Auðmýkt til árangurs – hinn hljóðláti eiginleiki farsællar forystu

Auðmýkt leiðtogans er meðal lykilþátta þjónandi forystu (Dennis og Bocarnea, 2005; Wong og Davey, 2007; van Dierendonck og Nuijten, 2011). Óvíst er að margir setji auðmýkt í samhengi við áhrifaríka forystu enda hefur hugtakið margþætta merkingu og kallar því ekki alltaf upp í hugann aðdáunarverða eiginleika. Þannig merkir lýsingarorðið auðmjúkur „hlýðinn“ eða „eftirlátur“ skv. orðabók Máls & menningar en síðara orðið útskýrir sama bók með orðunum „tilhliðrunarsamur“, „undanlátssamur“ og „auðsveipur“. Varla stæði sá leiðtogi undir nafni sem helst byggði á þessum eiginleikum. Hugtakið auðmjúkur er reynda líka skýrt með orðinu „lítillátur“ sem skiljanlegra er að sett sé í samhengi við forystu og þá sérstaklega þjónandi forystu, en lítillátur er þannig útskýrt í orðabókinni: „Hrokalaus, vingjarnlegur við þá sem lægra eru settir.“

Athyglisvert er að skoða uppruna samsvarandi orðs í ensku – humility. Orðið kemur gegnum miðaldafrönsku úr latínu, humilitas. Að vísu hefur latneska orðið eingöngu neikvæða merkingu en það er leitt af orðinu humus sem merkir einfaldlega „jörð“ eða „jarðvegur“. Það er þessi uppruni sem Merwyn A. Hayes og Michael D. Comer leggja til grundvallar í riti sínu um auðmýkt (Hayes og Comer, 2011). Auðmýkt felst þannig í því að hafa vera nálægt jörðinni, nálægt fólki, nálægt því sem raunverulega skiptir máli – hafa báða fætur á jörðinni. Rit Comers og Hayes um auðmýkt byggir á ýmsum rannsóknum þeirra og annarra, en ekki síst á viðtölum við valda leiðtoga sem hafa náð miklum árangri, m.a. með auðmýkt sinni. Samkvæmt Comer og Hayes eru hæfustu leiðtogarnir þeir sem eru „nálægt jörðinni“, hlusta á kúnnann og þekkja skoðanir og viðhorf starfsfólksins. Þeir telja að efasemdir um auðmýkt sem kost í fari leiðtoga stafi af því að auðmýkt sé sett í samhengi við skort á sjálfsfremd (e. self-assertiveness), en áherslan ætti hins vegar að vera á skort á sjálfshóli. Auðmýkt snúist ekki um að láta ekki að sér kveða, heldur að hvernig maður lætur að sér kveða. Hinn auðmjúki leiðtogi leggi áherslu á afrek hópsins, frekar en sín eigin afrek. Auðmjúkir leiðtogar byggi upp traust og hegðun þeirra leiði til þess að fólk vilji fylgja þeim að málum.

Hvað er auðmýkt?

Samkvæmt Comer og Hayes felst auðmýkt í því þremur þáttum:

 • Að vera manneskjulegur (e. humanness)
 • Að vera berskjölduð/berskjaldaður (e. vulnerability)
 • Getan til að sjá eigin afrek í réttu ljósi.

Hinn manneskjulegi leiðtogi skilur að heimurinn snýst ekki um hann, jafnvel þótt hann sé forstjóri í fyrirtæki. Hann sér sjálfan sig í réttu samhengi. Hann skilur að hugmyndir annarra eru mikilvægar og gefur nýjum skoðunum því gaum, jafnvel þótt þær séu ólíkar skoðunum hans sjálfs. Hinn manneskjulegi leiðtogi hefur skilning á áhyggjum starfsmanna, t.d. þegar breytingar eiga sér stað, og vill að starfsmenn taki þátt í að vinna að breytingum. Comer og Hayes setja þennan eiginleika í samhengi við falsleysi (authenticity), því hinn manneskjulegi leiðtogi kemur til dyranna eins og hann er klæddur og lætur sama yfir sig ganga og aðra.

Hinn berskjaldaði leiðtogi skilur að hann er „verk í mótun“, að það sé mögulegt að hann læri sitthvað fleira en hann þegar kann. Hann áttar sig á að hann geti ekki allt, hafi ekki svör við öllu og vill þess vegna heyra í samstarfsfólki sínu þegar þarf að taka ákvarðanir. Annar eiginleiki hins berskjaldaða leiðtoga felst í því hvernig hann tekst á við mistök sín. Hann hvorki afneitar þeim né dvelur við þau. Þess í stað viðurkennir hann mistökin, dregur af þeim lærdóm og heldur svo áfram í rétta átt, tekur ábyrgð á því sem honum ber.

