Sólrún Auðbertsdóttir lauk á síðasta ári MSc gráðu í heilbrigðisvísindum frá Háskólanum á Akureyri og fjallaði MSc ritgerð hennar um áherslur viðbragðsaðila við eldgosinu í Eyjafjallajökli. Sólrún tók viðtöl við alls fjórtán viðbragðsaðila á sviði björgunarstarfa, heilsugæslu, löggæslu og fleiri sviða. Rannsóknin beindist að áherslum þeirra í samskiptum og samvinnu og voru orð þeirra og áherslur speglaðar í hugmyndafræði þjónandi forystu. Rannsóknin ber heitið ,,Að vera í takt við samfélagið en samt að sýna festu” Áherslur viðbragðsaðila í samskiptum og samvinnu
vegna eldsumbrota undir jökli.
Í ritgerðinni segir að ,,Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að áherslur viðbragðsaðila, sem rætt var við, einkenndust af einlægum áhuga og ánægju af því starfi sem þeir unnu. Takmark þeirra var að tryggja öryggi og velferð. Samstaða náðist með góðum undirbúningi, áherslu á upplýsingar, samvinnu á jafningjagrunni, hlustun og dreifðri ábyrgð. Draga má þá ályktun að þjónandi forysta einkenni samskipti og samvinnu þeirra sem rætt var við. Rannsóknin hefur fræðilegt gildi og niðurstöður varpa ljósi á nýja hlið þjónandi forystu og gefa vísbendingar um að þjónandi forysta geti haft uppbyggileg áhrif á störf og áherslur viðbragðsaðila.”
Sólrún hlaut rannsóknarstyrk úr Rannsókna- og vísindasjóði Suðurlands og hélt á dögunum erindi um rannsókn sína á hátíðarfundi sjóðsins að viðstöddu fjölmenni og nýjum styrkhöfum sjóðsins. Sólrún er hjúkrunarfræðingur og starfar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem hjúkrunarstjóri á Heilsugæslunni í Þorlákshöfn.
Sólrúnu eru færðar innilegar hamingjuóskir í tilefni MSc prófsins.