Fjölbreytileiki, inngilding og þjónandi forysta

Sannur áhugi á öðrum er leiðarstef þjónandi forystu og snýst um að laða fram hugmyndir, krafta og virkni hvers og eins til að vinna að sameiginlegum tilgangi og markmiðum. Hlutverk leiðtogans er að gefa öllum tækifæri til þátttöku og í raun tækifæri til forystu eftir því sem þekking, reynsla og aðstæður gefa tilefni til.

Talað er um að þjónandi forystu sé starfsandinn á hverjum stað, menningin sem mótar samskipti, skipulag og verkefni og hvílir á sameiginlegum gildum og sameiginlegri sýn. Fjöldi rannsókna sýnir að nálgun þjónandi forystu hefur góð áhrif á vellíðan, skapandi áherslur og árangur þar sem hugmyndir og kraftar sem flestra eru virkjaðir.

Fjölbreytileiki og fjölmenning

Mikilvægi fjölbreytileika og fjölmenningar er æ meira áberandi í daglegri umræðu um atvinnulífið. Það er gömul saga og ný að fjölbreytni í starfsmannahópi skapar auknar líkur á góðri frammistöðu, skapandi lausnum og auknum afköstum hópsins og getur jafnvel skapað þeim verðmætt samkeppnisforskot.

Þegar rætt er um fjölbreytileika er annars vegar átt við fjölbreytileika í sambandi við ytri og lýðfræðileg þætti svo sem aldur og kyn og hins vegar innri undirliggjandi þætti til dæmis gildismat og viðhorf.

Starfsmannahópar sem einkennast af fjölbreyttum undirliggjandi þáttum eru líklegri til þess að bæta frammistöðu og samkeppnisforskot fyrirtækis með því að miðla ólíkri reynslu, koma með ólík sjónarhorn og auðga teymið með fjölbreyttu tengslaneti og uppsprettu upplýsinga til að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Inngilding og þjónandi forysta

Fjölbreytileiki á vinnustað kallar á stjórnun og forystu sem laðar fram og styður fjölbreyttan hóps starfsmanna og virkjar sem flesta með inngildingu (e. inclusion). Mikilvægt er að í daglegri umræðu um fjölbreytileika á vinnustað gleymist ekki að taka mið af lykilþætti fjölbreytileikans sem er inngilding allra meðlima starfsmannahópsins. Hér er átt við að hver og einn upplifi sig sem viðurkenndan á eigin verðugleikum og sem samþykktan þátttakanda í hópnum

Í inngildum (e. inclusive) hópum ríkir traust milli einstaklinga, vilji er til að skilja og virða sjónarhorn hvers annars, hver og einn einstaklingur getur haft einstaka rödd og nýtt eigin styrkleika í starfi.

Leiðtogi hópsins þarf að hafa hæfni til að ná saman og skapa sameiginlega sýn og hafa getu til að miðla sýninni til allra einstaklinga innan hópsins. Þessi nálgun er í raun nálgun þjónandi forystu þar sem að megineinkenni hugmyndafræðinnar er áhugi og traust, sjálfsþekking og auðmýkt, sameiginleg sýn og skýr markmið.

Höf. Þorkell Óskar Vignisson og Sigrún Gunnarsdóttir