Þjónandi forysta

  • Þekkingarsetur, viðburðir
    • Ráðstefnur hér á landi frá 2008
      • Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015
      • Ráðstefna á Bifröst 31. október 2014 – Dagskrá
      • Samstaða og árangur – Ráðstefna 14. júní 2013
  • Pistlar
  • Rannsóknir, greinar & bækur
    • Þjónandi forysta í hnotskurn
    • Í atvinnulífinu
    • Líkan Dirk van Dierendonck um þjónandi forystu
    • Íslenskar rannsóknir
  • Fréttabréf
  • Hafa samband
  • English
You are here: Home / Archives for Von

Framtíðarsýn þjónandi leiðtoga

June 7, 2015 by Sigrún

Eitt af aðaleinkennum þjónandi leiðtoga er skörp sýn á hugsjón og framtíðina og Greenleaf (1970) bendir á að hæfileiki til að sjá fram á veginn skapi raunverulegt forskot leiðtogans til forystu. Framtíðarsýn er forystuhluti þjónandi forystu.

1) Gildismat og tilgangur. Framtíðarsýn þjónandi leiðtoga felur í sér gildismat sem byggir á innri löngun til að láta gott af sér leiða, að sjá fram á veginn og að leggja sitt af mörkum til að skapa bjarta framtíð fyrir einstaklinga, fyrirtæki, félög eða samfélag.

2) Framtíðarsýnin tengist eiginlægum áhuga á þörfum annarra og einbeittum áhuga á ná markmiðum starfsins og þar með tilgangi verkefnanna. Framtíðarsýn leiðtogans snýst einnig um ábyrgðina sem hann ber og má skoða í ljósi samfélagslegrar ábyrgðar.

3) Samfélagsleg ábyrgð. Gildi framtíðarsýnar í þjónandi forystu varpar þannig ljósi á siðferðilega og samfélagslega ábyrgð og undirstrikar að í þjónandi forystu eru lögð áhersla á langtímamarkmið ekki síður en skammatímamarkmið (Greenleaf, 1972).

4) Framtíðarsýn og tilfinning fyrir tilgangi skerpist með næmri vitund og góðu innsæi. Verkefni leiðtogans er að miðla framtíðarsýninni til samferðafólks og virkja það til skapandi hugsunar til að skerpa hina sameiginlegu sýn og hinn sameiginlega draum.

5) Sameiginlegur draumur og von. Greenleaf (1978) benti á að framtíðarsýn og sameiginlegur draumur sameini fólk og sé mikilvæg til að safna fólki saman um sameiginlega von.

6) Hlutverk leiðtogans er að glæða samtal um tilgang verkefnanna og að hvetja samstarfsfólk sitt til að skapa fleiri hugmyndir og fleiri drauma og gefa þannig öllum tækifæri til að verða leiðtogar framtíðarsýnar, hugsjóna og drauma. Þjónandi leiðtogi eflir gagnrýna og uppbyggilega umræðu, hvetur fólk til að skiptast á skoðunum, ræða ágreining og stilla saman strengi um sameiginlega sýn á verkefni, tilgang og framtíð.

7) Innri starfshvöt. Áherslur Greenleaf á framtíðarsýn (1970; 1978) tengjast kenningu Fredrick Herzberg um innri starfshvöt (1987) sem byggir á því að starfsfólk vaxi og dafni með því að njóta eigin hæfileika og að hafa vitund um tilgang starfa sinna. Innri starfshvöt er drifkraftur hins góða starfs og um leið árangurs.

8) Framtíðarsýn snýst um vitund um kjarna málsins, hugsjón og tilgang starfanna sem er uppspretta starfsgleði. Herzberg benti á að innri starfshvöt verður til vegna starfsins sjálfs og löngunar til að vaxa og þroskast, vera virt/ur, bera ábyrgð, hafa áhrif og ná árangri. Hér sést samhljómurinn við grunnstef þjónandi forystu um einlægan áhuga á þörfum og hagsmunum annarra (Greenleaf, 2008). Herzberg (1987) sýndi fram á að innri starfshvöt væri mikilvægasti þátturinn til að skapa starfsgleði og styrktist með þekkingu, frelsi, góðum samskiptum og stuðningi stjórnenda. Hér má aftur sjá tengslin við þjónandi forystu þar sem sjálfsþekking  og vitundum um tilgang starfsins og hugsjón eru lykilþættir.

