Undanfarna áratugi hafa fjölmörg fyrirtæki tileinkað sér hugmyndir þjónandi forystu og eru þetta fyrirtæki og stofnanir sem starfa bæði á markaði og í opinberri þjónustu. Fyrstu fyrirtækin sem nýttu hugtakið þjónandi forystu (servant leadership) í skipulagi sínu og starfi eru bandarísk. Má hér til dæmis nefna fyrirtækið TDIndustries í Texas sem framleiðir loftræstikerfi og hóf að þróa starf sitt samkvæmt hugmyndafræðinni á sjöunda áratug síðustu aldar í samstarfi við frumkvöðul hugmyndarinnar, Robert Greenleaf. Síðan hefur þessum fyrirtækjum fjölgað mjög og eiga það flest sameiginlegt að ná afburðaárangri hvað varðar starfsánægju og árangur. Má hér nefna til dæmis SouthWest Airlines, Synovus bankann og Starbucks kaffihúsin.
Í fyrirtækjum sem hafa innleitt þjónandi forystu er sérstök áhersla á að allt starfsfólk temji sér hugmyndafræðina og gerð rík krafa um þekkingu og þjálfun til að nýta hugmyndafræðina í daglegum störfum. Grunnstoðir þjónandi forystu eru siðfræði og ábyrgð gagnvart hagsmunum heildar sem standa framar þrengri hagsmunum.
Einkennum þjónandi leiðtoga má lýsa sem samspili þriggja þátta. Í fyrsta lagi hefur þjónandi leiðtogi einlægan áhuga á hag annarra og líðan þeirra, viðhorfum og hagsmunum. Hér er átt við raunverulegan áhuga sem setur hag annarra framar eigin hagsmunum. Í öðru lagi hefur þjónandi leiðtogi góða sjálfsþekkingu, þekkir eigin styrkleika og veikleika, er meðvitaður um eigin viðhorf, markmið og drauma. Þessir tveir þættir tvinnast saman og eru um leið nátengdir þriðja þættinum sem er vitund um sameiginlega hugsjón, samfélagslega ábyrgð og sameiginlega hagsmuni. Þessir þrír þættir þjónandi forystu fléttast saman og móta viðhorf, framkomu og starf þjónandi leiðtoga.