er. Til dæmis sýna rannsóknir æ betur að lykilþættir fyrir vellíðan starfsfólks og árangur í starfi er að línur séu skýrar varðandi markmið, ábyrgð hvers og eins og framtíðarsýn. Samhliða þessu er jafnframt mikilvægt að starfsfólk njóti trausts, fái tækifæri til að blómstra og njóti stuðnings stjórnenda og samstarfsfólks. Hér er aftur komið að kjarna þjónandi forystu sem er mæta mikilvægum þörfum starfsfólks um leið og markmiðum verkefnanna er náð með skýrri ábyrgðarskyldu hvers og eins; þjónusta og forysta.

Flétta saman mildi og festu. Þjónandi forysta felst í því að flétta saman mildi og festu í daglegu samtali og samstarfi og þannig skapast árangurinn. Með skýrri sýn og stefnu verður alveg ljóst hvert verkefnið er og einng verður ábyrgð hvers og eins skýr sem aftur skapar öryggi og traust. Sanmhliða þessu virkar mild nálgun og mildi í samskiptum sem stuðningur sem hefur hvetjandi áhrif og dregur fram vellíðan.

Mildin ein og sér skapar ekki árangur ekki frekar en festan ein og sér. Hins vegar skapar samspil mildi og festu árangur og ástríkur og agi skapar vellíðan. Þjónusta er nauðsynleg og forysta er nauðsynleg og saman myndast hið árangursríka jafnvægi eins og fram hefur komið í fjölda rannsókna, til dæmis hér.

Mynd: Simon Sinek

Filed Under: Accountability, Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Hlustun

Þjónandi forysta á öldrunarheimili og tengslin við líðan starfsfólks

June 5, 2019 by Sigrún

Nýlokið er rannsókn um þjónandi forystu á öldrunarheimilum Akureyrarbæjar þar sem kannað var vægi þjónandi forystu samkvæmt mati starfsfólks og kannað hvort um væri að ræða tengsl á milli þjónandi forystu og líðan starfsfólks.

Rannsóknina vann Anna Rut Ingavdóttir sem lokaverkefni til meistaraprófs í mannauðsstjórnun við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Rannsóknin var unnin í samstarfi við mannauðsskrifstofu Akureyrarbæjar og leiðbeinandi var Dr. Sigrún Gunnarsdóttir dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst.

Ein af lykilniðurstöðum rannsóknarinnar er um martæk tengsl þjónandi forystu og minni einkenna um kulnun, þ.e. því sterkari einkenni þjónandi forystu sem komu fram þeim mun minni líkur voru á kulnun meðal starfsmanna.

Í ágripi rannsóknar segir m.a.

Niðurstöður sýna að starfsfólk öldrunarheimila Akureyrarbæjar upplifir næsta yfirmann sinn sýna frekar mikla þjónandi forystu. Meirihluti þátttakenda (70%) telja sig almennt nokkuð eða mjög ánægða í starfi, um 40-60% þátttakenda upplifa sjálfræði í starfi og svör 72% þátttakenda eru þannig að þeir sýna engin eða lítil merki um kulnun í starfi.

Marktæk tengsl mældust milli þjónandi forystu og allra þátta sem skoðaðir voru til að meta vellíðan í starfi og er það í takt við niðurstöður fyrri rannsókna. Niðurstöður gefa vísbendingar um að styðja þurfi enn frekar við starfsánægju og sjálfræði í starfi og að leggja áherslu á forvarnir kulnunar.

Líklegt má telja að heillavænlegt væri að mannauðsstjórnun öldrunarheimila Akureyrarbæjar notaðist við hugmyndafræði þjónandi forystu til að styðja við vellíðan starfsfólks með áherslu á að efla þá þætti sem sýndu jákvæð tengsl við vellíðan í þessari rannsókn.

Hér vísun í ritgerð Önnu Rutar á Skemmu: https://skemman.is/handle/1946/32982

Áhugavert er í þessu sambandi að minna á aðra rannsókn sem einnig fjallar um þjónandi forystu á vettvangi sveitarfélaga, þ.e. meistararitgerð Magneu Steinunnar Ingimundardóttur um vægi þjónandi forystu samkvæmt mati starfsfólks sveitarfélaga. Í rannsókn Magneu segir m.a.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að þjónandi forysta er til staðar í stjórnsýslu sveitarfélaga og að starfsmenn njóta sjálfræðis í starfi að einhverju leyti. Rannsóknin sýndi jafnframt martækna fylgni á milli heildarmælingar þjónandi forystu og sjálfræðis í starfi, sem er í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að þjónandi forysta er hugmyndafræði og leiðtogaaðferð sem ástæða er fyrir stjórnsýslu sveitarfélaga að skoða nánar til að stuðla að aukinni framþróun og nýsköpun í stjórnsýslu sveitarfélaga og er ástæða til að rannsaka þetta efni nánar.