Foresight – Vision – Values – Intrinsic motivation – Robert Greenleaf

Regnbogi-2

 

Filed Under: Þjónandi leiðtogi, Foresight, Framtíðarsýn, Hugsjón, innri starfshvöt, Intrinsic motivation, Listening, Oversight, Responsibility, Robert Greenleaf, Sameiginlegur draumur, Servant leader, Servant leadership, Tilgangur, Valdar greinar, Vision, Vitund, Von, Yfirsýn Tagged With: þjónandi forysta, Forystuhluti þjónandi forystu, Framtíðarsýn, Gildismat, Greenleaf, Hugsjón, Innri starfshvöt, Sameiginlegur draumur, Servant leadereship

Þriggja þátta líkan um þjónandi forystu (servant leadership) byggt á hugmyndum Robert K. Greenleaf

January 12, 2015 by Sigrún

Sigrún Gunnarsdóttir hefur sett fram þriggja þátta líka um þjónandi forystu sem byggir á hugmyndum Robert K. Greenleaf. Líkanið var fyrst birt í Tímaritinu Glíman árið 2011. Þættirnir þrír eru einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra, innri styrkur og framtíðarsýn. Líkan Sigrúnar er byggt á ýmsum ritum Greenleafs, en einkum The Servant as Leader (2008), The Institution as Servant (2009), The Leadership Crisis (1978), Life‘s Choices and Markers (1995a) og Reflections from Experience (1995b). Hér á eftir fer nánari lýsing á þremur þáttum líkansins:

1. Einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra. Einlægur áhugi á hugmyndum og högum annarra er grunnstef þjónandi forystu. Áhugi forystunnar beinist fyrst og fremst að velferð starfsfólks en ekki eigin valdi eða hagsmunum (Greenleaf 2008; 1978; 1995b). Góð hlustun er skýrasta merkið um einlægan áhuga og vilja til að kynnast hugmyndum annarra og efla hag þeirra. Greenleaf lýsir því svo í fyrsta riti sínu (2008) að fyrstu viðbrögð hjá sönnum þjóni sé að hlusta, hlusta á viðhorf, skoðanir og hugmyndir. Þetta er jafnframt eitt aðaleinkenni þjónandi leiðtoga og oft það mikilvægasta sem þjónandi leiðtogi þjálfar til að ná góðum árangri í störfum sínum. Slík þjálfun felur ekki síst í sér aga, þ.e. að þjálfa sig í að hlusta og meðtaka. Einbeitt hlustun eru fyrstu viðbrögð þjónandi leiðtoga þegar tekist er á við verkefnin (bls. 18).

Alúð og einbeitt hlustun leiðir ekki einungis til þess að leiðtoginn skilur betur hvað um er að vera og áttar sig á þörfum og hugmyndum samstarfsfólks, heldur endurspeglar slík nærvera virðingu fyrir þeim sem talað er við og skapar traust meðal samstarfsfólks. Ein allra besta leiðin til að sýna fólki virðingu og áhuga er að taka eftir því sem það segir og meðtaka hugmyndir þeirra og skoðanir. Að hlusta og meðtaka hugmyndir þarf ekki endilega að fela í sér að vera sammála viðkomandi. Aðalatriðið er að sýna fólki áhuga og virðingu með því að taka eftir og íhuga það sem talað er um og kynnt (Greenleaf 1978, 7–8).

Þjónandi leiðtogi er næmur og laginn við að taka eftir og greina þarfir annarra. Nærveran einkennist af öryggi og innri styrk. Einbeiting og athygli hvílir á vakandi vitund leiðtogans og innri ró. Af þessu leiðir að nærveran og hlustunin hefur margföld áhrif. Auk virðingarinnar sem leiðtoginn sýnir viðmælanda sínum er frelsi viðmælandans viðurkennt. Virðingin og tilfinning fyrir eigin frelsi eflir persónulegan styrk þeirra sem í hlut eiga. Greenleaf telur verkefni hins þjónandi leiðtoga ekki síst vera hið innra. Leiðtoginn þroskar og eflir eigin styrk sem endurspeglast í samskiptum og mótar samtal hans við samstarfsfólk. Innra líf leiðtogans og öryggi í eigin skinni sést í allri framkomu og smitast til samstarfsfólks (Greenleaf 2008, 44).

