Vellíðan starfsmanna, heilbrigt starfsumhverfi og þjónandi forysta

Í þjónandi forystu er lögð sérstök áhersla á vellíðan starfsfólk og að starfsfólk njóti sín  í starfi. Þetta kemur fram í nýjum rannsóknum um þjónandi forystu (Sigrún Gunnarsdóttir og Birna Gerður Jónsdóttir, 2013) og kom einnig sérstaklega fram í því sem Robert K. Greenleaf sagði þegar í riti sínu The Servant as Leader árið 1970, að prófsteinn hins þjónandi leiðtoga væri m.a. hvort þeir, sem hann þjónaði, yrðu heilsuhraustari og frjálsari (Greenleaf, 1970, bls. 15).

Rannsóknir um líðan starfsfólks, starfsgetu og starfsánægju beinast æ meira að gildi starfsumhverfis, streitu, samskipta, stjórnunar og forystu.  Nýtt rannsóknaryfirlit sem nær til langtímarannsókna með ríflega 100.000 þátttakendum meðal starfsmanna á ýmsum vinnustöðum í sjö löndum Evrópu sýnir að streita á vinnustað tengist líkum á hjarta- og æðasjúkdómum, óháð kyni og stöðu í samfélaginu (Kivimäki o.fl., 2013).

Whitehall-rannsóknin á starfsumhverfi og heilsu opinberra starfsmanna í London hefur staðið yfir frá því á 7. áratugnum og nær nú til meira en 20.000 opinberra starfsmanna. Rannsókn sem er hluti af Whitehall-rannsóknunum með þátttöku 5182 opinberra starfsmanna sýnir að sjálfræði í starfi, stuðningur í starfi og góð samskipti hafa afgerandi áhrif á líðan starfsfólks og starfsgetu óháð eðli starfs og sérhæfingar (Stansfeld o.fl. 2013). Í annarri rannsókn, sem einnig er hluti af Whitehall-rannsóknunum og nær til karla og kvenna, alls 4531 einstaklings, kemur fram að réttlæti á vinnustað (e. organisational justice) tengist góðu minni, rökhugsun og tjáningu óháð aldri, stöðu, andlegri líðan, líkamlegri líðan og álagi (Elonvainio o. fl., 2012).

Nýjar sænskar rannsóknir sýna að stjórnunaraðferðir næsta yfirmanns tengjast líkum á fjarvistum vegna veikinda (Nyberg o.fl, 2008) og líkum á hjarta- og æðasjúkdómum óháð ýmsum félaglegum og líkamlegum þáttum svo sem vinnuálagi, reykingum, líkamsþjálfun og þyngdarstuðli (Nyberg o.fl., 2009). Í nýrri yfirlitsgrein um starfsumhverfi og líðan í starfi kemur í ljós að samskipti við samstarfsfólk og stjórnendur hefur afgerandi tengsl við líðan starfsfólks og starfsánægju þar sem lýðræðislegar stjórnunaraðferðir, áhrif á eigin störf og uppbyggileg samskipti tengjast betri líðan (Westgaard og Winkel, 2011).

Sambærilegar niðurstöður komu í ljós í rannsókn á starfsumhverfi Landspítala þar sem könnuð voru viðhorf 695 hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra og aðhvarfsgreining sýndi að uppbyggileg samskipti við næsta yfirmann og samstarfsfólk sem og hæfileg mönnun á vöktum var marktækt tengd ánægju starfsfólks og minni einkennum um kulnun vegna starfsins (Gunnarsdóttir o.fl., 2009).

Af framangreindu má sjá að forystu- og samskiptahættir hafa ekki einasta áhrif á andlega líðan og starfsánægju, heldur hafa beinlínis áhrif á líkamlega heilsu og eru ákvarðandi fyrir lífshættulega sjúkdóma á borð við hjarta- og æðasjúkdóma. Í ljósi þessa má sjá gildi þjónandi forystu fyrir vellíðan starfsfólks og árangur fyrirtækja almennt.