Heiða Björg Ingólfsdóttir, leikskólakennari á Hulduheimum Akureyri mun fjalla um rannsókna sína um starfsumhverfi leiðbeinenda á leikskólum á ráðstefnunni um þjónandi forystu á Bifröst 31. október nk. Heiða Björg nefnir erindi sitt: Upplifun leiðbeinenda af starfsumhverfi sínu: „Maður bara gengur í verkin“ og lýsir því með þessum orðum:
Rannsóknin fjallar um stöðu leiðbeinenda í leikskólum og er er tilgangurinn að skýra sýn þeirra á starfsumhverfi sitt. Lögð var áhersla á að skoða hvernig þær kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda falla að starfsskilyrðum þeirra. Þar sem hlutverk leiðbeinenda í leikskólum er ekki skilgreint sérstaklega hér á landi skarast starfssvið leiðbeinenda og leikskólakennara umtalsvert í daglegu starfi. Því reynir á stjórnendur að finna jafnvægi svo ekki komi til hlutverkaágreinings. Byggt var á hugmyndafræði Roberts Greenleaf um þjónandi forystu. Eigindlegum rannsóknaraðferðum var beitt og gögnum safnað með hálfopnum einstaklingsviðtölum sem tekin voru í mars 2014. Rætt var við sex leiðbeinendur úr þremur leikskólum og höfðu allir a.m.k. 12 ára starfsreynslu. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa jákvæða mynd af stöðu leiðbeinenda. Nokkur munur var á því hvaða ábyrgð viðmælendum var falin þrátt fyrir að starfsaldur þeirra væri svipaður. Af rannsókninni að dæma þurfa skólar að bera saman bækur sínar og álykta um hverjar vinnuskyldur leiðbeinenda skuli vera. Greina mátti þjónandi forystuhætti þegar leiðbeinendur lýstu samskiptum inni á deild. Hinsvegar var misjafnt eftir aðstæðum hvort hægt væri að tala um þjónandi stjórnunarhætti hjá yfirstjórn leikskólanna. Velta má fyrir sér hvort þjónustulundin sem ríkti á deildum viðmælenda eigi sinn þátt í þessum langa og farsæla starfsferli þeirra.
Rannsókn unnin til meistaragráðu í menntavísindum
Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 31. október 2014. Upplýsingar og skráning á heimasíðu Þekkingarseturs um þjónandi forystu.