Nýlokið er rannsókn um þjónandi forystu á öldrunarheimilum Akureyrarbæjar þar sem kannað var vægi þjónandi forystu samkvæmt mati starfsfólks og kannað hvort um væri að ræða tengsl á milli þjónandi forystu og líðan starfsfólks.
Rannsóknina vann Anna Rut Ingavdóttir sem lokaverkefni til meistaraprófs í mannauðsstjórnun við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Rannsóknin var unnin í samstarfi við mannauðsskrifstofu Akureyrarbæjar og leiðbeinandi var Dr. Sigrún Gunnarsdóttir dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst.
Ein af lykilniðurstöðum rannsóknarinnar er um martæk tengsl þjónandi forystu og minni einkenna um kulnun, þ.e. því sterkari einkenni þjónandi forystu sem komu fram þeim mun minni líkur voru á kulnun meðal starfsmanna.
Í ágripi rannsóknar segir m.a.
Niðurstöður sýna að starfsfólk öldrunarheimila Akureyrarbæjar upplifir næsta yfirmann sinn sýna frekar mikla þjónandi forystu. Meirihluti þátttakenda (70%) telja sig almennt nokkuð eða mjög ánægða í starfi, um 40-60% þátttakenda upplifa sjálfræði í starfi og svör 72% þátttakenda eru þannig að þeir sýna engin eða lítil merki um kulnun í starfi.
Marktæk tengsl mældust milli þjónandi forystu og allra þátta sem skoðaðir voru til að meta vellíðan í starfi og er það í takt við niðurstöður fyrri rannsókna. Niðurstöður gefa vísbendingar um að styðja þurfi enn frekar við starfsánægju og sjálfræði í starfi og að leggja áherslu á forvarnir kulnunar.
Líklegt má telja að heillavænlegt væri að mannauðsstjórnun öldrunarheimila Akureyrarbæjar notaðist við hugmyndafræði þjónandi forystu til að styðja við vellíðan starfsfólks með áherslu á að efla þá þætti sem sýndu jákvæð tengsl við vellíðan í þessari rannsókn.
Hér vísun í ritgerð Önnu Rutar á Skemmu: https://skemman.is/handle/1946/32982
Áhugavert er í þessu sambandi að minna á aðra rannsókn sem einnig fjallar um þjónandi forystu á vettvangi sveitarfélaga, þ.e. meistararitgerð Magneu Steinunnar Ingimundardóttur um vægi þjónandi forystu samkvæmt mati starfsfólks sveitarfélaga. Í rannsókn Magneu segir m.a.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að þjónandi forysta er til staðar í stjórnsýslu sveitarfélaga og að starfsmenn njóta sjálfræðis í starfi að einhverju leyti. Rannsóknin sýndi jafnframt martækna fylgni á milli heildarmælingar þjónandi forystu og sjálfræðis í starfi, sem er í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að þjónandi forysta er hugmyndafræði og leiðtogaaðferð sem ástæða er fyrir stjórnsýslu sveitarfélaga að skoða nánar til að stuðla að aukinni framþróun og nýsköpun í stjórnsýslu sveitarfélaga og er ástæða til að rannsaka þetta efni nánar.