Þjónandi forysta: Að styðja aðra til að blómstra og að ná árangri.

Þjónandi forysta snýst um valdeflingu og birtist í því að við:

1) höfum einlægan áhuga á öðrum

2) leggjum okkur fram við að læra og efla sjálfsþekkingu og sjálfsöryggi og

3) höfum skýra sýn á tilgang og stefnuna framundan.

Árangurinn er metinn í ljósi þess hversu vel tekst að styðja aðra til að blómstra, verða sjálfstæðir, frjálsir og að ná árangri. Lykilhugtakið er vöxtur sem verður til í samspili þjónustu og forystu og mikilvægasta aðferð þjónandi forystu er að mæta mikilvægum þörfum með einbeittri hlustun sem skapar traust, tilfinningu fyrir frelsi og vellíðan. Hlustun felur í sér valdeflingu.

Þrjár víddir valdeflingar

Valdefling er samofin mörgum þáttum í starfi og birtist með því að viðkomandi upplifir sig hafa rödd og áhrif á eigin aðstæður. Líta má á þrjá víddir valdeflingar í þessu sambandi, þ.e. valdefling sem tengist:

1) persónulegum þáttum

2) skipulagi og umhverfi og

3) aðstæðum í samfélaginu.

Mikilvægasta aðferðin til valdeflingar er stuðningur, aðgangur að upplýsingum, uppbyggileg samskipti og viðurkenning á frelsi og hæfileikum viðkomandi. Valdefling og tilfinning fyrir að hafa rödd tengist þrautseigju, vellíðan, lífsgæðum og góðri heilsu. Valdefling felst í trú á eigin getu, færni í lausnaleit, þjálfun í að nota eigin rödd og færni til að nýta tækifæri til að læra og vaxa.

Mildi og festa

Auðmýkt er mikilvægt verkfæri til að skapa valdeflingu og leiðtogi nýtir auðmýkt til að beina athygli að öðrum og tækifærum þeirra til að vaxa og blómstra. Þjónandi leiðtogar eru þekktir fyrir að vera mildir á manninn en um leið að gefa engan afslátt af ábyrgðarskyldu hvers og eins. Þjónandi leiðtogar flétta saman þjónustu og forystu, umhyggju og aga, stefnufestu og sveigjanleika. Grundvallaratriðið er að efla samstarfsfólkið og hvetja til góðra verka þar sem leiðtoginn er fremstur meðal jafningja. Rannsóknir sýna að með þjónandi forystu eru minni líkur á einkennum kulnunar og meiri líkur á starfsánægju og tengslin eru sterkust við valdeflingu í gegnum áherslur og aðferðir næsta yfirmanns.

Hlutverk næsta yfirmanns og ábyrgð starfsmanna

Valdefling er samspil persónulegra þátta og þátta í starfsumhverfinu. Ábyrgð hvers og eins starfsmanns er að nýta tækifæri til að hafa áhrif á eigin aðstæður. Hlutverk samstarfsfólks og einkum næsta yfirmanns er að veita starfsfólki stuðning í þessum efnum. Þjónandi forysta byggir á gagnkvæmum stuðningi og sameiginlegri ábyrgðarskyldu þar sem hver og einn hefur tækifæri til að taka af skarið, að veita forystu. Áherslur þjónandi forystu tengjast vellíðan starfsmanna og fela í sér valdeflingu til hagsbóta fyrir skjólstæðinga og starfsmenn sjálfa. Reynslan sýnir að árangursríkasta aðferðin til að innleiða þjónandi forystu á vinnustöðum er rýni í fræðin og samtal um hagnýtinguna á hverjum stað.

Valdefling er smitandi

Tækifæri til að hafa áhrif felur í sér frelsi og frelsi fylgir ábyrgð. Það er ábyrgð hvers og eins að nýta frelsi og tækifærin sem þar eru til áhrifa. Það er líka ábyrgð hvers og eins að vera öðrum til stuðnings, lyfta öðrum og hjálpa öðrum að hafa rödd. Einstaklingur sem hefur trú á eigin getu er líklegri til að nýta tækifæri til áhrifa og líklegri til að gefa öðrum tækifæri til áhrifa. Valdefling er nefnilega smitandi. Með því að veita öðrum athygli og stuðning verða til nýjar hugmyndir og nýjar lausnir fyrir sjálf okkur og aðra. Þannig skapast valdefling einstaklinga og hópa.

Byggt á grein höfundar í 100 ára afmælisriti Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2019