Sjá nánar um rannsókn Magneu hér.

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Öldrumarheimili, Hlustun Tagged With: Akureyri

Nýtt tækifæri til meistaranáms í þjónandi forystu við Háskólann á Bifröst

May 1, 2019 by Sigrún

Næsta haust skapast einstakt tækifæri til að leggja stund á meistaranám í þjónandi forystu. Meistaranám í þjónandi forystu er draumur sem varð til strax í upphafi starfs um þjónandi forystu hér á landi árið 2007. Fyrstu skrefin í þá átt voru stigin þegar námskeið um þjónandi forystu urðu hluti af meistaranámi fyrst við Háskólann á Akureyri árið 2012 og síðan við Háskólann á Bifröst árið 2013.

Nú þegar sex ár eru liðin frá því að kennsla í þjónandi forystu hófst við Háskólann á Bifröst verður skrefið stígið til fulls og boðið upp á sérstaka meistaranámslínu í forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu frá og með haustinu 2019.

Þjónandi forystu hefur verið vel tekið af nemendum og vakið áhuga margra til að halda áfram að kafa ofan í fræðin, ígrunda aðferðir og vinna að því að auka áherslur þjónandi forystu á vettvangi fyrirtækja, stofnana og félaga. Rannsóknir og reynsla fjölmargra fyrirtækja undirstrika árangur sem fylgir viðhorfum og aðferðum þjónandi forystu og sá árangur snýr ekki síst að vellíðan starfsmanna og snýr líka að árangri og ábata starfsins.

Í námslínunni, MS/MLM forysta og stjórnun, með áherslu á þjónandi forystu, er fjallað um hugmyndafræði og hagnýtingu þjónandi forystu á grunni fræðanna og með skírskotun til reynslu og raunverulegra dæma. Grunnhugmyndir Robert Greenleaf eru kynntar og einnig líkön sem seinni tíma fræðimenn hafa sett fram um þjónandi forystu og fjallað um nýjar rannsóknir um þjónandi forystu hérlendis og erlendis.

Nemendur fá tækifæri til að fá góða innsýn í þjónustuvídd og forystuvídd hugmyndafræðinnar miðað við rannsóknir og reynslu fyrirtækja, stofnana og félaga. Áhersla er á að nemendur þjálfi með sér gagnrýnið sjónarhorn, rýni í þjónandi forystu miðað við aðstæður sem þeir þekkja af eigin raun og hafi góðan skilning á árangursríkri innleiðingu þjónandi forystu.

Umsjónarkennari námslínunnar er Dr. Sigrún Gunnarsdóttir dósent við Viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst og formaður Þekkingarseturs um þjónandi forystu. Nánari upplýsingar um námið eru hér og upplýsingar um skólagjöld eru hér. Umsóknarfrestur er til 15. maí 2019, sjá hér.

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Bifröst, Hlustun, Meistaranám, Ný meistaranámslína

Ný námslína til meistaragráðu í þjónandi forystu haustið 2019

February 4, 2019 by Sigrún

Næsta haust verður stigið mikilvægt skref fyrir þjónandi forystu hér á landi með nýrri námslínu til meistaragráðu í þjónandi forystu við Háskólann á Bifröst. Um er að ræða námslínu innan námsbrautarinnar Forysta og stjórnun.

Síðan 2013 hefur þjónandi forysta verið kennd sem hluti af námi í viðskiptafræði á Bifröst, bæði á BS stigi og MS stigi. Námið hefur mælst vel fyrir og ákveðið að halda áfram að þróa kennsluna og bjóða nemendum að sérhæfa sig enn frekar á sviði þjónandi forystu. Eins og í öðrum námslínum innan Forystu og stjórnunar er hægt að ljúka náminu með ritgerð eða án ritgerðar.

