Framtíðarsýn þjónandi leiðtoga

Eitt af aðaleinkennum þjónandi leiðtoga er skörp sýn á hugsjón og framtíðina og Greenleaf (1970) bendir á að hæfileiki til að sjá fram á veginn skapi raunverulegt forskot leiðtogans til forystu. Framtíðarsýn er forystuhluti þjónandi forystu.

1) Gildismat og tilgangur. Framtíðarsýn þjónandi leiðtoga felur í sér gildismat sem byggir á innri löngun til að láta gott af sér leiða, að sjá fram á veginn og að leggja sitt af mörkum til að skapa bjarta framtíð fyrir einstaklinga, fyrirtæki, félög eða samfélag.

2) Framtíðarsýnin tengist eiginlægum áhuga á þörfum annarra og einbeittum áhuga á ná markmiðum starfsins og þar með tilgangi verkefnanna. Framtíðarsýn leiðtogans snýst einnig um ábyrgðina sem hann ber og má skoða í ljósi samfélagslegrar ábyrgðar.

3) Samfélagsleg ábyrgð. Gildi framtíðarsýnar í þjónandi forystu varpar þannig ljósi á siðferðilega og samfélagslega ábyrgð og undirstrikar að í þjónandi forystu eru lögð áhersla á langtímamarkmið ekki síður en skammatímamarkmið (Greenleaf, 1972).

4) Framtíðarsýn og tilfinning fyrir tilgangi skerpist með næmri vitund og góðu innsæi. Verkefni leiðtogans er að miðla framtíðarsýninni til samferðafólks og virkja það til skapandi hugsunar til að skerpa hina sameiginlegu sýn og hinn sameiginlega draum.

5) Sameiginlegur draumur og von. Greenleaf (1978) benti á að framtíðarsýn og sameiginlegur draumur sameini fólk og sé mikilvæg til að safna fólki saman um sameiginlega von.

6) Hlutverk leiðtogans er að glæða samtal um tilgang verkefnanna og að hvetja samstarfsfólk sitt til að skapa fleiri hugmyndir og fleiri drauma og gefa þannig öllum tækifæri til að verða leiðtogar framtíðarsýnar, hugsjóna og drauma. Þjónandi leiðtogi eflir gagnrýna og uppbyggilega umræðu, hvetur fólk til að skiptast á skoðunum, ræða ágreining og stilla saman strengi um sameiginlega sýn á verkefni, tilgang og framtíð.

7) Innri starfshvöt. Áherslur Greenleaf á framtíðarsýn (1970; 1978) tengjast kenningu Fredrick Herzberg um innri starfshvöt (1987) sem byggir á því að starfsfólk vaxi og dafni með því að njóta eigin hæfileika og að hafa vitund um tilgang starfa sinna. Innri starfshvöt er drifkraftur hins góða starfs og um leið árangurs.

8) Framtíðarsýn snýst um vitund um kjarna málsins, hugsjón og tilgang starfanna sem er uppspretta starfsgleði. Herzberg benti á að innri starfshvöt verður til vegna starfsins sjálfs og löngunar til að vaxa og þroskast, vera virt/ur, bera ábyrgð, hafa áhrif og ná árangri. Hér sést samhljómurinn við grunnstef þjónandi forystu um einlægan áhuga á þörfum og hagsmunum annarra (Greenleaf, 2008). Herzberg (1987) sýndi fram á að innri starfshvöt væri mikilvægasti þátturinn til að skapa starfsgleði og styrktist með þekkingu, frelsi, góðum samskiptum og stuðningi stjórnenda. Hér má aftur sjá tengslin við þjónandi forystu þar sem sjálfsþekking  og vitundum um tilgang starfsins og hugsjón eru lykilþættir.

Foresight – Vision – Values – Intrinsic motivation – Robert Greenleaf

Regnbogi-2