Þjónandi forysta

  • Þekkingarsetur, viðburðir
    • Ráðstefnur hér á landi frá 2008
      • Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015
      • Ráðstefna á Bifröst 31. október 2014 – Dagskrá
      • Samstaða og árangur – Ráðstefna 14. júní 2013
  • Pistlar
  • Rannsóknir, greinar & bækur
    • Þjónandi forysta í hnotskurn
    • Í atvinnulífinu
    • Líkan Dirk van Dierendonck um þjónandi forystu
    • Íslenskar rannsóknir
  • Fréttabréf
  • Hafa samband
  • English
You are here: Home / Accountability / Forvarnir kulnunar í starfi og heilsueflandi þjónandi forysta

Forvarnir kulnunar í starfi og heilsueflandi þjónandi forysta

September 21, 2022 by Sigrún

Vanlíðan í starfi er vaxandi vandi á vinnustöðum og mikilvægt er að leiðtogar og starfsmenn séu meðvitaðir um og beini sjónum að heilbrigðu starfsumhverfi og viðurkenndum áhrifaþáttum á vinnustað sem geta eflt vellíðan og dregið úr líkum á kulnun í starfi.

Þekking okkar um heilbrigt starfsumhverfi byggist á rannsóknum ýmissa frumkvöðla sem vörpuðu ljósi á sálfélagslega áhrifaþætti á vinnustað og tengsl þeirra við starfsánægju, vellíðan og forvarnir gegn kulnun í starfi. Rannsóknir þessar ná aftur um fjörtíu ár þegar Christina Maslach birti fyrstu rannsóknir sínar um áhrifaþætti kulnunar í starfi og á svipuðum tíma birtu Karasek og Theorell tímamótarannsóknir sínar um samband álags, áhrifa og stuðnings við líðan fólks í starfi.

Nýr bókarkafli varpar ljósi á stöðu þekkingar og rannsóknir síðustu ára um áhrifaþætti á vinnustað sem tengjast kulnun í starfi, árangursríkum forvörnum og heilsueflandi þjónandi forystu. Kaflinn lýsir niðurstöðum fræðilegs yfirlits um áhrifaþætti kulnunar í starfi sem snúa einkum að langvarandi álagi og vandamálum í starfi, takmörkuðum áhrifum á eigin störf og takmörkuðum félagslegum stuðningi starfsfólks og stjórnenda.

Rannsóknir sýna að sjálfræði getur verndað starfsmann fyrir neikvæðum áhrifum álags og sama á við um félagslegan stuðning. Þá sýna rannsóknir að aðgangur að bjargráðum sem fylgja ábyrgðarskyldu og áhrif á eigið starf geta unnið gegn vanlíðan fólks í starfi. Sýn á tilgang starfa og innri starfshvatar efla starfsánægju og sama gildir um umbun sem er í takt við framlag.

Skýr ábyrgðarskylda, áhrif á eigið starf og mótun eigin starfs (e. job crafting) geta minnkað áhrif álags á kulnun í starfi, jafnvel þegar álag er mikið. Þá getur sveigjanleiki í starfi, t.d. í sambandi við tímasetningu og staðsetningu verkefna, dregið úr áhrifum álags á kulnunareinkenni.

Gagnkvæmur félagslegur stuðningur á vinnustað getur dregið úr líkum á kulnun í starfi og felst meðal annars í uppbyggilegum starfsanda, virðingu, kurteisi, sameiginlegum gildum og styðjandi samskiptum. Félagslegur stuðningur í starfi getur virkað sem forvörn kulnunar í starfi, jafnvel þegar áhrif á eigin störf eru lítil.

Hér fyrir neðan er mynd af líkani sem byggir á stöðu þekkingar og lýsir samspili stuðnings í starfi og ábyrgðarskyldu sem myndar ramma starfsins. Innan ramma starfsins er starfsmanni falið frelsi til að hafa áhrif á eigið starf, móta eigið starf (e. job crafting) og skapa nýjar hugmyndir.

Heildræn nálgun forystu sem beinist að viðurkenndum áhrifaþáttum á vinnstað er mikilvæg til að tryggja árangursríkar forvarnir kulnunar í starfi og brýnt að viðbrögð og meðferð við kulnun í starfi snúi markvisst að þessum áhrifaþáttum. Mikilvægt er að stjórnendur og leiðtogar séu meðvitaðir um og beini sjónum að viðurkenndum áhrifaþáttum kulnunar í starfi og efli jafnframt virka þátttöku og samvinnu starfsfólks og annarra hlutaðeigandi til forvarna gegn kulnun í starfi.

Heilsueflandi þjónandi forysta beinist að því að efla þætti á vinnustað sem geta verndað starfsmenn gegn því að fá einkenni kulnunar í starfi og lýst er hér að ofan. Hér fyrir neðan er mynd af líkani sem lýsir heilsueflandi þjónandi forystu með heildrænni nálgun sem eflir heilbrigt starfsumhverfi og vellíðan með áherslu á 1) sjálfræði og gagnkvæman stuðning, 2) persónulegan styrk og innri starfshvöt og 3) sameiginlegan tilgang og skýra ábyrgðarskyldu.

Heimild: Sigrún Gunnarsdóttir (2021). Heilsueflandi forysta, heilbrigt starfsumhverfi og vellíðan í starfi. Staða þekkingar. Rannsóknir í viðskiptafræði II. Ritstjórar: Gylfi Dalmann, Runólfur Smári Steinþórsson og Þórhallur Örn Guðlaugsson. Háskólaútgáfan. Bls. 167- 184.

Share this:

  • Facebook
  • Twitter
  • Email
  • More
  • Print
  • LinkedIn
  • Pinterest
  • Tumblr
  • Reddit
  • Pocket

Related

Filed Under: Accountability, Hlustun

Fylgstu með okkur

  • Facebook
  • Twitter
  • YouTube

Þjónandi forysta í hnotskurn

Í stuttu máli má lýsa þjónandi forystu sem samspili þriggja meginstoða sem allar eru innbyrðis tengdar og mynda eina heild:

1) Fyrsta stoðin er einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra sem birtist með einbeittri hlustun og aðgerðum sem efla aðra og aðstoða þá til að blómstra og að njóta sín.

2) Önnur stoðin er vitun og sjálfsþekking sem birtist í sjálfsöryggi, auðmýkt og hugrekki.

3) Þriðja stoðin er framsýni og skörp sýn á hugsjón sem birtist með sýn á tilgang og ábyrgðarskyldu.

Segja má að fyrstu tvær stoðirnar myndi þjónustuhluta þjónandi foyrstu og þriðja stoðin myndar forystuhlutann. Sjá nánari lýsingu hér.

Líkanið sem hér er lýst byggir á hugmyndum Robert K. Greenleaf sem upphafsmaður þjónandi forystu og birti fyrsta rit sitt um hugmyndina árið 1970 og segir þar m.a.: ,,Þjónandi leiðtogi er í fyrsta lagi þjónn. […] Það byrjar með eðlislægri tilfinningu um að vilja þjóna, að þjóna fyrst. Síðar leiðir meðvituð ákvörðun viðkomandi til forystu. Slíkur einstaklingur er ólíkur þeim sem er fyrst leiðtogi, líklega vegna takmarkaðrar löngunar til valda og efnislegra gæða. (Greenleaf, 1970/2008, 15). Sjá nánar hér.

Copyright © 2023 · News Pro Theme on Genesis Framework · WordPress · Log in

 

Loading Comments...