Ný námskeið um þjónandi forystu

Hin nýja meistaralína felur í sér þrjú námskeið um þjónandi forystu og lýkur með meistaragráðu í Forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu. Námslínan er skipulögð sem sérhæfing innan meistaranáms í Forystu og stjórnun og námskeið á sviði forystu og stjórnunar eru hluti af hinni nýju námslínu

Nemendur sem skrá sig í námslínu til meistaragráðu í þjónandi forystu taka öll grunnnámskeið innan Forystu og stjórnunar auk þriggja námskeiða um þjónandi forystu. Hvert námskeið hefur sérstaka áherslu innan fræðanna um þjónandi forystu og fjallað um hagnýtingu á grunni þekkingar og nýrra rannsókna.

Hvað verður fjallað um í námskeiðunum um þjónandi forystu?

  • Í fyrsta námskeiðinu er fjallað um grunnatriði hugmyndafræðinnar með áherslu á rit Greenleaf og nýjar rannsóknir um þjónandi forystu erlendis og hér á landi. Rýnt er í hugmyndir Greenleaf og fjallað um rannsóknir sem varpa ljósi á árangur þjónandi forystu fyrir líðan starfsfólks og árangur skipulagsheilda.
  • Í námskeið númer tvö er sjónum beint sérstaklega að þjónustuhluta þjónandi forystu og rýnt í rannsóknir sem snúa að hlustun, áhuga á hagsmunum og hugmyndum annarra sem og sjálfsþekkingu og sjálfsstyrk þjónandi leiðtoga. Sérstaklega er fjallað um þætti þjónandi forystu sem tengjast vellíðan og starfsgetu. Þá verður fjallað um núvitund sem árangursríka leið til að styrkja leiðtogafærni og árangur í starfi.
  • Í þriðja námskeiðinu er fjallað um mikilvægar hliðar leiðtogahluta þjónandi forystu, þ.e. framsýni, tilgang, hugsjón og ábyrgðarskyldu. Sjónum er beint að nýjum hugmyndum um skipulag og þjónandi forystu. Ábyrgðarskylda í þjónandi forystu verður rædd sérstaklega og fjallað um leiðir til að efla ábyrðarskyldu með aðferðum þjónandi forystu. Þá verður fjallað um þjónandi forystu í stjórnsýslu hér á landi, bæði innan ráðuneyta og sveitarstjórna.

Kennsla í þjónandi forystu við Háskólann á Bifröst hefur undanfarin ár verið skipulögð og framkvæmd í samvinnu við Þekkingarsetur um þjónandi forystu og svo verður einnig um hina nýju námslínu. Þessi nýi áfangi er miklvægt framlag til þjónandi forystu hér á landi og felur í sér tækifæri til að þróa enn frekar þekkingu og hagnýtingu þjónandi forystu hér á landi.

Kynningarfundur

Kynning á hinni nýju námslínu verður þriðjudaginn 12. febrúar nk. að Suðurlandsbraut 22, 2. hæð, húsnæði Háskólans á Bifröst. Fundurinn hefst kl. 17:30 með stuttu kynningarerindi um þjónandi forystu og síðan tekur við kynning á nýju námslínunni. Sjá nánar um viðburðinn hér (facebook).

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Bifröst, Hlustun Tagged With: Bifröst

Þjónn verður leiðtogi – Íslensk þýðing á fyrsta riti Robert K Greenleaf: The Servant as Leader

April 6, 2018 by Sigrún

Langþráðum áfanga er nú náð þegar fyrsta rit Robert K. Greenleaf um þjónandi forystu ,,The Servant as Leader” hefur verið gefið út í íslenskri þýðingu.

Bókin er gefin út af Þekkingarsetri um þjónandi forystu í samvinnu við Iðnú og samkvæmt samningi við Greenleaf Center for Servant Leadership.

Róbert Jack þýddi ritið og Sigrún Gunnarsdóttir er ábyrgðarmaður íslensku útgáfunnar.

Bókin er nú til sölu í vefverslun Iðnú og von bráðar í bókaverslunum um land allt.

 

Filed Under: Accountability, Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Þjónn verður leiðtogi, Ábyrgð, Ábyrgðarskylda, Íslensk þýðing, þjónn verður leiðtogi, Bók, Fyrsta bók Greenleaf, Hlustun, Listening, Robert Greenleaf, Servant as leader

Viðhorf starfsfólks í velferðarþjónustu til starfsumhverfis, forystu og stjórnunar

October 30, 2017 by Sigrún

Eydís Ósk Sigurðardóttir hefur lokið rannsókn til MS gráðu við Háskólann á Bifröst og fjallar rannsóknin um viðhorf starfsfólks í velferðarþjónustu til starfsumhverfis, forystu og stjórnunar.

