Ann McGee-Cooper og Robert K. Greenleaf

Þrír hornsteinar ábyrgðarskyldu: Sameiginleg forysta, sameiginleg sýn og uppbyggileg afstaða til breytinga. Ann McGee og Duane Trammell (2009)

Sumir fræðimenn hafa litið svo á að ábyrgðarskylda (e. accountability) sé meðal megineinkenna þjónandi forystu (Sipe og frick, 2009; van Dierendonck og Nuijten, 2011). Í mjög athyglisverðri grein eftir Ann McGee-Cooper og Duane Trammell (2009) útskýra þau hvað ábyrgðarskylda merkir og hver vegna hún er svo mikilvæg fyrir þjónandi forystu. Segja má að ábyrgðarskylda sé það sem geri þjónandi forystu að því sem hún er.

MacGee-Cooper og Trammell leggja áherslu á að ábyrgðarskylda þjónandi forystu gangi í báðar áttir, setji bæði yfirmanni og undirmanni mörk og að hvor um sig beri ábyrgð gagnvart hinum. Hornsteinar þessarar hugmyndar eru 1) sameiginleg forysta, 2) sameiginleg sýn og 3) uppbyggileg afstaða til breytinga.

Sameiginleg forysta: Hugmyndin er að sérhver starfsmaður bæði veiti og þiggi forystu. Hver og einn tekur fulla ábyrgð á því sem hann þekkir best, hæfileikum sínum og sjónarmiðum. Um leið ber sá hinn sami fulla virðingu fyrir hæfileikum og sjónarmiðum hinna og hefur þau hugföst. Þar sem einstaklingar aftur á móti keppa sín í milli um hver hefur rétt fyrir sér og hver ræður ferðinni, verður samanlögð andleg geta hópsins minni en andleg geta þess lakasta í hópnum. Hinir „skarpari“ koma síður að gagni þegar þeir keppa við hver annan í valdabaráttunni en aðrir láta lítið fyrir sér fara vegna áhættunnar sem felst í að viðra skoðun sína. Í upplýsingum felast áhrif og valdabaráttan birtist í því að fólk situr á upplýsingum í stað þess að deila þeim með hópnum til að auðga og bæta starfið. Þar sem hins vegar fólk kann að tala saman, hver og einn tekur ábyrgð á sínu en tekur jafnframt tillit til framlags hinna, verður samanlögð andleg geta hópsins meiri en andleg geta þess skarpasta í hópnum.
Til þess að sameiginleg forysta gangi upp er mjög mikilvægt að gagnkvæmt traust sé til staðar. Aldrei má líta svo á að ein persóna, hópur eða eining sé mikilvægari en önnur. Aðstæður geta breyst og sérhver einstaklingur getur hvenær sem er þurft að taka forystu á því sviði sem hann þekkir best til. Um leið þarf hver og einn að vera þjónn allra hinna, slípa samstarfið og veita stuðning á þeim sviðum þar sem aðrir þekkja betur til og eru í forystu.

Sameiginleg sýn: Skuldbinding við málstað sem veitir innblástur styrkir mann bæði andlega og líkamlega. Hins vegar er mikilvægt að hin sameiginlega sýn sé grundvölluð á því að hver og einn þátttakandi hafi sýna eigin persónulegu sýn áður en hann gengst við hinni sameiginlegu sýn. Hætt er við því að þátttakendur sem ekki hafa hafa skilgreint sína eigin persónulegu sýn og skortir skýra sjálfsmynd og tilgang, verði ósjálfstæðir þiggjendur, og að hópurinn, með sína sannfærandi sameiginlegu sýn, taki forystuna fyrir þá. Þegar hver og einn hefur skýra persónulega sýn og hefur mátað hana farsællega við hinn sameiginlega tilgang, verður sú samblöndun mikilsverður hvati og orkulind.

Uppbyggileg afstaða til breytinga: Flest fögnum við innihaldsríkum áskorunum, ekki síst ef þær eru í samræmi við aukna getu og hæfni og ef við njótum stuðnings hjá góðu samstarfsfólki. Það er mun erfiðara að skila árangri án hjálpar og það getur reynst dýrkeypt að uppgötva takmörk sín of seint. Ef við göngum markvisst til samstarfs við fólk sem er ólíkt okkur, hefur aðra styrkleika og veikleika en við sjálf, fáum við ómetanleg tækifæri til að breytast og vaxa. Í dag er svo komið að sá sem breytist ekki dregst aftur úr sem bæði er erfitt og skaðlegt. Ef við, sem leiðtogar, veitum fólkinu sem við þjónum, ekki stöðug tækifæri til að vaxa og breytast, völdum við því skaða. Með því bregðumst við trausti þeirra sem við veitum forystu – þeim sem við þjónum.

Ann McGee-Cooper og Robert K. Greenleaf
Ann McGee-Cooper og Robert K. Greenleaf

 

 

 

Ann McGee-Cooper og Robert K. Greenleaf sem unnu saman um árabil.

 

 

 

Heimild:
Ann McGee-Cooper og Duane Trammell (2009): Accountability as Covenant: The Taproot of Servant Leadership.

Ann McGee-Cooper, Ed.D, og Duane Trammell, M.Ed., hafa rekið saman ráðgjafarfyrirtæki í þrjá áratugi (Ann McGee-Cooper & Associates – AMCA) og sérhæfa sig í þjónandi forystu. Sjá www.amca.com.