Vanlíðan í starfi er vaxandi vandi á vinnustöðum og mikilvægt er að leiðtogar og starfsmenn séu meðvitaðir um og beini sjónum að heilbrigðu starfsumhverfi og viðurkenndum áhrifaþáttum á vinnustað sem geta eflt vellíðan og dregið úr líkum á kulnun í starfi.
Þekking okkar um heilbrigt starfsumhverfi byggist á rannsóknum ýmissa frumkvöðla sem vörpuðu ljósi á sálfélagslega áhrifaþætti á vinnustað og tengsl þeirra við starfsánægju, vellíðan og forvarnir gegn kulnun í starfi. Rannsóknir þessar ná aftur um fjörtíu ár þegar Christina Maslach birti fyrstu rannsóknir sínar um áhrifaþætti kulnunar í starfi og á svipuðum tíma birtu Karasek og Theorell tímamótarannsóknir sínar um samband álags, áhrifa og stuðnings við líðan fólks í starfi.
Nýr bókarkafli varpar ljósi á stöðu þekkingar og rannsóknir síðustu ára um áhrifaþætti á vinnustað sem tengjast kulnun í starfi, árangursríkum forvörnum og heilsueflandi þjónandi forystu. Kaflinn lýsir niðurstöðum fræðilegs yfirlits um áhrifaþætti kulnunar í starfi sem snúa einkum að langvarandi álagi og vandamálum í starfi, takmörkuðum áhrifum á eigin störf og takmörkuðum félagslegum stuðningi starfsfólks og stjórnenda.
Rannsóknir sýna að sjálfræði getur verndað starfsmann fyrir neikvæðum áhrifum álags og sama á við um félagslegan stuðning. Þá sýna rannsóknir að aðgangur að bjargráðum sem fylgja ábyrgðarskyldu og áhrif á eigið starf geta unnið gegn vanlíðan fólks í starfi. Sýn á tilgang starfa og innri starfshvatar efla starfsánægju og sama gildir um umbun sem er í takt við framlag.
Skýr ábyrgðarskylda, áhrif á eigið starf og mótun eigin starfs (e. job crafting) geta minnkað áhrif álags á kulnun í starfi, jafnvel þegar álag er mikið. Þá getur sveigjanleiki í starfi, t.d. í sambandi við tímasetningu og staðsetningu verkefna, dregið úr áhrifum álags á kulnunareinkenni.
Gagnkvæmur félagslegur stuðningur á vinnustað getur dregið úr líkum á kulnun í starfi og felst meðal annars í uppbyggilegum starfsanda, virðingu, kurteisi, sameiginlegum gildum og styðjandi samskiptum. Félagslegur stuðningur í starfi getur virkað sem forvörn kulnunar í starfi, jafnvel þegar áhrif á eigin störf eru lítil.
Hér fyrir neðan er mynd af líkani sem byggir á stöðu þekkingar og lýsir samspili stuðnings í starfi og ábyrgðarskyldu sem myndar ramma starfsins. Innan ramma starfsins er starfsmanni falið frelsi til að hafa áhrif á eigið starf, móta eigið starf (e. job crafting) og skapa nýjar hugmyndir.
Heildræn nálgun forystu sem beinist að viðurkenndum áhrifaþáttum á vinnstað er mikilvæg til að tryggja árangursríkar forvarnir kulnunar í starfi og brýnt að viðbrögð og meðferð við kulnun í starfi snúi markvisst að þessum áhrifaþáttum. Mikilvægt er að stjórnendur og leiðtogar séu meðvitaðir um og beini sjónum að viðurkenndum áhrifaþáttum kulnunar í starfi og efli jafnframt virka þátttöku og samvinnu starfsfólks og annarra hlutaðeigandi til forvarna gegn kulnun í starfi.
Heilsueflandi þjónandi forysta beinist að því að efla þætti á vinnustað sem geta verndað starfsmenn gegn því að fá einkenni kulnunar í starfi og lýst er hér að ofan. Hér fyrir neðan er mynd af líkani sem lýsir heilsueflandi þjónandi forystu með heildrænni nálgun sem eflir heilbrigt starfsumhverfi og vellíðan með áherslu á 1) sjálfræði og gagnkvæman stuðning, 2) persónulegan styrk og innri starfshvöt og 3) sameiginlegan tilgang og skýra ábyrgðarskyldu.
Heimild: Sigrún Gunnarsdóttir (2021). Heilsueflandi forysta, heilbrigt starfsumhverfi og vellíðan í starfi. Staða þekkingar. Rannsóknir í viðskiptafræði II. Ritstjórar: Gylfi Dalmann, Runólfur Smári Steinþórsson og Þórhallur Örn Guðlaugsson. Háskólaútgáfan. Bls. 167- 184.