Í ritgerðinni segir að tilgangurinn með rannsókninni sé að kanna viðhorf starfsmanna til starfsumhverfis, forystu og stjórnunar á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og að kanna ánægju starfsfólks í starfi með það að leiðarljósi að auka árangur skipulagsheilda, bæta hag og líðan starfsmanna og auka starfsánægju. Til hliðsjónar þeim gögnum sem rannsóknin byggir á var rýnt í viðhorfskannanir og verkefni á mannsauðssviði ásamt fjarvistarskráningu.

Rannsóknin er mikilvægt framlag til þróunar þekkingar um þjónandi forystu og áhugavert að kanna viðhorf til þjónandi forystu meðal starfsfólks velferðarsviðs. Rannsóknin varpar ljósi á nýjar hliðar þjónandi forystu með bandarísku mælitæki (OLA) sem ekki hefur verið notað áður hér á landi.

Helstu niðurstöður gefa til kynna að í starfsumhverfi á Velferðarsviði er þjónandi forysta til staðar. Starfsánægja hafði jákvæða fylgni við þjónandi forystu og við alla undirþætti þjónandi forystu. Vægi þjónandi forystu var mest í hópi yfirmanna og að meðaltali var starfsánægja meiri hjá konum, hjá starfsmönnum með framhaldskólamenntun og hjá þeim sem störfuðu í minna en 20 klukkustundir á viku. Starfsánægja hefur jákvæð marktæk tengsl við þjónandi forystu og er það í takt við íslenskar og erlendar rannsóknir. Starfsumhverfið leggur áherslu á að meta samstarfsfólk og traust og virðing er til staðar.

Tækifæri eru í forystu, stjórnun og starfsumhverfinu á velferðarsviði Reykjavíkurborgar sem felast í því að skerpa á forystu og framtíðarsýn og frekari uppbyggingu á sviði mannauðsmála. Mikilvægt er að huga að vinnuálagi í starfsumhverfinu og þeim þáttum sem efla og hvetja starfsfólk. Efling er mikilvægur þáttur í þjónandi forystu og efling í starfi stuðlar að vexti og þroska í starfi sem getur bætt hag starfsmanna, gæði þjónustunnar og árangur skipulagsheildarinnar.

Ritgerðin er aðgengileg hér á pdf.

 

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Ábyrgðarskylda, Íslenskar rannsóknir, Hlustun, MSc rannsókn, OLA, Rannsóknir, Robert Greenleaf, Servant leader, Servant leadership, Starfsumhverfi, Valdar greinar

Þjónandi forysta í hnotskurn. Þriggja þátta líkan um þjónandi forystu

April 22, 2017 by Sigrún

Sigrún Gunnarsdóttir hefur sett fram þriggja þátta líka um þjónandi forystu sem byggir á hugmyndum Robert K. Greenleaf. Líkanið var fyrst birt í Tímaritinu Glíman árið 2011. Þættirnir þrír eru einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra, innri styrkur og framtíðarsýn. Líkan Sigrúnar er byggt á ýmsum ritum Greenleafs, en einkum The Servant as Leader (2008), The Institution as Servant (2009), The Leadership Crisis (1978), Life‘s Choices and Markers (1995a) og Reflections from Experience (1995b). Hér á eftir fer nánari lýsing á þremur þáttum líkansins:

1. Einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra. Einlægur áhugi á hugmyndum og högum annarra er grunnstef þjónandi forystu. Áhugi forystunnar beinist fyrst og fremst að velferð starfsfólks en ekki eigin valdi eða hagsmunum (Greenleaf 2008; 1978; 1995b). Góð hlustun er skýrasta merkið um einlægan áhuga og vilja til að kynnast hugmyndum annarra og efla hag þeirra. Greenleaf lýsir því svo í fyrsta riti sínu (2008) að fyrstu viðbrögð hjá sönnum þjóni sé að hlusta, hlusta á viðhorf, skoðanir og hugmyndir. Þetta er jafnframt eitt aðaleinkenni þjónandi leiðtoga og oft það mikilvægasta sem þjónandi leiðtogi þjálfar til að ná góðum árangri í störfum sínum. Slík þjálfun felur ekki síst í sér aga, þ.e. að þjálfa sig í að hlusta og meðtaka. Einbeitt hlustun eru fyrstu viðbrögð þjónandi leiðtoga þegar tekist er á við verkefnin (bls. 18).

