Nýlega lauk Steinar Örn Stefánsson meistararitgerð sinni frá Háskólanum á Bifröst. Ritgerðin ber heitið: Þjónandi forysta og starfsánægja í nýsköpunarfyrirtækjum. Tilgangur rannsóknarinnar var að leggja mat á vægi þjónandi forystu innan íslenskra nýsköpunarfyrirtækja og kanna hversu ánægðir starfsmenn þeirra væru í starfi. Einnig var rannsakað hvort tengsl væru annars vegar á milli þjónandi forystu og starfsánægju og hins vegar á milli þjónandi forystu og bakgrunns starfsmanna.
Í ritgerðinni segir um aðferðir og niðurstöður rannsóknarinnar: ,,Spurningakönnun var lögð fyrir starfsmenn fjölbreyttra nýsköpunarfyrirtækja og alls svöruðu 107 manns. Mat var lagt á þjónandi forysta var með mælitækinu Servant Leadership Survey sem byggist á 30 atriða spurningalista og mælir einnig undirþætti þjónandi forystu. Niðurstöður benda til þess að vægi þjónandi forystu í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum sé talsvert eða 4,3 á kvarða frá einum og upp í sex. Starfsánægja var einnig mikil en rúmleg 80% þátttakenda voru ánægðir eða mjög ánægðir í starfi. Þá sýna niðurstöður einnig að mikil marktæk fylgni er á milli heildarmælingar þjónandi forystu og starfsánægju auk þess sem marktæk fylgni er milli sjö af átta undirþáttum þjónanadi forystu og starfsánægju. Niðurstöður gefa til kynna að þjónandi forysta hafi jákvæð áhrif á starfsánægju og ástæða sé til þess að auka vægi hennar hjá íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum.”
Hér er ritgerð Steinars á pdf formi
Leiðbeinandi ritgerðarinnar var Sigrún Gunnarsdóttir og prófdómari við meistaravörn Steinars var Róbert Jack.
Steinari eru færðar innilegar hamingjuóskir í tilefni áfangans.