Þekkingarsetur um þjónandi forystu hefur skipulagt og haldið ráðstefnur reglulega hér á landi frá því í júní 2008, annað hvert ár eða árlega. Á hverri ráðstefnu er tekið fyrir ein ákveðin hlið þjónandi forystu og í ár á ráðstefnunni á Bifröst 25. september er efnið þjónandi forysta og brautryðjendur. Næsta ráðstefna er síðan ráðgerð árið 2017, nánar tiltekið í júní það ár og verður efni hennar og áherslur kynntar þegar nær dregur.
Undirbúningur að stofnun Þekkingarseturs um þjónandi forystu hófst árið 2006 og fyrsti opinberi viðburðurinn í nafni þjónandi forystu hér á landi var ráðstefna sem haldin var í júní 2008. Ráðstefnan var fjölsótt og þangað komu einstaklingar víða að úr samfélaginu og hlýddi á orð sérfræðinga lýsa hugmyndum sínum og reynslu af þjónandi forystu. Meðal fyrirlesara voru Kent M Keith sem þá var í forsvari fyrir Greenleaf Center for Servant Leadership í Bandaríkjunum, James Autry sem er einn af þekktari rithöfundum á svið þjónandi forystu og fulltrúar frá Schneidar Corporation sem er fyrirtæki á sviði verkfræði og hönnunar og hefur nýtt þjónandi forystu í yfir 25 ár. Á ráðstefnunni árið 2008 var samtal þátttakenda mikilvægur liður á dagskránni og voru þátttakendur sérstaklega ánægðir með að fá tækifæri til að ræða saman í hópum um efni ráðstefnunnar og eigin pælingar og viðhorf til efnisins.
Í framhaldi fyrstu ráðstefnunnar árið 2008 var hafist handa við að móta formlegt samstarf við Greenleafmiðstöðina í Bandaríkjunum (www.greenleaf.org) og var samningur um samstarf formlega undirritaður á annarri ráðstefnunni hérlendis snemma árs 2010. Síðan hafa reglulega verið haldnar ráðstefnur með svipuðu formi og fyrsta ráðstefnan en mismunandi hliðar þjónandi forystu verið teknar til skoðunar. Erlendir sérfræðingar hafa sótt okkur heim og gefið innsýn í eigin reynslu og þekkingu og jafnframt hafa íslenskir sérfræðingar og áhugafólk um þjónandi forystu deilt hugmyndunum sínum og viðhorfum. Samtal þátttakenda hefur síðan fléttað allar þessar hugmyndir og fært samræðuna enn þá nær íslenskum aðstæðum, áhuga og þörfum fólks og fyrirtækja hér á landi.
Samhliða ráðstefnuhaldi hefur Þekkingarsetur um þjónandi forystu annast fræðslu, ráðgjöf, kennslu og rannsóknir um þjónandi forystu. Kennslan hefur m.a. verið á vettvangi háskóla hér á landi og fyrsta formlega meistaranámskeiðið um þjónandi forystu var við Háskólann á Akureyri vorið 2012. Árið 2014 var gerður samstarfssamningur við Háskólann á Bifröst um miðlun og þróun þekkingar um þjónandi forystu m.a. kennslu, rannsóknir og ráðstefnuhald.
Miðlun þekkingar á vettvangi netsins er ein af grunnstoðum starfs Þekkingarsetursins. Fræðslu og upplýsingum er miðlað bæði á heimasíðunni www.thjonandiforysta og á facebook síðu Þekkingarseturs um þjónandi forystu. Áhugasamir geta skráð sig á póstlista Þekkingarsetursins á heimasíðunni og haft samband í gegnum tölvupóst: thjonandiforysta@thjonandiforysta.is.