Alúð og einbeitt hlustun leiðir ekki einungis til þess að leiðtoginn skilur betur hvað um er að vera og áttar sig á þörfum og hugmyndum samstarfsfólks, heldur endurspeglar slík nærvera virðingu fyrir þeim sem talað er við og skapar traust meðal samstarfsfólks. Ein allra besta leiðin til að sýna fólki virðingu og áhuga er að taka eftir því sem það segir og meðtaka hugmyndir þeirra og skoðanir. Að hlusta og meðtaka hugmyndir þarf ekki endilega að fela í sér að vera sammála viðkomandi. Aðalatriðið er að sýna fólki áhuga og virðingu með því að taka eftir og íhuga það sem talað er um og kynnt (Greenleaf 1978, 7–8).

Þjónandi leiðtogi er næmur og laginn við að taka eftir og greina þarfir annarra. Nærveran einkennist af öryggi og innri styrk. Einbeiting og athygli hvílir á vakandi vitund leiðtogans og innri ró. Af þessu leiðir að nærveran og hlustunin hefur margföld áhrif. Auk virðingarinnar sem leiðtoginn sýnir viðmælanda sínum er frelsi viðmælandans viðurkennt. Virðingin og tilfinning fyrir eigin frelsi eflir persónulegan styrk þeirra sem í hlut eiga. Greenleaf telur verkefni hins þjónandi leiðtoga ekki síst vera hið innra. Leiðtoginn þroskar og eflir eigin styrk sem endurspeglast í samskiptum og mótar samtal hans við samstarfsfólk. Innra líf leiðtogans og öryggi í eigin skinni sést í allri framkomu og smitast til samstarfsfólks (Greenleaf 2008, 44).

2. Sjálfsþekking, vitun og innri styrkur. Sjálfsþekking er einn af grunnþáttum þjónandi forystu. Hún snýst um vitund um eigin styrkleika og veikleika, markmið og hugsjónir og áhrif eigin orða og athafna (Greenleaf 1978). Verkefni leiðtogans er að efla innri styrkleika með þekkingarleit og ígrundun. Góður undirbúningur og ígrundun eru lykill að árangri þjónandi forystu. Til þess að geta sinnt verkefnum sínum er mikilvægt fyrir leiðtogann að draga sig í hlé og styrkja þannig möguleikana til ígrundunar. Forysta og ákvarðanir byggjast ekki aðeins á rökvísi og staðreyndum, heldur þarf leiðtoginn að efla eigin vitund og innsæi með ígrundun og sjálfsþekkingu (Greenleaf 2008, 28–30).

Greenleaf bendir á hversu langan tíma það tók fyrir hann sjálfan að þróa hugmyndirnar um þjónandi forystu. Þó að þekking og margskonar upplýsingar hafi leitt hann áfram á þeirri braut, var það ekki síður innsæi og vitund sem gerði honum kleift að sjá hugmyndina í samhengi og leyndardóminn um að leiðitoginn væri í raun þjónn (Greenleaf 2008, 14). Á svipaðan hátt þroskast og eflist hinn þjónandi leiðtogi. Hugmyndir annarra og stöðug þekkingarleit leiðtogans eru mikilvægur grunnur, en sjálfsvitund og ígrundun er jafnframt nauðsynleg. Með samspili allra þessara þátta getur þjónandi leiðtogi skilið og greint fortíð og nútíð og eflt færni sína til að sjá til framtíðar.

Þjónandi leiðtogi nær árangri með því að nota og flétta saman rökvísi og innsæi, skipulag og sköpun, sjálfstæði einstaklinga og samstöðu hópsins (Greenleaf 2008, 14). Á þessum nótum teflir Greenleaf fram ólíkum þáttum sem allir eru mikilvægar stoðir þjónandi forystu. Að sama skapi bendir hann á að um leið og ígrundun er forsenda árangurs er samtal leiðtogans við aðra jafnnauðsynlegt. Leiðtoginn skapar hugmyndir og hvetur aðra til hins sama. Hann kynnir hugmyndir sínar og hvetur aðra til að fylgja þeim. Hann tekur við gagnrýni og öðrum sjónarmiðum og er fær um og hefur styrk til að taka áhættuna sem fylgir nýjum hugmyndum (Greenleaf 2008, 17). Innri styrkur og vitund um eigin markmið og hugsjón eru lykill að árangri einstaklinga og fyrirtækja (Greenleaf 1978; 2008).

