Lifandi námstefna og metaðsókn á fyrirlestur í Háskóla Íslands

Námstefnan með Kent M Keith helgina 5. til 7. mars gekk afar vel. Þátttakendur komu víða að og nutu kennslu og leiðsagnar Kents og rökræðu og samtals í vinnuhópum. Mikil ánægja var meðal þátttakenda sem starfa víðsvegar í samfélaginu, t.d sem stjórnendur í viðskiptalífinum, kennarar í framhaldskólum,  rannsakendur og kennarar í háskólum, prestar í þjónustu kirkjunnar, stjórnendur á sjúkrahúsum og leiðtogar í þjónustu sveitarfélaga. Fyrirlestrar Kents fjölluðu um inntak þjónandi forystu frá ýmsum sjónarhornum. Þátttakendur glímdu við verkefni og spurningar um eigin áherslur og viðhorf til grundvallarþátta þjónandi forystu; að þekkja sjálfan sig, hlusta af alúð, leiðbeina og laða fram orku og vitsmuni annarra, breyta píramídanum og horfa fram á veginn. Námstefnan undirstrikaði sannarlega gildi hugmyndafræðinnar og gildi hennar hér á landi.

Ljósmyndir frá námsstefnunni:

Fyrirlestur Kents í hátíðarsal Háskóla Íslands var mjög vel sóttur og setið í nær hverju sæti. Kent lýsti á lifandi og sannfærandi hátt hvernig þjónandi forystu eflir siðgæði fyrirtækja og glæðir störf og stjórnun þannig að tilgangur og merking starfanna eru í forgrunni og hafa djúp og jákvæð áhrif á líðan starfsfólks og árangur . Kent dró fram sterk rök fyrir því að með hugmyndafræði þjónandi forystu og aðferðum hennar vex árangur fyrirtækja. Velgengni fjölmargra fyrirtækja vitna um gildi þjónandi forystu fyrir rekstur og hagsmuni samfélagsins í heild.

1 thought on “Lifandi námstefna og metaðsókn á fyrirlestur í Háskóla Íslands”

Comments are closed.