Fyrsta fræðilega líkanið um þjónandi forystu – Farling, Stone og Winston (1999)

Eftir að Larry C. Spears, þáverandi forstöðumaður Greenleaf-setursins í Bandaríkjunum, setti fram sín tíu einkenni þjónandi forystu (sjá færslu hér frá 22. júlí) leið ekki á löngu þar til háskólafólk tók að huga að fræðilegu líkani um þjónandi forystu. Á bak við það fyrsta voru rannsakendur við kristilega Regent-háskólann í Virginíu; Myra L. Farling, doktorsnemi, A. Gregory Stone lektor við viðskiptafræðideild skólans og Bruce E. Winston, dósent við sömu deild. Í grein sinni í Journal of Leadership Studies frá 1999 vekja þau máls á því að þjónandi forysta hlyti sífellt meiri athygli en hins vegar vantaði á þeim tíma empirískar rannsóknir til að styðja hugmyndafræðina og þær dæmisögur eða tilvik sem gjarnan voru notuð til að útskýra hana. Settu höfundar því fram líkan um þjónandi forystu sem gæti orðið grunnur að rannsóknum í framtíðinni. Síðar komu til fleiri líkön og loks mælitæki sem meta að hvaða leyti þjónandi forysta er viðhöfð á tilteknum vinnustöðum en ekkert þeirra byggir reyndar á líkani Farling, Stone og Winston. Engu að síður er áhugavert að sjá hvaða þættir urðu fyrir valinu hjá þessum fræðimönnum í árdaga vísindastarfs á sviði þjónandi forystu. Var það mat þeirra að í fyrirliggjandi skrifum um þjónandi forystu væri helst að finna eftirfarandi fimm breytur:

1) Sýn (e. vision). Getan til að þekkja hið óþekkta eða sjá hið ósýnilega.
2) Áhrif (e. influence). Áhrif leiðtogans á samstarfsfólk, m.a. með “sannfæringu” sem samskiptaaðferð.
3) Trúverðugleiki (e. credibility). Getur m.a. falist í því að sýna hæfni og bæta færni sína, skerpa á sameiginlegum gildum, vekja von, vanda samskipti og sýna siðferðilega rétta breytni.
4) Traust (e. trust). Lykilatriði í mannlegum samskiptum. Leiðir af umhyggju fyrir öðrum, áreiðanleika, trúverðugleika, hreinskilni og hæfni.
5) Þjónusta (e. service). Æðri hvöt leiðtogans til að þjóna öðrum og jafnvel samfélaginu öllu.

Athyglisvert er að Farling, Stone og Winston telja svo mikil líkindi milli þjónandi forystu og umbryetingaforystu (e. transformational leadership) að þau kenna líkanið bæði við þjónustu og umbreytingu (e. servant leader-follower transformational model). Þau ganga út frá því að þjónandi forysta sé afbrigði af umbreytingaforystu enda hafi hvort um sig það fyrst að leiðarljósi að styrkja bæði leiðtogann og þá sem fylgja honum.* Þau telja að fjórir þáttanna hér að ofan tengist þannig að eitt leiði af öðru í óendanlegum spíral; sýn leiðtogans leiði af sér trúverðugleika, sem leiði til trausts sem leiði til þjónustu sem aftur leiði af sér sýn og svo koll af kolli. Hins vegar er þátturinn áhrif í þessu samhengi til þess að skýra sambandið milli hinna þáttanna fimm, þ.e. hvernig einn hefur áhrif á þann næsta.

Heimild: Farling, M.L., Stone, G.A. og Winston, B.E. (1999). Servant Leadership: Setting the Stage for Empirical Research. The Journal of Leadership Studies, 6 (1), bls. 49-72.

*Lítill stuðningur hefur verið við þetta sjónarmið í seinni tíð. Sjá sérstaklega Prosser (2010), Servant Leadership: More Philosophy, Less Theory. Sjá einnig Stone, Russel og Patterson (2003), Smith, Montagno og Kuzmenko (2004) og Guðjón Ingi Guðjónsson (2012).