3. Hugsjón, framtíðarsýn og ábyrgð. Greenleaf álítur hugsjón, tilgang og markmið hafa sérstaka og djúpa merkingu í starfi fyrirtækja og stofnana. Hugsjón og hugmyndir sameina fólk, gefa starfi þess merkingu, glæða von og móta framtíðarsýn. Hugsjón og tilgangur er leiðarljós þjónandi leiðtoga. Leiðtoginn er þjónn sameiginlegra hugmynda starfsfólks og hann er líka þjónn hugsjónarinnar. Hlutverk leiðtogans er að hafa yfirsýn, skapa samtal um tilgang starfa og að sjá til framtíðar (Greenleaf 1978, 7–8; 2008, 25).

Hin sameiginlega hugsjón, tilgangur og markmið koma fram í daglegu samtali á vinnustaðnum. Í samtalinu slípast hugmyndir og samkomulag næst. Greenleaf bendir á að sameiginlegar hugmyndir eru ekki alltaf formlegar, ekki endilega skrifaðar niður á blað eða hengdar upp á vegg. Hugmyndir og samkomulag verða til í skapandi samtali sem þjónandi leiðtogi eflir og styður. Hann teflir saman ólíkum sjónarmiðum, glæðir gagnrýna hugsun og endurskoðun. Starfsfólkið er hvatt til að skoða og endurskoða og nota síðan sannfæringarkraft til að ná samkomulagi og skapa sameiginlegan draum (Greenleaf 1978, 6–8).

Skylda leiðtogans og alls starfsfólks í þjónandi forystu er að vera opinn fyrir tækifærum og möguleikum. Hlutverk hvers og eins er að sjá hvað viðkomandi getur gert til að láta hinn sameiginlega draum rætast. Slíkt hugarfar eflir starfsfólkið og glæðir tilfinningu þess fyrir gildi starfanna (Greenleaf 1978). Innsæi og næmi eykur líkurnar á því að hafa yfirsýn, koma auga á tækifærin og sjá samhengi hlutanna og sjá til framtíðar (Greenleaf 1978). Greenleaf bendir á að forskot leiðtogans felist ekki síst í því að hafa tilfinningu fyrir hinu ókomna, greina hvers má vænta, hafa forgöngu um hlutina og leiða fólk áfram. Hugsjónin er grundvöllurinn og hinn þjónandi leiðtogi nýtir eigið innsæi og yfirsýn til að skerpa framsýn og sannfærir samstarfsfólk um að fylkjast að settu marki.

Greenleaf lítur á það sem alvarlegan brest ef leiðtoginn er ekki fær um að sjá til framtíðar. Hlutverk hans er að hafa sterka tilfinningu fyrir því sem fram fer hverju sinni, hver staðan er í nútíð, og um leið að vera fær um að horfa fram á veginn, segja til um hvað sé líklegast að framtíðin beri í skauti sér. Að sjá til framtíðar er þýðingarmikið hlutverk leiðtogans. Að mati Greenleafs verður til siðferðileg brotalöm ef leiðtoginn er ekki fær um þetta tvennt, þ.e.a.s. að vera í senn tengdur við nútíð og framtíð og hafa þar með forskotið sem skapar forystuna (Greenleaf 2008, 26–27).

Byggt á:

Grein Sigrúnar Gunnarsdóttur (2011). Þjónandi forysta. Glíman (8), bls. 248 -251. 

Grein Sigrúnar Gunnarsdóttur og Birnu Gerðar Jónsdóttur 2013.

Þriggja þátta líkan um þjónandi forystu (e. servant leadership)

Likan-SigrunarG-Thjonandi-Forysta-Skv-Robert-Greenleaf

Filed Under: Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtog, Þjónandi leiðtogi, Þriggja þátta líkan, Þriggja þátta líkan Sigrúnar Gunnarsdóttur, einlægur áhugi, Foresight, Framsýni, Hlustun, Líkan

Hvernig lýsir Simon Sinek þjónandi forystu?

