Félagsþjónustuna í Árborg og Þekkingarsetur um þjónandi forystu hafa undanfarin misseri verið í samstarfi um fræðslu og innleiðingu á þjónandi forystu. Markmiðið er að styðja starfsmenn við að kynna sér hugmyndafræði þjónandi forystu og að nýta hana í starfi.
Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, félagsmálastjóri lýsir verkefninu með þessum orðum:
Félagsþjónustan í Árborg heillaðist af hugmyndafræði Þjónandi forystu og ákvað í samráði við Sigrúnu Gunnarsdóttur að fá heilsdags námskeið fyrir forstöðumenn og sérfræðinga hennar. Hjá félagsþjónustu Árborgar starfa rúmlega 100 starfsmenn og til að festa í sessi fræðin þá var ákveðið að þeir 23 starfsmenn sem sátu námskeiðið myndu skiptast í 4 leshópa. Hópstjórar hittust og samræmdu efni og efnistök. Hóparnir hittust 3-4 sinnum þar sem hugmyndafræðin var mátuð við þá deild sem viðkomandi starfsmenn störfuðu og eins sveitarfélagið í heild. Stefnt er að því að halda sameiginlegan fund með þeim sem sóttu námskeiðið og finna sameiginlega gildi félagsþjónustunnar. Næstu skref eru að fleiri starfsmenn fái fræðslu svo við séum öll meðvituð um hugmyndafræði þjónandi forystu. Þeir starfsmenn sem fóru á fræðsluna hafa nýtt sér hugmyndafræðina inn í starf sitt en meðal verkefna hjá okkur er að bæta verklagsreglur svo allir viti hvert við erum að stefna og við göngum í takt. Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem hentar vel hjá félagsþjónustunni og við erum mjög ánægð með að vera innleiða hana í starf okkar.
Innleiðing þjónandi forystu byggir á samtali og þekkingarleit hvers og eins. Vitun og sjálfsþekking er grundvallaratriði. Byrjunarreiturinn er einlægur áhugi á hugmyndum og hagsmunum annarra og vilji til að þjóna. Robert Greenleaf frumkvöðull þjónandi forystu lagði höfuðáherslu á hlustun og samtal. Leiðtoginn hefur skarpa sýn á hugsjónina og skapar samtal um tilgang og framtíðarsýn. Segja má að samtal um tilgang starfa sé birtingarmynd þjónandi forystu og samtalið er líka leið til að innleiða þjónandi forystu.
Þjónandi leiðtogi er í fyrsta lagi þjónn. … Það byrjar með eðlislægri tilfinningu um að vilja þjóna, að þjóna fyrst. Síðar leiðir meðvituð ákvörðun viðkomandi til forystu. Slíkur einstaklingur er ólíkur þeim sem er fyrst leiðtogi, líklega vegna takmarkaðrar löngunar til valda og efnislegra gæða. …Munurinn felst í því að þjónninn leitast við að mæta helstu þörfum þeirra sem hann þjónar. Besti prófsteinninn á þetta, og jafnframt sá þyngsti er: Vaxa þau sem er þjónað sem einstaklingar? Verða þau heilsuhraustari? Fá þau meiri visku, frelsi og sjálfstæði? Verða þau sjálf líklegri til að vera þjónar? Og jafnframt, munu þau sem minnst mega sín í samfélaginu njóta góðs af, eða að minnsta kosti, ekki verða fyrir meira ójafnræði? (Greenleaf 1970 / 2008, bls. 15).