Hugmyndafræði þjónandi forystu veitir innsýn í hvernig traust og umburðarlyndi eru forsendur þess að við lærum af mistökum. Traust í samskiptum er forsenda þess að við segjum frá hugmyndum okkar, sigrum og ósigrum. Robert Greenleaf benti á að traust verður til þegar leiðtoginn hlustar af alúð. Áhugi og virðing leiðtogans fyrir hugmyndum og sjónarmiðum annarra skapar traust.
Í þjónandi forystu er tilgangur starfsins aðalatriðið og leiðtoginn hefur sterka sjálfsvitund og sterka vitund um kjarna verkefnanna og hugsjónarinnar. Starfsfólk er meðvitað um þennan kjarna og daglegt samtal eflir þessa vitund.
Traust innan hóps verður til í samskiptum. Traust snýr að orðum og athöfnum. Í samtali veitum við hvert öðru athygli, virðum hugmyndir hvers annars, hlustum af alúð, virðum frelsi, ígrundum, hjálpumst að við að skilja, finna ráð og lausnir. Með góðri sjálfsvitund aukast möguleikarnir til að vanda orð og athafnir þannig að þau hafi uppbyggileg áhrif á sjálf okkur og aðra.
Traust er ein af meginstoðum þjónandi forystu og mikilvæg forsenda starfsánægju, árangurs og gæða starfa okkar. Til dæmis hafa rannsóknir sýnt ítrekað að traust er nauðsynleg forsenda þess að við segjum frá því sem út af ber í starfi okkar og þar með er traust forsenda úrbóta sem hugsanlega er þörf. Rosabeth Moss Kant hefur birt fjölda rannsókna um traust og telur traust grunnforsendu árangurs fyrirtækja og stofnana.
Kanter fetar í fótsport Greenleaf og bendir á að til að skapa traust þurfa samskiptaleiðir að vera óhindraðar, starfsfólk þarf hæfileika til að hlusta hvert á annað af alúð, standa saman og virða hvert annað. Góð samskipti byggja á þjálfun og færni og þar kristallast aðalatriði starfa og verkefna. Samtal sem byggir á trausti og tilgangi starfa, skapar yfirsýn og umburðarlyndi sem gerir okkur kleift að draga lærdóm af því sem út af ber og koma auga á leiðir til árangurs.