January 7, 2017 by Sigrún

Simon O. Sinek er breskur rithöfundur, fyrirlesari og ráðgjafi sem undanfarin ár hefur sett fram mjög áhugaverðar hugmyndir um samskipti, stjórnun og forystu sem um markt minna á hugmyndafræði þjónandi forystu eins og Robert Greenleaf lýsti í bókum sínum.

Simon Sinek hefur lýst hugmyndum sínum í nokkrum bókum og varð fyrst þekktur þegar hann gaf út bók sína Start With Why: How Great Leaders Inspire Everyone to Take Action árið 2009. TED fyrirlestur hans um bókina vakti gríðarlega athygli. Síðar hefur hann gefið bækurnar Leaders Eat Last: Why Some Teams Pull Together and Others Don’t (2014) og Together Is Better: A Little Book of Inspiration 2016.

Nýlega var Simon Sinek í viðtali við  Tom Bilyeu í þættinum Inside Quest þar sem Simon lýsti á mjög áhugaverðan hátt pælingum sínum um aldamótakynslóðina, samfélagsmiðla, samskipti og forystu. Viðtalið vakti mikla athygli og flaug hratt um vefmiðla og kjölfarið bauð Simon upp á samtal við sig á facebook 4. janúar 2017.

Við sendum Simon Sinek spurningu og báðum hann að ræða um viðhorf sín til þjónandi forystu. Svarið kom ekki á óvart enda endurspegla bækur Simon Sinek og fjölmargir fyrirlestrar hans mjög skarpa og áhugaverða sýn á gildi þjónandi foyrstu, –  þó Simon fari sparlega með að nota hugtakið :).

Svar Simon Sinek við spurningunni um þjónandi forystu 4. janúar 2017 er hér:

This manifesto from my second book Leaders Eat Last: Why Some Teams Pull Together and Others Don’t should make my views clear

Leaders are the ones who run headfirst into the unknown.
They rush toward the danger.

They put their own interests aside to protect us or to pull us into the future.

Leaders would sooner sacrifice what is theirs to save what is ours.
And they would never sacrifice what is ours to save what is theirs.

This is what it means to be a leader.

It means they choose to go first into danger, headfirst toward the unknown.

And when we feel sure they will keep us safe, we will march behind them and work tirelessly to see their visions come to life and proudly call ourselves their followers.

Inspire on.

Sjá hér: goo.gl/U1iZ56

simonsimon-leaders-eat

 

Hið fræga viðtal Simon Sinek við Tom Bilyeu í þættinum Inside Quest er hér:

Filed Under: Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Óflokkað, Hlustun, Leaders Eat Last, Listening, Servant leader, Servant leadership, Simon Sinek, Valdar greinar

  • 1
  • 2
  • 3
  • …
  • 6
  • Next Page »

Fylgstu með okkur

  • Facebook
  • Twitter
  • YouTube

Þjónandi forysta í hnotskurn

Í stuttu máli má lýsa þjónandi forystu sem samspili þriggja meginstoða sem allar eru innbyrðis tengdar og mynda eina heild:

1) Fyrsta stoðin er einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra sem birtist með einbeittri hlustun og aðgerðum sem efla aðra og aðstoða þá til að blómstra og að njóta sín.

2) Önnur stoðin er vitun og sjálfsþekking sem birtist í sjálfsöryggi, auðmýkt og hugrekki.

3) Þriðja stoðin er framsýni og skörp sýn á hugsjón sem birtist með sýn á tilgang og ábyrgðarskyldu.

Segja má að fyrstu tvær stoðirnar myndi þjónustuhluta þjónandi foyrstu og þriðja stoðin myndar forystuhlutann. Sjá nánari lýsingu hér.

Líkanið sem hér er lýst byggir á hugmyndum Robert K. Greenleaf sem upphafsmaður þjónandi forystu og birti fyrsta rit sitt um hugmyndina árið 1970 og segir þar m.a.: ,,Þjónandi leiðtogi er í fyrsta lagi þjónn. […] Það byrjar með eðlislægri tilfinningu um að vilja þjóna, að þjóna fyrst. Síðar leiðir meðvituð ákvörðun viðkomandi til forystu. Slíkur einstaklingur er ólíkur þeim sem er fyrst leiðtogi, líklega vegna takmarkaðrar löngunar til valda og efnislegra gæða. (Greenleaf, 1970/2008, 15). Sjá nánar hér.

Copyright © 2022 · News Pro Theme on Genesis Framework · WordPress · Log in

 

Loading Comments...