Fjölsótt ráðstefna 14. október 2011

Um eitt hundrað þátttakendur frá ýmsum sviðum samfélagsins nutu fjölbreyttrar dagskrár á ráðstefnunni 14. október s.l.

Um miðjan dag var skipt í umræðuhópa sem ræddu um gildi þjónandi forystu um leið og snæddur var hádegisverður í Skálholtsskóla. Rætt var um hvort þjónandi forysta virkaði, hvort þörf væri fyrir hugmyndafræðina hér á landi og hvaða leiðir væru vænlegar til að innleiða slíka hugmyndafræði.

Niðurstöður umræðu í hópunum einkenndust af sannfæringu þátttakenda um að þjónandi forysta væri viðhorf og aðferðir sem skiluðu góðum árangri fyrir starfsfólk og starfsemi fyrirtækja og stofnana, dæmin sýni það og sanni. Að sama skapi töldu þátttakendur þörf fyrir þessar hugmyndir hér á landi, kannski nú sem aldrei fyrr. Þegar kom að hugmyndum um leiðir til innleiðingar var þátttakendum tíðrætt um að byrja sjálf og leitast við að vera fyrirmyndir. Hér má lesa niðurstöður umræðu í hópum (PDF)

Erindi fyrirlesara endurspegluðu rannsóknir og reynslu frá ýmsum hliðum og vörpuðu ljósi á samverkandi þætti þjónandi forystu. Erindin sýndu að þjónandi forysta hefur sannað gildi sitt í viðskiptalífi, heilbrigðisþjónustu, menntakerfinu og víðar. Þjónandi leiðtogi smitar áhuga til góðra verka og nær árangri með lýðræðislegum samskiptum, hlustun, hógværð, þjónustu, innsæi, hugrekki og samfélagslegri ábyrgð. Hér á síðunni er að finna glærur sem fylgdu erindi Dr. Kasper Edwalds.

Ráðstefnurit (PDF)