2. Sjálfsþekking, vitun og innri styrkur. Sjálfsþekking er einn af grunnþáttum þjónandi forystu. Hún snýst um vitund um eigin styrkleika og veikleika, markmið og hugsjónir og áhrif eigin orða og athafna (Greenleaf 1978). Verkefni leiðtogans er að efla innri styrkleika með þekkingarleit og ígrundun. Góður undirbúningur og ígrundun eru lykill að árangri þjónandi forystu. Til þess að geta sinnt verkefnum sínum er mikilvægt fyrir leiðtogann að draga sig í hlé og styrkja þannig möguleikana til ígrundunar. Forysta og ákvarðanir byggjast ekki aðeins á rökvísi og staðreyndum, heldur þarf leiðtoginn að efla eigin vitund og innsæi með ígrundun og sjálfsþekkingu (Greenleaf 2008, 28–30).

Greenleaf bendir á hversu langan tíma það tók fyrir hann sjálfan að þróa hugmyndirnar um þjónandi forystu. Þó að þekking og margskonar upplýsingar hafi leitt hann áfram á þeirri braut, var það ekki síður innsæi og vitund sem gerði honum kleift að sjá hugmyndina í samhengi og leyndardóminn um að leiðitoginn væri í raun þjónn (Greenleaf 2008, 14). Á svipaðan hátt þroskast og eflist hinn þjónandi leiðtogi. Hugmyndir annarra og stöðug þekkingarleit leiðtogans eru mikilvægur grunnur, en sjálfsvitund og ígrundun er jafnframt nauðsynleg. Með samspili allra þessara þátta getur þjónandi leiðtogi skilið og greint fortíð og nútíð og eflt færni sína til að sjá til framtíðar.

Þjónandi leiðtogi nær árangri með því að nota og flétta saman rökvísi og innsæi, skipulag og sköpun, sjálfstæði einstaklinga og samstöðu hópsins (Greenleaf 2008, 14). Á þessum nótum teflir Greenleaf fram ólíkum þáttum sem allir eru mikilvægar stoðir þjónandi forystu. Að sama skapi bendir hann á að um leið og ígrundun er forsenda árangurs er samtal leiðtogans við aðra jafnnauðsynlegt. Leiðtoginn skapar hugmyndir og hvetur aðra til hins sama. Hann kynnir hugmyndir sínar og hvetur aðra til að fylgja þeim. Hann tekur við gagnrýni og öðrum sjónarmiðum og er fær um og hefur styrk til að taka áhættuna sem fylgir nýjum hugmyndum (Greenleaf 2008, 17). Innri styrkur og vitund um eigin markmið og hugsjón eru lykill að árangri einstaklinga og fyrirtækja (Greenleaf 1978; 2008).

3. Hugsjón, framtíðarsýn og ábyrgð. Greenleaf álítur hugsjón, tilgang og markmið hafa sérstaka og djúpa merkingu í starfi fyrirtækja og stofnana. Hugsjón og hugmyndir sameina fólk, gefa starfi þess merkingu, glæða von og móta framtíðarsýn. Hugsjón og tilgangur er leiðarljós þjónandi leiðtoga. Leiðtoginn er þjónn sameiginlegra hugmynda starfsfólks og hann er líka þjónn hugsjónarinnar. Hlutverk leiðtogans er að hafa yfirsýn, skapa samtal um tilgang starfa og að sjá til framtíðar (Greenleaf 1978, 7–8; 2008, 25).

Hin sameiginlega hugsjón, tilgangur og markmið koma fram í daglegu samtali á vinnustaðnum. Í samtalinu slípast hugmyndir og samkomulag næst. Greenleaf bendir á að sameiginlegar hugmyndir eru ekki alltaf formlegar, ekki endilega skrifaðar niður á blað eða hengdar upp á vegg. Hugmyndir og samkomulag verða til í skapandi samtali sem þjónandi leiðtogi eflir og styður. Hann teflir saman ólíkum sjónarmiðum, glæðir gagnrýna hugsun og endurskoðun. Starfsfólkið er hvatt til að skoða og endurskoða og nota síðan sannfæringarkraft til að ná samkomulagi og skapa sameiginlegan draum (Greenleaf 1978, 6–8).

