Síðastliðið haust varð að veruleika langþráður draumur um þjónandi forystu um sérhæft meistaranám í þjónandi forystu við Háskólann á Bifröst í samvinnu við Þekkingarsetur um þjónandi foyrstu. Þjónandi forysta hefur verið kennd við skólann frá árinu 2013 og nú þegar fyrsti hópurinn er að ljúka fyrri hluta námsins er fróðlegt að heyra af reynslu nemenda.
Ég var fljótur að ákveða þá að vilja vera partur af þessum hópi.
Bragi Jónsson er í fyrsta hópnum sem hóf nám síðastliðið haust. Bragi er rekstrarstjóri Leigumarkaðar BYKO og hefur starfað hjá því fyrirtæki í 17 ár bæði samhliða námi og í fullu starfi á ýmsum sviðum fyrirtækisins. ,,Ástæða þess að ég skráði mig í nám á Bifröst er sú að ég vildi styrkja mig í mínu hlutverki sem stjórnandi og leist vel á geta stundað námið í fjarnámi samhliða vinnu. Í fyrstu skráði ég enga áherslu en las um þessa nýju áherslulínu sem í boði var og ætlaði að ákveða mig um leið og ég vissi meira um hvað þetta væri. Á nýnemadeginum hittist hópurinn sem var að hefja nám með áherslu á þjónandi forystu og ég var fljótur að ákveða þá að vilja vera partur af þessum hópi. Námið hefur ekki valdið vonbrigðum, þvert á móti hefur þetta verið einstaklega skemmtilegt og gagnlegt nám og ég hlakka til að takast á við síðari hluta námsins.
Vinnuhelgar eru frábærar og skapast oft mjög skemmtilegar umræður
Bragi hefur verið ánægður með námið, nemendahópurinn er mjög samheldinn og nemendur koma úr ólíkum áttum með mismunandi reynslu og þekkingu. Bragi segir námsefnið áhugavert og fyrirkomulagið gott. ,,Verkefnin sem lögð eru fyrir eru áhugaverð og reyna bæði á þekkingu nemenda á fræðunum og einnig er sífellt verið að reyna á nemendur við að tengja við raunveruleikann og er jafnvægið mjög gott. Sigrún Gunnarsdóttir stýrir náminu með miklum eldmóð og áhuga og smitar mjög auðveldlega út frá sér áhuga sínum á viðfangsefninu. Vinnuhelgar eru frábærar þar sem hópurinn hittist og skapast oft mjög skemmtilegar umræður um námsefnið og tengt er við málefni líðandi stundar, einnig koma skemmtilegir gestafyrirlesarar eins og t.d. Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari sem var með frábært erindi í febrúar síðastliðinn.“
Skapa þessa sameiginlegu framtíðarsýn þar sem einhver heillandi tilgangur sameinar liðsheildina í að ná settu marki
Bragi segir að fyrir hann sem stjórnanda sé margt mjög áhugavert í náminu um þjónandi forystu. ,,Fyrir mig sem stjórnanda er það sérstaklega gaman að fá að prufa mig áfram með ýmsar áherslur fræðanna í mínu starfi og sjá hvað virkar og hvað þarf að hugsa betur. Þessi skýra sýn á starfsfólkið framar öllu og þessi skylda leiðtogans að sjá til framtíðar og skapa þessa sameiginlegu framtíðarsýn þar sem einhver heillandi tilgangur sameinar liðsheildina í að ná settu marki.
Með því að hlusta er maður að sýna fólki virðingu og því finnst það skipta máli.
Með náminu á Bifröst hefur Bragi fengið enn betri skilning á því hve góð samskipi skapa mikinn árangur og orku. ,,Krafturinn sem felst í því að hlusta á fólk, það að gefa fólki 100% athygli án þess að leyfa einhverju að trufla það er svo rosalega kraftmikið og maður finnur hvað fólk kann að meta það þegar maður hlustar. Það þarf ekki alltaf að vera samþykkur því sem fólk er að segja við mann en með því að hlusta er maður að sýna fólki virðingu og því finnst það skipta máli.
Kafað er djúpt í fræðin og á sama tíma er sífellt verið að tengja við raunveruleikann og þess gætt að finna hagnýtinguna í bland við fræðin
Bragi segir að meistarnámið í þjónandi forystu sé áhugavert og gagnlegt fyrir daglegt líf bæði í vinnunni og heima. Það sé ánægjulegt að kafa ofan í rannsóknir sem sýna að með auknum áherslum þjónandi forystu í stjórnun fylgir meiri starfsánægja og bætt rekstrarafkoma. ,,Umfram allt eru þetta áhugaverð fræði sem hafa mikla tengingu við nútímann. Í náminu felst að til viðbótar við hefðbundna skylduáfanga eru teknir þrír áfangar í þjónandi forystu þar sem kafað er djúpt í fræðin og á sama tíma er sífellt verið að tengja við raunveruleikann og þess gætt að finna hagnýtinguna í bland við fræðin. Þjónandi forysta er heildstæð nálgun á stjórnun sem tvinnar saman á skemmtilegan hátt hin ólíku orð þjónn og forysta. Byggt er á þriggja þátta líkani Sigrúnar Gunnarsdóttur á hugmyndum Robert K. Greenleaf þar sem þjónustuhlutinn snýr að sjálfsþekkingu og einlægum áhuga á öðrum annars vegar, síðan er forystuhlutinn sem snýr að framtíðarsýninni og tilgangnum hins vegar.
Mun vonandi rannsaka eitthvað áhugavert viðfangsefni með tengingu við íslenskt atvinnulíf
Um þessar mundir er Bragi að hefja undirbúning seinni hluta námsins og undirbýr að skrifa meistararitgerð: ,,Sjálfur hafði ég hugsað að taka frekar MLM gráðu (semsagt að skrifa ekki ritgerð) en ég ákvað núna á vormánuðum þegar síðasti áfanginn um þjónandi forystu var búinn að það væri synd að fá ekki að stúdera þessi fræði áfram og hef því ákveðið að skrifa ritgerð. Ég horfi því björtum augum til næsta vetrar þar sem ég mun vonandi rannsaka eitthvað áhugavert viðfangsefni tengt þjónandi forystu með tengingu við íslenskt atvinnulífi.”
Meistaranám við Háskólann á Bifröst
Háskólinn á Bifröst býður upp á fjölbreytt nám á ýmsum sviðum og þar á meðal er hægt að taka meistarapróf í forystu og stjórnun. Mögulegt er að velja að taka MS gráðu sem skiptist í 2/3 námskeið og svo 1/3 ritgerð og einnig er boðið upp á MLM gráðu sem er þá alfarið námskeið og engin ritgerð. Haustið 2019 var í fyrsta skipti boðið upp á að taka þessa meistaragráðu með áherslu á þjónandi forystu. Námið er skipulagt í samvinnu við Þekkingarsetur um þjónandi forystu. Umsjónarkennari er Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor við skólann. Umsóknarfrestur fyrir næsta skólaár er til 20. maí 2020. Nánari upplýsingar um námið og umsóknir eru hér.