Magnea Steinunn Ingimundardóttir hefur lokið rannsókn til meistaragráður við Háskólann á Bifröst með áherslu á þjónandi forystu og starfsumhverfi starfsmanna í stjórnsýslu sveitarfélaga.
Í ritgerðinni segir m.a. að mikilvægt sé fyrir stjórnsýslu sveitarfélaga að rýna í hvaða breytinga er þörf til að mæta þeim áskorunum sem sveitarfélög standa frammi fyrir en rannsóknir á stjórnun og starfsumhverfi starfsmanna í stjórnsýslu sveitarfélaga eru fáar.
Í rannsóknni var vægi þjónandi forystu í stjórnsýslu sveitarfélaga kannað og skoðað hvort tengsl væru á milli einkennandi þátta þjónandi forystu og mats starfsmanna á sjálfræði í starfi. Gerð var spurningakönnun sem náði til um 600 starfsmanna hjá sjö sveitarfélögum. Mælitækið Servant Leadership Survey var notað auk spurninga um sjálfræði í starfi og niðurstöður greindar eftir þáttum SLS listans.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að þjónandi forysta er til staðar í stjórnsýslu sveitarfélaga og að starfsmenn njóta sjálfræðis í starfi að einhverju leyti. Rannsóknin sýndi jafnframt martækna fylgni á milli heildarmælingar þjónandi forystu og sjálfræðis í starfi, sem er í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að þjónandi forysta er hugmyndafræði og leiðtogaaðferð sem ástæða er fyrir stjórnsýslu sveitarfélaga að skoða nánar til að stuðla að aukinni framþróun og nýsköpun í stjórnsýslu sveitarfélaga og er ástæða til að rannsaka þetta efni nánar.
Rigerðin er einnig aðgengileg hér á skemman.is