Kasper Edwalds sérfræðingur í straumlínustjórnun og þjónandi forystu við DTU verður fyrirlesari á ráðstefnunni á Bifröst 25. september nk. Kasper kom hingað einnig á ráðstefnu um þjónandi forystu árið 2011 og fjallaði þá um straumlínustjórnun og þjónandi forystu. Nú í ár mun erindi hans taka mið af efni ráðstefnunnar sem er þjónandi forysta og brautryðjendur.
Erindi Kasper Edwalds á ráðstefnunni á Bifröst í haust ber yfirskriftina: ,,The servant leadership of change – Successful change required leaders to stand back”. Erindið byggir m.a. á rannsóknum Kasper um breytingastjórnun á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn og verður fróðlegt að hlýða á Kasper lýsa því hvernig þættir þjónandi forystu hjá stjórnendum tengast árangri breytinga og eru hugsanlegir áhrifaþættir hjá brautryðjendum framfara og breytinga.
Kasper Edwalds starfar við DTU í Kaupmannahöfn sem senior researcher á sviði ,,Production and Service Management”. Hann er formaður stjórnar NOVO rannsóknarsamstarfsins sem snýr að heilbrigðu starfsumhverfi í heilbrigðisþjónustunni. Meðal rannsóknarverkefna NOVO er rannsókn um straumlínustjórnun, þjónandi forystu og starfsumhverfi sem nær til sjúkrahúsa í Svíþjóð, Danmörku og á Íslandi. Rannsóknarhlutinn hér á landi fór fram á bráðamóttökudeildum Landspítala og fyrstu niðurstöður þar benda til mikilvægis þjónandi forystu fyrir sköpunargleði starfsfólks og árangur af innleiðingu straumlínustjórnunar á sjúkrahúsi.
Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015
Sjötta ráðstefnan um þjónandi forystu verður haldin á Háskólanum á Bifröst föstudaginn 25. september 2015 kl. 10 – 15:30. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Þjónandi forysta og brautryðjendur.
Á ráðstefnunni munu fyrirlesarar og þátttakendur leita svara við spurningunni: ,,Hvernig getur þjónandi forysta verið drifkraftur brautryðjandans?”.
Snemmskráning fyrir 15. ágúst 2015: Þáttökugjald kr. 19.900
Skráning frá og með 15. ágúst 2015: Þátttökugjald kr. 24.900
Dagskrá:
kl. 10 – Opnun ráðstefnu
- Dr. Carolyn Crippen, Victoria University, Kanada
- Haraldur Líndal Pétursson, forstjóri Johan Rönning
- Kolfinna Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar
- Dr. Róbert Jack, heimspekingur
kl. 12 – Hádegishlé og samtal í hópum
- Dr. Kasper Edwalds, DTU Kaupmannahöfn
- Hildur Eir Bolladóttir, prestur Akureyri
- Einar Svansson, lektor Háskólanum á Bifröst
- Dr. Carolyn Crippen – ,,Begin with Listening”
kl. 15:30 – Lokaorð og ráðstefnuslit