„Að vera leiðtogi er að vera mannlegur“ – Erindi Steingerðar Kristjánsdóttur á Bifröst 31. október 2014

Á ráðstefnunni um þjónandi forystu á Bifröst 31. október nk mun Steingerður Kristjánsdóttir verkefnastjóri hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur fjalla um rannsókn sína um viðhorf stjórnenda í frístundastarfi barna og unglinga til stjórnunar og forystu . Erindi sínu lýsir Steingerður svo:

„Að vera leiðtogi er að vera mannlegur“ Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á viðhorf stjórnenda í frístundastarfi barna og unglinga til stjórnunar og forystu í starfi hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur (ÍTR). Í rannsókninni var stuðst við skilgreiningar á þjónandi forystu samkvæmt framsetningu Kent M. Keith og Dirk van Dierendonck. Rannsóknarspurningarnar voru tvær: Annars vegar var spurt hvort stjórnendur hjá ÍTR séu þjónandi leiðtogar og hins vegar, ef svo er, hvernig það birtist í störfum þeirra. Rannsóknin var eigindleg. Niðurstöður hennar gefa til kynna að stjórnendur frístundamiðstöðva ÍTR séu þjónandi leiðtogar. Meginstef og helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að stjórnendur vilja að starfsmenn hafi áhrif á starf sitt, að þeim sé treyst fyrir verkefnum og að allir starfsmenn hafi rödd þegar kemur að ákvarðanatöku. Samvinna, valddreifing, lýðræði og þátttaka starfsmanna er áberandi og stjórnendur vilja skapa starfsumhverfi sem er eflandi fyrir samstarfsfólk. Viðhorf þátttakenda gefur til kynna að þeir hafi hag af því að tileinka sér þjónandi forystu með markvissum hætti. Enn fremur gefur rannsóknin tilefni til frekari rannsókna meðal starfsmanna sem sinna faglegu frístundastarfi.

Rannsókn unnin til MS-gráðu í mannauðsstjórnun

Steingerður Kristjánsdóttir
Steingerður Kristjánsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ráðstefna á Bifröst 31.október 2014.

Aiglýsing final