Nýjar rannsóknir um þjónandi forystu hér á landi

Nýlega voru birtar skýrslur um þrjár nýjar rannsóknir um þjónandi forystu og tengsl hennar við starfsánægju og gæði þjónustu hér á landi. Rannsóknirnar eru verkefni til meistaraprófa og voru unnar með lífeindafræðingum, starfsfólki sjúkrahúsa og erlendum konum sem þáðu mæðravernd hér á landi.

Höfundar eru Alda M. Hauksdóttir, MS (lífeindafræðingar), Birna G. Jónsdóttir, MS (erlendar mæður) og Erla Björk Sverrisdóttir, MS (starfsfólk sjúkrahúsa). Rannsóknarskýrslurnar eru aðgengilegar á www.skemman.is

Titill: Þjónandi forysta og forprófun mælitækis þjónandi forystu

Höfundur: Alda Margrét Hauksdóttir

Úrdráttur:

Hér er fjallað um leiðtogakenningar, þjónandi forystu, fræðilegann bakgrunn hennar og rannsóknir sem byggja á kenningum um þjónandi forystu. Tilgangur þeirrar rannsóknar sem gerð var og fjallað er um hér er að meta hvernig tekist hefur til við þýðingu á „Servant Leadership Inventory“ SLI-mælitækinu frá ensku yfir á íslensku.

SLI-mælitækið er merkilegt fyrir þær sakir að vera nýtt. Jafnframt er verið að forprófa það í íslenskri þýðingu í þessari rannsókn sem markar tímamót vegna þess að þetta er fyrsta rannsóknin sem gerð er á Íslandi á þjónandi forystu. Hún er líka mikilvæg fyrir þær sakir að vera gerð meðal lífeindafræðinga, stétt í íslensku heilbrigðiskerfi, sem hefur ekki verið rannsóknarefni áður þótt rannsóknir og mælingar sé hennar aðalstarf.

Þjónandi forysta er ekki ný af nálinni heldur hefur fylgt okkur í gegn um aldirnar. Það er hins vegar oft þannig bæði með góða forystu og þjónustu að það er fyrst tekið eftir henni þegar hennar nýtur ekki lengur við. Þannig hefur þjónandi forysta hugsanlega oft farið framhjá fólki vegna þess að þjónandi leiðtogi sækist ekki eftir heiðri fyrir sjálfan sig. Þjónusta hans er ekki framkvæmd til að fá hrós heldur til að samstarfsfólk eða fylgjendur vaxi sem einstaklingar, verði heilbrigðari, vitrari, frjálsari, sjálfstæðari og tilbúnir að veita öðrum þjónandi forystu.

Könnun var gerð á þáttum þjónandi forystu við stjórnun á vinnustöðum lífeindafræðinga.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að þrátt fyrir að mælitækið sé bæði réttmætt og áreiðanlegt í íslenskri þýðingu þá er nauðsynlegt að fara betur yfir þýðingu þess áður en það verður notað aftur. Sá þáttur þjónandi forystu sem hafði mesta fylgni við starfsánægju lífeindafræðinga var efling, Nauðsynlegt er að gera frekari könnun á starfshögum stéttarinnar þó svo að starfsánægja 64,6% þeirra sem tóku þátt í könnunni mælist á bilinu 4-5 í starfánægju þar sem 1 er mjög óánægður og 5 er mjög ánægður í starfi.

Sjá nánar á skemman.is


Titill: Vægi þjónandi forystu og starfsánægju. Forprófun á mælitæki þjónandi forystu á hjúkrunarsviðum sjúkrahúsa á suðvesturhluta landsins

Höfundur: Erla Björk Sverrisdóttir

Úrdráttur:

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna þjónandi forystu (e. servant leadership) meðal starfsmanna hjúkrunarsviða á fjórum sjúkrahúsum á Suðvesturlandi og að athuga hvort tengsl væru á milli þjónandi forystu og starfsánægju. Notað var nýtt mælitæki og réttmæti þess og áreiðanleiki kannaður. Hugmyndafræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar er kenning Greenleafs sem fjallar um árangursrík samskipti og samstarf leiðtoga og starfsfólks. Aðalsérkenni þjónandi leiðtoga er viljinn til að þjóna, að nota sannfæringarkraft sem mikilvægasta valdið, hvetja, hrósa og treysta starfsmönnum. Rannsóknir sýna að árangur þjónandi forystu er aukin starfsánægja og betri árangur í starfi. Rannsóknum á þjónandi forystu og áhrifum hennar fer fjölgandi. Nýlegar rannsóknir í hjúkrun sýna að stjórnendur sem nota þjónandi forystu stuðla að bættum árangri starfsmanna og starfsánægju. Mikilvægt er að auka þekkingu á þjónandi forystu til að benda á leiðir til að efla starfsfólk og bæta gæði þjónustunnar.

