The Servant Leader (2001) eftir James A. Autry

Fimm hættir hins þjónandi leiðtoga skv. James A. Autry

James A. Autry er sérfræðingur á sviði forystu og rekstrar og hefur á löngum starfsferli unnið sem ráðgjafi, þjálfari og fyrirlesari auk þess að fást við  tímaritaútgáfu en hann var m.a.  forstjóri tímaritahluta Meredith-samsteypunnar og ritstjóri Better Homes and Gardens. Hann hefur gefið út fjölda bóka, þ. á m. Love and Profit: The Art of Caring Leadership (1992) sem þýdd var á sex tungumál og vann til Johnson, Smith og Knisely verðlaunanna sem sú bók þess árs sem mest áhrif hafði á hugsunarhátt forstjóra. Á fyrstu ráðstefnu Þekkingarseturs um þjónandi forystu sem haldin var í Skálholti sumarið 2008 flutti Autry fyrirlestur um þjónandi forystu.

Árið 2001 gaf Autry út bókina The Servant Leader þar sem hann útskýrir hugmyndina á bak við þjónandi forystu og hvernig maður getur haldið tryggð við hana bæði í daglegum rekstri og í langtímastefnumótun. Til þess að verða þjónandi leiðtogi segir Autry að maður verði að tileinka sér fimm hætti sem hann lýsir með eftirfarandi boðum:

1) Vertu falslaus. Vertu sá/sú sem þú ert. Vertu sama manneskjan í öllum kringumstæðum. Haltu þig við sömu gildi, sama hvaða hlutverki þú ert í. Krefst sjálfsþekkingar. Ef maður er sannarlega falslaus er maður líka berskjaldaður …

2) Vertu berskjaldaður/berskjölduð. Snýst um að þora að tjá áhyggjur vegna áætlunar eða frammistöðu starfsmanns eða eigin frammistöðu og að geta viðurkennt mistök, sérstaklega gagnvart starfsfólki. Krefst hugrekkis. Tengist samkennd, getunni til að setja sjálfa(n) sig í fótspor annarra, að skoða tilveruna frá sjónarhóli annarra og þess vegna er mikilvægt að vera opin(n) …

3) Vertu opin(n). Snýst ekki um að samþykkja allar hugmyndir án gagnrýni og greiningar, heldur að taka allar hugmyndir til skoðunar og umræðu og að einbeita sér að hugmyndunum sjálfum en ekki einstaklingnum sem færði þær fram. Snýst einnig um að umbera og reyndar fagna ágreiningi sem eðlilegum og mannlegum hluta alls samstarfs. Maður getur bara verið opinn ef maður getur verið til staðar …

4) Vertu til staðar. Snýst um að vera fullkomlega tiltæk(ur) allar stundir, bæði gagnvart sjálfum sér í þeirri viðleitni að veita eigin gildum pláss í þeim verkefnum sem liggja fyrir og gagnvart öðrum í viðbrögðum við vandamálum og áskorunum samstarfsfólks, yfirmanna, undirmanna og viðskiptavina. Þá er bara eitt sem vantar …

5) Vertu til gagns. Í því felst kjarni málsins – að þjóna öðrum. Frumskylda yfirmannsins/leiðtogans er að hver starfsmaður hafi það sem hann þarf til að vinna sín verk.

The Servant Leader (2001) eftir James A. Autry
The Servant Leader (2001) eftir James A. Autry

Heimildir:

James A. Autry: The servant leader. How to build a creative team, develop great morale, and improve bottom-line Performance. Three Rivers Press, New York, 2001.

http://www.jamesaautry.com/