Dr. Kent M. Keith hefur lokið störfum við Greenleaf Center for Servant Leadership í Bandaríkjunum og tekur við starfi framkvæmdastjóra (CEO) Greenleaf Center for Servant Leadership Asia sem er staðsett í Singapore.
Kent er dyggur bakhjarl Þekkingarseturs um þjónandi forystu hér á landi (Greenleaf Center Iceland) sem er ein af fjórum miðstöðvum um þjónandi forystu sem starfa samkvæmt samningi og undir merkjum Greenleaf Center for Servant Leadership. Á heimasíðu samtakanna í Bandaríkjunum má lesa nánar um alþjóðlegt starf Greenleaf Center for Servant Leadership.
Kent M. Keith hélt erindi á fyrstu ráðstefnunni hér á landi um þjónandi forystu þann 20. júní 2008 og var erindi hans sérstaklega áhugavert og eftirminnilegt (ráðstefnuritið má nálgast hér).
Í mars 2010 kom Kent aftur hingað til lands og stýrði þá mjög fræðandi námsstefnu um þjónandi forystu og við það tilefni var undirritaður samningur um starf Þekkingarsetursins hér á landi (rit um námsstefnuna má nálgast hér).
Að lokinni námsstefnunni flutti Kent erindi í hátíðasal Háskóla Íslands. Var hvert sæti hátíðarsalarins skipað einstaklingum hvaðanæva úr samfélaginu og mæltist erindi Kent einkar vel fyrir.
Þekkingarsetur um þjónandi forystu hér á landi óskar Kent M Keith og fjölskyldu hans velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi með ósk um áframhaldandi gott og gefandi samstarf.