Karla landsliðið í fótbolta og áhorfendur

Þjónandi forysta landsliðs karla í fótbolta: leikmenn og þjálfarar

Margt bendir til þess að þjónandi forysta einkenni landslið karla í fótbolta. Það fyrsta sem vekur upp þær pælingar er framkoma þjálfara og leikmanna á leikvelli og áherslur leikmanna og þjálfara í viðtölum við fjölmiðla.

Það sem einkennir þjálfara landsliðsins og leikmenn er auðmýkt og hógværð sem birtist með yfirvegun og virðingu gagnvart náunganum. Þetta sést greinilega í viðtölum og líka þegar fylgst er með fasi og framgöngu leikmanna og þjálfara. Auðmýkt er lykilþáttur í þjónandi forystu og er mikilvæg forsenda þess að einstaklingarnir horfast í augu við eigin styrkleika og veikleika og gerir þeim kleift að draga fram það besta í eigin fari. Auðmýkt gerir einstaklingunum líka kleift að hlusta á sjónarmið annarra, bera virðingu fyrir náunganum og auðvelda öðrum að blómstra og að njóta sín.  Þetta sést svo vel þegar horft er á þjálfara liðsins á meðan á leik stendur. Þeir sýna sérstaka yfirvegum og gefa leikmönnum algjört frelsi til að njóta sín sem byggir þó á mikilli yfirvegun og meðvitund um grundvallarreglur og princip liðsins.  Auðmýkt kemur líka greinilega fram þegar leikmenn eru spurðir um árangur og horfur í mótum.

Annað sem einkennir landsliðið er sem sagt agi og yfirvegum. Þar er svo greinilegt að þjálfunin felst ekki síst í því að hafa reglur liðsins á hreinu og fylgja þeim í hvívetna. Á grunni þessa aga fá leikmennirnar frelsi sem birtist til dæmis í hæfni þeirra til að bregðast við óvæntum atvikum á leikvellinum þar sem þeir flétta saman eigin færni, innsæi og sköpunarkrafti til að leysa verkefnin á nýjan og árangursríkan hátt. Agi, sameiginlegir sáttmálar og reglur eru grunnstoðir árangurs í þjónandi forystu og stundum er þessum aga lýst sem ástríkum aga, – tough on the problem, gentle with the person: festa gagnvart verkefni, mildi við einstaklinginn.

Þriðja atriðið sem einkennir landsliðið og minnir mjög á þjónandi forystu er skýr sýn á tilgang, markmið og framtíðarsýn. Þessi sýn kemur skýrt fram í orðum Lagerbäck og bendir sterklega til þess að hann sé þjónandi leiðtogi og þessi skýri fókus endurspeglast greinilega hjá liðsmönnunum. Skýr sýn á tilgang og hæfileikinn til að sjá fram á veginn myndar forskot til forystu og einkennir þjónandi leiðtoga.

Rannsóknir sýna að þjónandi forysta er starfsandi í hópum, félögum og fyrirtækjum. Þjónandi forysta hefur uppbyggjandi áhrif á samskipti og áherslur og leiðir til þess að einstaklingar og hópar ná árangri sem birtist t.d. í starfsánægju, starfsorku og auknum gæðum þjónustu sem veitt. Í þjónandi forystu er markmiðið að skapa marga leiðtoga, marga einstaklinga sem eru sjálfstæðir og hæfir til að skapa og til að taka af skarið þegar á reynir. Margt bendir til þess að áherslur þjónandi forystu hjá íslenska landsliðinu í karlafótbolta hafi jákvæð áhrif á leikmennina og árangur liðsins.

Áhugavert er að rýna í aðferðir og viðhorf Lars Lagerbäck og bera það saman við hugmyndafræði þjónandi forystu og þeirra þriggja þátta sem eru einkennandi fyrir þjónandi leiðtoga. Byggt er á viðtölum við Lagerbäck og við liðsmenn íslenska fótboltalandsliðsins og erindi sem Lagerbäck hélt um stjórnun og forystu á fundi Félags atvinnurekenda snemma árs 2015.

  • Fyrsta einkenni þjónandi forystu er einlægur áhugi á öðrum, hugmyndum þeirra og þörfum. Hjá Lars Lagerbäck kemur þetta mjög skýrt fram. Hann leggur áherslu á að sýna leikmönnum virðingu og traust. Hver og einn liðsmaður skiptir máli og hann leggur sérstaka áherslur á að hver maður fái að njóta sín. Frelsi einstaklinganna og sjálfræði þeirra er grundvallaratriði í þjónandi forystu og þetta kemur líka fram hjá Lagerbäck. Hann virkjar sjálfstæði hvers leikmanns og markmiðið er að hver og einn geti tekið ákvarðanir.
  • Annar hluti þjónandi forystu er sjálfsþekking og sjálfsvitund sem skerpist með því að líta í eigin barm, að horfa á sig í speglinum eins og Lagerbäck orðar það sjálfur. Hann telur mikilvægt að þjálfarinn sé meðvitaður um sjálfan sig, eigin skilaboð, t.d. óorðuð skilaboð og líkamstjáningu. Sjálfsþekking og góð sjálfsmynd birtist líka í hógværri framkomu og auðmýkt sem eru sérstök einkenni Lars Lagerbäck sem án ef smitast til leikmannanna og bætir án ef alla samvinnu þeirra á vellinum.
  • Þriðja einkenni þjónandi forystu er skörp framtíðarsýn og skýr sýn á markmið. Þetta endurspeglast í ábyrgðarskyldu og aga þar sem hver og einn þekkir eigin ábyrgð og hlutverk. Fókus á aðalatriðin er líklega einn af þeim þáttum sem einkenna íslenska fótboltalandsliðið og skýrist án efa af skarpri sýn þjálfara liðsins og leikamanna á markmiðin og áherslu hans á aga og ábyrgð hvers og eins. Hann leggur áherslur á fáar reglur, ábyrgð hvers og eins og að fókusinn sé á aðalatriðin.

Tveir thjalfarar 27 Juni 2016 EMLandslidid og ahorfendur 22 juni 2016 i Paris EM Fotbolti