Starfsmenn að spjalla

Sjálfstæðir starfsmenn sem njóta sín í starfi

Þjónandi leiðtogi vinnur að því að styrkja samstarfsfólk sitt þannig að hver og einn geti axlað ábyrgð miðað við eigin verkefni og hæfni. Þannig getur starfsfólk notið sín og blómstrað í starfi.

Þjónandi forysta skapar aðstæður sem gera starfsfólkinu kleift að móta eigin störf og taka eigin ákvarðanir, ekki síst þegar mikið liggur við eða eitthvað bregður út af. Við nýjar eða óvæntar aðstæður er áríðandi að starfsfólk bregðist við af sjálfstæði og öryggi, hafi sjálft leiðtogahæfileika og nýti þá í verkefnum sínum.

Þjónandi forysta er fléttuð inn í alla starfsemi fyrirtækjanna og hún nær fótfestu meðal stjórnenda og annars starfsfólks. Skipulagið og allt fyrirkomulag vinnunnar verður til þess að skapa marga leiðtoga, án tillits til formlegra stjórnunarstarfa. Leiðtogarnir eru alls staðar og hafa hver sitt hlutverk. Starfsfólkið vinnur saman í teymum á grundvelli jafningja og þar eru hugmyndir og ákvarðanir ræddar.

Í fyrirtækjum sem vinna samkvæmt hugmyndum þjónandi forystu eru allir starfsmenn þjónandi leiðtogar, hver á sínu sviði í samvinnu við aðra þjónandi leiðtoga. Þegar á reynir er þó alltaf ljóst hver er fremstur og sá eða sú tekur ákvarðanir þegar mikið liggur við og þurfa þykir. Leiðtoginn er fremstur meðal jafningja.

Skilgreining Robert Greenleaf á þjónandi leiðtoga:
Þjónandi leiðtogi er í fyrsta lagi þjónn. […] Það byrjar með eðlislægri tilfinningu um að vilja þjóna, að þjóna fyrst. Síðar leiðir meðvituð ákvörðun viðkomandi til forystu. Slíkur einstaklingur er ólíkur þeim sem er fyrst leiðtogi, líklega vegna takmarkaðrar löngunar til valda og efnislegra gæða.[…] Munurinn felst í því að þjónninn leitast við að mæta helstu þörfum þeirra sem hann þjónar. Besti prófsteinninn á þetta, og jafnframt sá þyngsti,er: Vaxa þau sem er þjónað sem einstaklingar? Verða þau heilsuhraustari? Fá þau meiri visku, frelsi og sjálfstæði? Verða þau sjálf líklegri til að vera þjónandi leiðtogar? Og jafnframt, munu þau sem minnst mega sín í samfélaginu njóta góðs af, eða að minnsta kosti, ekki verða fyrir meira ójafnræði? (Greenleaf 2008, 15).