Hildur Eir Bolladóttir prestur og rithöfundur talar á ráðstefnunni um þjónandi forystu og brautryðjendur á Bifröst 25. september 2015 undir yfirskriftinni: ,,Að finna styrk í vanmætti sínum”.
Hildur Eir ætlar að fjalla um hvernig hægt er að finna merkingu og styrk í vanmætti sínum og snúa þannig vörn í sókn. Hildur byggir erindið á eigin reynslu og fjallar um hvernig sú reynsla hefur mótað hana í leik og starfi. Hildur lýsir umfjöllunarefni sínu með þessum orðum:
Forvitni og virk hlustun eru eiginleikar sem ég var studd til að rækta frá upphafi og hafa fram til þessa verið mín bestu bjargráð í lífi og starfi. Það segir sig kannski sjálft að þessir eiginleikar eru mikilvægir í starfi prestsins, sálgætir sem ekki er forvitinn um fólk er ekki líklegur til að spyrja spurninga sem opna á það sem máli skiptir, forvitni, borin uppi af umhyggju er lykillinn að mannssálinni, virk hlustun er glugginn sem hleypir ljósinu í gegn. Allar manneskjur þurfa að finna að lífssaga þeirra skipti máli og að reynsla þeirra, góð og slæm sé ekki merkingarsnauð, að fá eyra til að segja sögu sína gefur henni strax tilgang. Já sumir ganga m.a.s. svo langt að gefa hana út á prenti. En maður reynist ekki bara öðrum vel með því að vera forvitinn hlustandi, maður getur líka reynst sjálfum sér vel með þá eiginleika í farteskinu og að því hef ég komist í stærstu baráttu lífs míns, hingað til.
Hildur Eir er þekkt fyrir frumlega og hispurslausa nálgun sína á viðfangsefni samtímans og mun á ráðstefnunni fjalla um viðhorf sín og reynslu í ljósi hugmyndafræði þjónandi forystu.
Hildur Eir er sannarlega brautryðjandi í umfjöllun um mikilvæg málefni. Hún hefur farið ótroðanar slóðir til að opna umræðu um viðkvæm og oft persónuleg mál og hefur frumkvæði hennar og skörp nálgun orðið öðrum mikil hvatning og dýrmætur lærdómur.
Hugmyndafræði þjónandi forystu hvílir á þremur meginstoðum sem eru 1) einlægur áhugi á hugmyndum og hagmunum annarra, 2) sjálfsþekking og vitund og 3) skörp sýn á hugsjón, tilgang og framtíðarsýn. Hugmyndir og pælingar Hildar Eirar snerta allar þessar þrjár stoðir þjónandi forystu og verður spennandi að heyra hvernig hún fléttar þetta saman á ráðstefnunni á Bifröst 25. september nk.
Hér er erindi Hildar Eirar í heils sinni á heimasíðu hennar hildureir.is
Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015
Sjötta ráðstefnan um þjónandi forystu verður haldin á Háskólanum á Bifröst föstudaginn 25. september 2015 kl. 10 – 15:30. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Þjónandi forysta og brautryðjendur.
Á ráðstefnunni munu fyrirlesarar og þátttakendur leita svara við spurningunni: ,,Hvernig getur þjónandi forysta verið drifkraftur brautryðjandans?”.
Þátttökugjald kr. 24.900
Dagskrá:
kl. 10 – Opnun ráðstefnu
- Dr. Carolyn Crippen, Victoria University, Kanada
- Haraldur Líndal Pétursson, forstjóri Johan Rönning
- Kolfinna Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar
- Dr. Róbert Jack, heimspekingur
kl. 12 – Hádegishlé og samtal í hópum
- Dr. Kasper Edwalds, DTU Kaupmannahöfn
- Hildur Eir Bolladóttir, prestur Akureyri
- Einar Svansson, lektor Háskólanum á Bifröst
- Dr. Carolyn Crippen – ,,Begin with Listening”
kl. 15:30 – Lokaorð og ráðstefnuslit