Nýverið kom út íslensk þýðing fyrsta rits Robert K. Greenleaf um þjónandi forystu: Þjónn verður leiðtogi. Ritið var fyrst gefið út árið 1970 og hefur verið þýtt á fjölda tungumála.
Í ritinu fjallar Greenleaf um meginþætti hugmyndar sinnar um þjónandi forystu meðal annars um hlutverk leiðtogans að setja markmið sem vísar til þess að hafa skýran tilgang og að skapa stóran draum:
Orðið „markmið“ er hér notað í þeirri sérstöku merkingu að vísa til hins alltumlykjandi tilgangs, hins stóra draums, draumsýnarinnar, hinnar endanlegu fullkomnunar sem maður nálgast en nær aldrei í raun. Þetta er eitthvað sem eins og sakir standa er utan seilingar, eitthvað til að leitast við að ná, til að færast í áttina að eða verða. Þetta er þannig sett fram að það gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn og skorar á fólk að vinna að einhverju sem það veit ekki enn hvernig það á fyllilega að framkvæma, einhverju sem það getur verið stolt af á meðan það færist í áttina að því.
Sérhvert afrek hefst á markmiði, en ekki bara einhverju markmiði og það er ekki bara einhver sem setur það fram. Sá sem setur markmiðið fram þarf að vekja traust, sérstaklega ef um er að ræða mikla áhættu eða draumkennt markmið, því að þeir sem fylgja eru beðnir að sættast á áhættuna með leiðtoganum. Leiðtogi vekur ekki traust nema maður hafi trú á gildum hans og hæfni (þar á meðal dómgreind) og nema hann hafi nærandi anda (enþeos*) sem mun styðja þróttmikla eftirsókn eftir markmiði.
Fátt gerist án draums. Og til að eitthvað stórt geti gerst, þarf stór draumur að vera til staðar. Á bak við sérhvert mikið afrek er einhver sem dreymir stóra drauma. Til að gera drauminn að veruleika þarf mun meira en þann sem dreymir en draumurinn þarf fyrst að vera til staðar.
Robert K. Greenleaf (2018): Þjónn verður leiðtogi, bls. 28
*Forngríska orðið enþeos merkir að vera uppfullur af guðlegum anda.
Þjónn verður leiðtogi (þýð. Róbert Jack) er til sölu í bókaverslunum og í vefverslun Iðnú.