Rannsóknin er lýsandi þversniðsrannsókn og þýðið allir starfsmenn á hjúkrunarsviði fjögurra sjúkrahúsa (n = 300). Prófuð var íslensk þýðing á nýju hollensku mælitæki, The Servant-Leadership Inventory. Starfsánægja var mæld og spurt um bakgrunn varðandi aldur, starfsstað, starfsstétt, starfshlutfall og stjórnunarstöðu. Niðurstöður sýna að íslenska útgáfa mælitækisins var bæði réttmæt og áreiðanleg. Þjónandi forysta mældist há og hæst meðal hjúkrunarfræðinga. Meirihluti svarenda er ánægður í starfi, 95,7%, sem er hærra hlutfall en mælst hefur í sambærilegum rannsóknum hér á landi um starfsánægju. Fylgni er milli starfsánægju og allra þátta þjónandi forystu, mest milli starfsánægju og eflingar. Marktæk tengsl eru milli þjónandi forystu og bakgrunns þátttakenda nema tengslin við starfshlutfall.

Draga má þá ályktun samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar að þjónandi forysta sé fyrir hendi á hjúkrunarsviði á sjúkrahúsunum fjórum og sé mikilvæg fyrir starfsánægju á þessum stöðum. Styrkjandi og hvetjandi stjórnunarþættir þjónandi forystu hafa jákvæð og eflandi áhrif á starfsfólk. Með því að styrkja þjónandi forystu á heilbrigðisstofnunum má auka starfsánægju og hafa góð áhrif á árangur í starfi.

Sjá nánar á skemman.is


Titill: Að eignast barn í nýju landi. Viðhorf og reynsla erlendra kvenna af barneignarþjónustu á Íslandi

Höfundur: Birna Gerður Jónsdóttir

Úrdráttur:

Nýbúum hér á landi hefur fjölgað hratt undanfarin ár og æ fleiri erlendar konur eru í hópi skjólstæðinga barneignarþjónustunnar sem kallar á nýjar áskoranir umönnunaraðila. Engar rannsóknir liggja fyrir um efnið hér á landi en erlendar rannsóknir sýna misgóða reynslu erlendra kvenna af barneignarþjónustu og birta vísbendingar um að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til menningarbundinna viðhorfa í umönnun. Menningarhæfni (cultural competence) er hugtak sem lagt er til grundvallar í þessari rannsókn en markmið hennar er að dýpka skilning og þekkingu á menningartengdum viðhorfum, hefðum og væntingum erlendra kvenna til barneignarferlisins og varpa ljósi á reynslu þeirra af barneignarþjónustunni. Notuð var etnógrafía sem fól í sér viðtöl við sjö erlendar konur sem fæddu börn sín hér á landi. Gögn voru greind í þrjú meginþemu: 1) Fjölskyldulíf fjarri heimahögum sem vísar til aðstæðna kvennanna sem söknuðu samfélags og tengslanets að heiman. 2) Að eignast barn í nýju landi vísar til aðlögunar kvennanna og viðhorfa til barneignarferlisins sem rímaði vel við almenn viðhorf hér á landi. Sátt var við skipulag barneignarþjónustunnar en vísbendingar um einangrun og depurð eftir fæðingu. 3) Snertifletir samskipta vísar til fjölbreyttra samskipta með og án orða, með eða án túlka og var reynsla hér misgóð. Niðurstöður eru í takt við erlendar rannsóknir og sýna almenna ánægju viðmælenda með viðmót fagfólks en gefa vísbendingar um að bæta megi barneignarþjónustuna hvað varðar fræðslu, þjónustu vegna tungumálaerfiðleika og stuðning eftir fæðingu. Samfelld ljósmæðraþjónusta virðist henta þessum hópi vel og mikilvægt að leggja áherslu á styrkingu (empowerment) kvennanna.

Þekking heilbrigðisstarfsfólks á viðhorfum og reynslu erlendra kvenna á barneignarferlinu er mikilvæg til að auka skilning fagfólks á þörfum þeirra og leggja grunn að skipulagi barneignarþjónustu sem hæfir best þörfum þessa minnihlutahóps.

Sjá nánar á skemman.is