Sýn þriggja íslenskra leiðtoga á þjónandi forystu

Undanfarin ár hefur þekkingarsetur um þjónandi forystu verið í góðu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir um kennslu og ráðgjöf um hugmyndafræði og hagnýtingu þjónandi forystu. Jafnframt hafa fjölmargir stjórnendur og leiðtogar sótt ráðstefnur Þekkingarsetursins og nýtt fróðleik sem þar hefur komið fram og hugmyndir sem þar hafa skapast í samtali þátttakenda. Meðal þessara leiðtoga eru Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Bylgja Kærnested, hjúkrunardeildarstjóri og Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri. Hér fylgja nokkur orð þessara kvenna um sýn þeirra á þjónandi forystu:

Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu:

Allir opinberir starfsmenn eru þjónar almennings og það ber okkur sem störfum hjá hinu opinbera að hafa í huga í öllum okkar verkefnum. Það er auðvelt að fjarlægjast þetta grundvallarhlutverk í dagsins önn og því er mjög gott að geta leitað til Þekkingarseturs um þjónandi forystu til þess að minna sjálfan sig og samstarfsfólk sitt á mikilvægi þess að vera þjónandi en ekki síður á þá staðreynd að við gegnum ÖLL forystu bæði í starfi og einkalífi.

Bylgja Kærnested, hjúkrunardeildarstjóri, Hjartadeild 14-EG, Landspítala:

Það sem ég hef lært af lestri mínum og ráðstefnum um þjónandi forystu er að bestu leiðtogar eru þeir sem lýsa ljósinu á aðra, greiða götur þeirra og þeir fá að njóta sín. Ég hef það ávallt að leiðarljósi og líka það að taka sjálfan sig ekki of hátíðlega og koma fram við alla eins og ég vil að komið sé fram við mig. Ef ég væri ekki þjónandi leiðtogi þeirra sem vinna með mér og sjúklinga Landspítalans þá hefði ég litið að gera í því starfi sem ég er í dag. Þetta er það sem gerir daga mína í vinnunni gefandi og góða.

Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri, Velferðarráðuneyti:

Stjórnendur velferðarráðuneytisins óskuðu eftir sérstöku námskeiði í hugmyndafræði þjónandi forystu sem Sigrún Gunnarsdóttir hjá Þekkingarsetri um þjónandi forystu skipulagði og stýrði. Við erum mjög ánægð með námskeiðið og teljum að hugmyndafræði þjónandi forystu sé mjög góð og að sú þekking hafi eflt okkur sem stjórnendur. Einlægur áhugi á velferð annarra og vilji til að láta gott af sér leiða eins og kemur fram í hugmyndafræði þjónandi forystu er grundvallarþáttur okkar í velferðarráðuneytinu eins og kemur greinilega fram í gildum ráðneytisins sem eru virðing, fagmennska, framsýni og árangur.

thjonandi-forysta-logo