Skylda leiðtogans og alls starfsfólks í þjónandi forystu er að vera opinn fyrir tækifærum og möguleikum. Hlutverk hvers og eins er að sjá hvað viðkomandi getur gert til að láta hinn sameiginlega draum rætast. Slíkt hugarfar eflir starfsfólkið og glæðir tilfinningu þess fyrir gildi starfanna (Greenleaf 1978). Innsæi og næmi eykur líkurnar á því að hafa yfirsýn, koma auga á tækifærin og sjá samhengi hlutanna og sjá til framtíðar (Greenleaf 1978). Greenleaf bendir á að forskot leiðtogans felist ekki síst í því að hafa tilfinningu fyrir hinu ókomna, greina hvers má vænta, hafa forgöngu um hlutina og leiða fólk áfram. Hugsjónin er grundvöllurinn og hinn þjónandi leiðtogi nýtir eigið innsæi og yfirsýn til að skerpa framsýn og sannfærir samstarfsfólk um að fylkjast að settu marki.

Greenleaf lítur á það sem alvarlegan brest ef leiðtoginn er ekki fær um að sjá til framtíðar. Hlutverk hans er að hafa sterka tilfinningu fyrir því sem fram fer hverju sinni, hver staðan er í nútíð, og um leið að vera fær um að horfa fram á veginn, segja til um hvað sé líklegast að framtíðin beri í skauti sér. Að sjá til framtíðar er þýðingarmikið hlutverk leiðtogans. Að mati Greenleafs verður til siðferðileg brotalöm ef leiðtoginn er ekki fær um þetta tvennt, þ.e.a.s. að vera í senn tengdur við nútíð og framtíð og hafa þar með forskotið sem skapar forystuna (Greenleaf 2008, 26–27).

Byggt á grein Sigrúnar Gunnarsdóttur (2011). Þjónandi forysta. Gliman (8), bls. 248 -251. Greinin er hér á pdf. og Sigrúnar Gunnarsdóttur og Birnu Gerðar Jónsdóttur 2013.

Þriggja þátta líkan um þjónandi forystu (e. servant leadership)

Likan-SigrunarG-Thjonandi-Forysta-Skv-Robert-Greenleaf

Filed Under: Accountability, Auðmýkt, Þjónandi forysta, Þjónandi leiðtogi, Ábyrgð, Ábyrgðarskylda, einlægur áhugi, Foresight, Framtíðarsýn, Hugmyndafræðin, Hugsjón, Humility, innri starfshvöt, Intrinsic motivation, jafningi, Listening, Oversight, Robert Greenleaf, Sameiginlegur draumur, Samfélagsleg ábyrgð, samtal, sannfæringarkraftur, Servant leader, Servant leadership, sjálfsþekking, The Servant as Leader, Tilgangur, Traust, Valdar greinar, Vision, Vitund, Von, Yfirsýn Tagged With: Framsýni

Fylgstu með okkur

  • Facebook
  • Twitter
  • YouTube

Þjónandi forysta í hnotskurn

Í stuttu máli má lýsa þjónandi forystu sem samspili þriggja meginstoða sem allar eru innbyrðis tengdar og mynda eina heild:

1) Fyrsta stoðin er einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra sem birtist með einbeittri hlustun og aðgerðum sem efla aðra og aðstoða þá til að blómstra og að njóta sín.

2) Önnur stoðin er vitun og sjálfsþekking sem birtist í sjálfsöryggi, auðmýkt og hugrekki.

3) Þriðja stoðin er framsýni og skörp sýn á hugsjón sem birtist með sýn á tilgang og ábyrgðarskyldu.

Segja má að fyrstu tvær stoðirnar myndi þjónustuhluta þjónandi foyrstu og þriðja stoðin myndar forystuhlutann. Sjá nánari lýsingu hér.

Líkanið sem hér er lýst byggir á hugmyndum Robert K. Greenleaf sem upphafsmaður þjónandi forystu og birti fyrsta rit sitt um hugmyndina árið 1970 og segir þar m.a.: ,,Þjónandi leiðtogi er í fyrsta lagi þjónn. […] Það byrjar með eðlislægri tilfinningu um að vilja þjóna, að þjóna fyrst. Síðar leiðir meðvituð ákvörðun viðkomandi til forystu. Slíkur einstaklingur er ólíkur þeim sem er fyrst leiðtogi, líklega vegna takmarkaðrar löngunar til valda og efnislegra gæða. (Greenleaf, 1970/2008, 15). Sjá nánar hér.

Copyright © 2023 · News Pro Theme on Genesis Framework · WordPress · Log in

 

Loading Comments...