Grunnstef þjónandi forystu eru tvö; að vera þjónn og að vera leiðtogi, í sama augnablikinu. Margir hafa bent á tengsl þjónandi forystu og góðra uppeldisaðferða og meðal þeirra sem hafa bent á þessi tengsl er Simon Sinek, sjá til dæmis hér.
Eitt af því sem tengist góðri forystu og árangursríku uppeldi er jafnvægislistinn í sambandi við mildan aga. Þessi árangursríki agi er oft kallaður ástríkur agi eða eins og enskumælandi myndi segja: tough love.
Skýr mörk og væntumþykja. Líklega kannast allir foreldrar og kennarar við glímuna um að draga skýr mörk um leið og börnum er sýnd væntumþykja. Þessi jafnvægislist tengist vellíðan barna og velgegni þeirra á ýmsum sviðum, m.a. að dragast ekki að áhættu margs konar.
Skýr ábyrgðarskylda og góður stuðningur. Í rannsóknum um árangursríka stjórnun og forystu kemur æ betur fram hversu mikilvægt þetta samspil væntumþykju og aga er. Til dæmis sýna rannsóknir æ betur að lykilþættir fyrir vellíðan starfsfólks og árangur í starfi er að línur séu skýrar varðandi markmið, ábyrgð hvers og eins og framtíðarsýn. Samhliða þessu er jafnframt mikilvægt að starfsfólk njóti trausts, fái tækifæri til að blómstra og njóti stuðnings stjórnenda og samstarfsfólks. Hér er aftur komið að kjarna þjónandi forystu sem er mæta mikilvægum þörfum starfsfólks um leið og markmiðum verkefnanna er náð með skýrri ábyrgðarskyldu hvers og eins; þjónusta og forysta.
Flétta saman mildi og festu. Þjónandi forysta felst í því að flétta saman mildi og festu í daglegu samtali og samstarfi og þannig skapast árangurinn. Með skýrri sýn og stefnu verður alveg ljóst hvert verkefnið er og einng verður ábyrgð hvers og eins skýr sem aftur skapar öryggi og traust. Sanmhliða þessu virkar mild nálgun og mildi í samskiptum sem stuðningur sem hefur hvetjandi áhrif og dregur fram vellíðan.
Mildin ein og sér skapar ekki árangur ekki frekar en festan ein og sér. Hins vegar skapar samspil mildi og festu árangur og ástríkur og agi skapar vellíðan. Þjónusta er nauðsynleg og forysta er nauðsynleg og saman myndast hið árangursríka jafnvægi eins og fram hefur komið í fjölda rannsókna, til dæmis hér.
Mynd: Simon Sinek