Fuglarnir (Þjónandi forysta branding)

Hinn þjónandi leiðtogi sem ráðsmaður

Í Servant as Leader (1970) kemur fram að Greenleaf setur hugmyndir sínar um forystu á blað á nokkuð ólíkum forsendum en aðrir höfundar á sviði forystufræða. Greenleaf tekur skýrt fram að hann bjóði hugmyndir sínar fram sem leið til að bæta samfélagið. Greenleaf segir stofnanir samfélagsins ítrekað bregðast væntingum fólks og hann leit þannig á að ástæður þess væru að forstöðumenn stofnana og fyrirtækja beittu ekki réttum aðferðum. Það yrði samfélaginu því til mikilla bóta ef stjórnunarhættir ábyrgðarmanna yrðu heilbrigðari (Greenleaf, 1970; Greenleaf, 1972).

Með framlagi sínu vildi Greenleaf ráðast á mun fleiri meinsemdir í samfélaginu en lélega stjórnunarhætti í fyrirtækjum, þar á meðal umhverfisspjöll, fátækt, aðskilnaðarkennd, mismunun og tilhneiginguna til að heyja vanhugsuð og siðferðilega röng stríð (Greenleaf, 1970). Hugmyndafræði þjónandi forystu hefur samkvæmt þessu víðari samfélagslega skírskotun en gengur og gerist um kenningar í leiðtogafræðum.

Ýmsir fræðimenn hafa kosið að nota hugtakið „ráðsmennska“ (steward) til að lýsa þessum þætti þjónandi forystu. Orðið var á miðöldum notað um æðsta þjón í starfsliði lénsherrans, þann sem annaðist herragarðinn eða landareignina í fjarveru hans. Ráðsmaður er með öðrum orðum sá sem gætir verðmætis og annast það fyrir eiganda þess. Í samhengi fyrirtækja og stofnana er hugsunin sú að leiðtoginn sé ráðsmaður sem gæti stofnunarinnar fyrir samfélagið. Stjórnendur, stjórn og starfsfólk stofnunar hafa öll mikilvægu hlutverki að gegna við að annast stofnunina með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi (Spears, 1998). Leiðtoginn leggur sitt af mörkum til þess að stofnunin láti gott af sér leiða fyrir samfélagið vegna þess að grunngildi hans knýja hann til að taka ábyrgð á velferð samfélagsins og til að tryggja að ákvarðanir og stefnumörkun endurspegli vilja til að bæta samfélagið (Barbuto og Wheeler, 2006). Ráðsmennska er náskyld samfélagslegri ábyrgð. Í ráðsmennsku felst viljinn til að bera ábyrgð á stofnuninni í heild sinni og velja þjónustu í stað stjórnunar og eiginhagsmuna (van Dierendonck og Nuijten, 2011).

Fuglarnir (Þjónandi forysta branding)
Þjónandi forysta

Heimildir:
– Robert K. Greenleaf: The Servant as Leader (1970)
– Robert K. Greenleaf: The Institution as Servant (1972)
– Larry C. Spears (1998): The Power of Servant Leadership (inngangskafli ritstjóra á bls. 1-15).
– John E. Barbuto og Daniel W. Wheeler (2006): Scale Development and Construct Clarification of Servant Leadership. Group & Organization Management 31 (3), 300-326.
– Dirk van Dierendonck og Inge Nuijten (2011): The Servant Leadership Survey: Development and Validation of Multidimensional Measure. Journal of Business and Psychology, 26 (3), 249-267.