Hulda Rafnsdóttir hjúkrunarfræðingur á FSA lauk nýlega rannsókn sinni til MS prófs í heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun í heilbrigðisþjónustu við Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. Rannsóknin ber heitið: Þjónandi forysta á hjúkrunarsviðum FSA. Starfsánægja, starfstengdir þættir og gæði þjónustu. Leiðbeinendur voru Dr. Sigrún Gunnarsdóttir og Dr. Ragnheiður Harpa Arnardóttir. Rannsóknin er liður í rannsóknarsamstarfi Þekkingarseturs um þjónandi forystu og Dr. Dirk van Dierendonck við Erasmusháskólann í Hollandi og við rannsóknina notað mælitæki hans um viðhorf til þjónandi forystu næsta yfirmanns (SLS).
Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort stjórnunarhættir með áherslum þjónandi forystu væru til staðar á hjúkrunarsviðum Sjúkrahússins á Akureyri (FSA) og að kanna afstöðu til starfsánægju, starfstengdra þátta og gæða þjónustu, og möguleg tengsl þar á milli. Þátttakendur voru hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og millistjórnendur á Sjúkrahúsinu á Akureyri haustið 2011 (n = 149).
Niðurstöður sýndu að þjónandi forysta einkennir stjórnun og forystu á hjúkrunarsviðum FSA allnokkuð og voru sterkustu þættirnir að mati þátttakenda ráðsmennska (e: stewardship), fyrirgefning, efling og ábyrgð. Starfsánægja mældist mikil og almennt voru þátttakendur ánægðir með gæði þjónustunnar. Undirþátturinn efling hafði sterkasta fylgni við starfsánægju. Marktæk fylgni var á milli eflingar og allra starfstengda þátta, vinnuaðstöðu og möguleika á stöðuhækkun. Nokkur fylgni var á milli þjónandi forystu og mats starfsfólks á öryggi skjólstæðinga. Niðurstöður styðja niðurstöður fyrri rannsókna um að hugmyndafræði þjónandi forystu efli stuðning við starfsfólk, sameiginlega ákvarðanatöku, gott vinnuumhverfi og upplýsingaflæði, sem síðan auki starfsánægju og hæfni starfsfólks til að stuðla að gæðum og öryggi í heilbrigðisþjónustunni.
Hulda hefur kynnt rannsókn sína á vettvangi Sjúkrahússins á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Þekkingarseturs um þjónandi forystu. Rannsókn Huldu má nálgast hér (pdf).