Þjónandi forysta í félagsmálum – Erindi Gunnars Svanlaugssonar á ráðstefnunni á Bifröst 31. október

Gunnar Svanlaugsson, formaður kkd. Snæfells Stykkishólmi mun fjalla um þjónandi forystu í félagsmálum á ráðstefnunni um þjónandi forystu á Bifröst 31. október nk. Erindinu Gunnars er lýst með þessum orðum:

Allir hafa skoðun á gæðum umhverfis síns, hvort sem litið er til samfélagsins í stóru eða smáu samhengi. Í fyrirlestri Gunnars verður fjallað um gæði samfélags og m.a. fjallað um ástæður þess hvar fólk velur að búa sér og fjölskyldu sinni heimili og hvort að tækifæri til þátttöku í félagsstörfum hafi þýðingu við slíka ákvarðanatöku einstaklinga og fjölskyldna. Að fenginni þeirri niðurstöðu að tækifæri til þátttöku í félagsstörfum auki gæði samfélags mun Gunnar fjalla um hvernig hver og einn þátttakandi í samfélagi hefur þau forréttindi að fá að móta nærsamfélag sitt í gegnum félagsstörf. Í því samhengi verður fjallað um hvernig hlúa megi betur að félagsstörfum með því að beita þjónandi forystu og hvernig virkja megi aðra til slíkrar þátttöku. Rakin verða dæmi þess hvernig hægt er að nýta áherslur þjónandi forystu í félagsstörfum og hvort og þá hvaða árangur náist með þjónandi forystu í slíkum störfum.

Gunnar Svanlaugsson er skólastjóri Grunnskólans í Stykkishólmi og hefur gegnt formennsku körfuknattleiksdeildar Umfélagsins Snæfells frá árinu 2009.

Gunnar Svanlaugsson
Gunnar Svanlaugsson