The Servant as Leader

Hver er þjónandi leiðtogi? – Lýsing Robert Greenleaf í bók hans Þjónn verður leiðtogi

Hver er þjónandi leiðtogi?

Þjónandi leiðtogi er fyrst þjónn, eins og persónan Leó. Þetta hefst með þeirri náttúrulegu kennd að vilja þjóna, þjóna fyrst. Síðan veldur meðvitað val því að maður vill taka forystu. Gera verður skarpan greinarmun á þessari manneskju og þeirri sem er fyrst leiðtogi, ef til vill vegna þarfarinnar til að svala óvanalega mikilli valdalöngun eða til að komast yfir efnisleg gæði. Hjá slíkri manneskju mun valið um að þjóna koma síðar, eftir að hún er komin í leiðtogastöðu. Þetta eru tvær andstæðar manngerðir, sá sem er fyrst leiðtogi og sá sem er fyrst þjónn. Á milli þeirra eru svo blæbrigði og blöndur sem eru hluti af hinni óendanlegu fjölbreytni mannlegs eðlis.

Greina má muninn á manngerðunum í því hversu mikið sá sem er fyrst þjónn leggur upp úr því að komið sé til móts við þær þarfir fólks sem mestu skipta. Bestu prófsteinarnir – sem þó er erfitt að beita – eru þessir: Vaxa þeir, sem er þjónað, sem manneskjur? Verða þeir, á meðan verið er að þjóna þeim, heilbrigðari, vitrari, frjálsari, sjálfstæðari og sjálfir líklegri til að verða þjónar? Og hver eru áhrifin á þá sem minnst mega sín í samfélaginu? Munu þeir njóta góðs af eða verða að minnsta kosti ekki verr settir en áður?

Hvernig veit maður að þetta verður niðurstaðan þegar maður hefst handa við að þjóna? Það er hluti af þeirri ráðgátu sem það er að vera maður – ekki er hægt að vita það fyrir víst. Eftir nokkra yfirlegu og reynslu verður maður að setja fram tilgátu, en gera sér þó grein fyrir að hún er undirorpin vafa. Síðan framkvæmir maður í samræmi við tilgátuna og skoðar niðurstöðuna. Þannig má halda áfram að yfirvega og læra. Af og til þarf svo að endurskoða tilgátuna sjálfa.

Að lokum velur maður aftur. Ef til vill velur maður sömu tilgátuna aftur og aftur. En valið er alltaf nýtt og frjálst. Og tilgátan er alltaf undirorpin vafa. „Trú er það að velja göfugri tilgátuna.“ Ekki hina göfugustu, því maður veit aldrei hver sú tilgáta er. Heldur hina göfugri, sem er sú besta sem maður kemur auga á þegar valið fer fram. Þar sem niðurstaðna athafna er vanalega langt að bíða er trúin, sem viðheldur valinu á göfugri tilgátunni, byggð á sálfræðilegu sjálfsinnsæi. Þetta er áreiðanlegasti eiginleiki sanns þjóns.

Hinn náttúrulegi þjónn, sá sem er fyrst þjónn, er líklegri til að gefast ekki upp við að fínpússa tilgátu sína um hvað mætir þeim þörfum annarra sem mestu skipta en sá sem er fyrst leiðtogi og sem síðar þjónar vegna umvöndunar samviskunnar eða til að tryggja samræmi við almennar væntingar.

Vonir mínar til framtíðarinnar hvíla að hluta til á þeirri trú minni að á meðal hinna fjöldamörgu bágstöddu og lítt fáguðu séu margir sannir þjónar sem muni taka forystu og ennfremur að flestir þessara bágstöddu geti lært að þekkja úr hina sönnu þjóna í hópi allra þeirra sem segjast vilja þjóna þeim.

Úr riti Robert Greenleaf Servant as Leader – Þjónn verður leiðtogi (bls. 15) í þýðingu Róberts Jack.