Er þjónandi forysta ákjósanleg aðferði í háskóla? Ný rannsóknargrein um þjónandi forystu í Háskóla Íslands veitir áhugaverða innsýn í starfsumhverfi háskóla.
Í útdrætti segir m.a. ,,Vægi þjónandi forystu í Háskóla Íslands reyndist nokkru lægra en meðal grunnskólakennara hér á landi (4,64) og á Sjúkrahúsinu á Akureyri (4,33) en jafnhátt og á bráðamóttökum Landspítala (4,19). Marktæk tengsl þjónandi forystu og starfsánægju staðfestir sömu tengsl í bandarískum háskólum og á annars konar stofnunum hér á landi. Niðurstöður benda til þess að þjónandi forysta, ekki síst efling og hugrekki stjórnenda, sé árangursrík leið til að auka starfsánægju og geti stutt við jafningjastjórnun, sjálfstæði starfsmanna og samfélagslegt hlutverk Háskóla Íslands.
Í ályktun greinarinnar segir m.a. ,,Í ljósi þess að jafningjahugsun og sjálfstæði starfsmanna eru leiðarstef bæði í akademísku starfi og þjónandi forystu er e.t.v. ástæða til að velta fyrir sér útfærslu jafningjastjórnunar og hvaða kröfur jafningjastjórnun geri til einstaklinganna um samskipti formlegs yfirmanns og undirmanns og milli jafnstæðra kollega. Fram kemur hjá Mintzberg (1983) að jafningjastjórnun njóti ekki alltaf skilnings og að þær stofnanir þar sem jafningjastjórnun er viðhöfð sæti gjarnan þrýstingi um að taka upp aðra stjórnhætti, t.d. stöðlun verka eða beina umsjón yfirmanns. Tillaga höfunda er að þjónandi forysta sé ákjósanleg hugmyndafræði í háskóla enda leggi hún skýrar línur virðingar og uppbyggilegra samskipta um útfærslu jafningjastjórnunar. Í grundvallaratriðum gengur þjónandi forysta út á að leiðtoginn sé þjónn starfsfólksins og „sé til gagns“ eins og Autrey (2001) orðar það og að allir séu á sinn hátt, eða eigi að vera, leiðtogar, óháð starfstitli og stöðu. Þjónandi forysta gerir ráð fyrir samvinnu með uppbyggilegum og gefandi samskiptum sem allir hagnast af og þekkjast af einlægum áhuga á öðrum, sjálfsþekkingu og skýrri sýn á hugsjón starfa (Sigrún Gunnarsdóttir, 2011).”
Höfundar eru Guðjón Ingi Guðjónsson og Sigrún Gunnarsdóttir.