Hæfileikinn til að sjá afrek sín í réttu ljósi felst í því að sjá sjálfan sig í sama ljósi og aðra og meta sjálfan sig á réttan hátt. Hinn auðmjúki leiðtogi afneitar ekki reynslu sinni og afrekum, enda er gagnlegt að byggja á reynslu sinni og geta rætt hana við samstarfsmenn. Hins vegar getur hinn auðmjúki leiðtogi rætt reynslu sína og afrek án sjálfshóls.

Hvað er auðmýkt ekki?

Auðmýktinni til varnar tína Comer og Hayes einnig til hvað auðmýkt er ekki:

 • Auðmýkt er ekki veiklyndi og auðmýkt er ekki skortur á sjálfstrausti eða sjálfsáliti. Auðmýkt og sjálfstraust eru ekki andstæður. Sjálfsöruggum leiðtogum líður vel í eigin skinni vegna auðmýktar sinnar. Þeir þurfa ekki að sanna sig með því að berja sér á brjóst eða láta bera á ágæti sínu. Hinir auðmjúku eru nógu sjálfsöruggir til að geta viðurkennt mistök og lært af þeim án þess að dvelja við þau, frekar en að kenna öðrum um. Hinir auðmjúku eru nógu sjálfsöruggir til að láta öðrum eftir að njóta heiðursins af vel unnum verkum og þurfa ekki að raða um sig jábræðrum. Hinn auðmjúki leiðtogi er m.ö.o. auðmjúkur vegna þess að hann býr yfir sjálfstrausti.
 • Auðmýkt er ekki að láta ekki til sín taka eða í sér heyra. Auðmjúkir leiðtogar láta til sín taka, en gera það á viðeigandi hátt. Auðmjúkur leiðtogi þegir ekki öllum stundum en hugar vel að því hvort, hvenær og hvernig hann talar.
 • Auðmýkt er ekki metnaðarleysi því auðmjúkir leiðtogar hafa metnað fyrir því starfi sem þeir veita forystu.

Hvernig hagar auðmjúkur leiðtogi sér?

Comer og Hayes telja til ellefu hegðunareinkenni auðmýktar, einkenni sem tjá auðmýkt og eru þess valdandi að aðrir telja viðkomandi auðmjúka(n). Hinn auðmjúki leiðtogi:

 • viðurkennir mistök og vanþekkingu
 • ástundar góð samskipti á öllum þrepum fyrirtækis
 • temur sér gagnsæ vinnubrögð
 • sýnir samkennd
 • hefur húmor fyrir sjálfum sér
 • er heiðarlegur
 • er ekki í vörn
 • er tiltæk(ur), auðvelt að nálgast hann
 • ástundar virka hlustun
 • hvetur til þátttöku
 • virðir framlag annarra, bæði á formlegan og óformlegan hátt

Hvaða gagn er af auðmýkt?

Ástæða þess að auðmjúkir leiðtogar ná árangri er sú að þeir njóta virðingar og trausts og fólk fylgir þeim að málum sem það treystir. Traust er helsta ástæða þess að fólk leggur meira á sig en að jöfnu er ætlast til (e. discretionary effort). Auðmýkt er ekki það eina sem skiptir máli í fyrir forystu. Fleira kemur til, svo sem framtíðarsýn, starfshæfni, hugrekki, samskiptatækni o.fl. en auðmýkt er mikilvæg vegna þess að hún vekur traust sem er farsælli forystu nauðsynlegt.

Hvers vegna njóta auðmjúkir leiðtogar trausts?

Auðmjúkir leiðtogar hafa einlægan áhuga á öðru fólki og spyrja samstarfsmenn því frekar um skoðanir þeirra og hagi. Þeir gefa með hegðun sinni skýrt til kynna að þeim standi ekki á sama um annað fólk. Auðmýkt getur af sér sanngirni og hjálpar leiðtoganum að sjá málin út frá sjónarhorni þeirra sem eru þeim ólíkir. Með sanngirni sýnir leiðtoginn að hann sér hlutina ekki aðeins út frá sínu sjónarhorni. Þegar leiðtogi setur hag annarra framar sínum líður starfsfólki betur, finnur að hag þeirra sé gætt, finnur að því er treyst og að því sé sýnd virðing. Allt þetta er hvatning til að gefa af sér og leggja sig fram af öllum mætti, að vanda sig og vinna saman. Árangurinn sem af því hlýst eykur traust á leiðtoganum.

 • “Humility is not thinking less of yourself, it’s thinking of yourself less.” – C.S. Lewis.
 • „Eating words has never given me indigestion“ – Winston Churchill.

Höfundur greinar: Guðjón Ingi Guðjónsson

Start-Humilty

Audmykt.jpg