Í umfjöllun sinni um þjónandi forystu verður Robert K. Greenleaf tíðrætt um mannleg samskipti. Í grundvallarritum sínum um þjónandi forystu, The Servant as Leader (1970), en þó helst í The Institution as Servant (1972), fjallar hann meðal annars um sannfæringu sem samskiptaaðferð leiðtoga og aðferð til að hafa áhrif.
Þvingun og klækir ámælisverðar samskiptaaðferðir
Til samanburðar nefndi Greenleaf þvingun og klæki sem hann taldi siðferðilega ámælisverðar samskiptaaðferðir fyrir leiðtoga. Þvingun felst oftast í því að byggja á reglum, t.d. um afstöðu starfsfólks til hvers annars samkvæmt skipuriti um áhrif frammistöðu á framgang og framtíð í starfi, en einnig með því að láta bera á formlegri yfirmannsstöðu í háttum eða orðum og þar með stöðu starfsfólks sem undirmanna.Í klækjum felst að láta fólk halda að það hafi áhrif sem það hefur í raun ekki og má t.d. nefna að kalla eftir skoðunum fólks án þess að hlusta raunverulega á þær eða taka þær til skoðunar í einlægni.
Sannfæring sem heiðarlegt samtal á jafningjagrundvelli
Í stað þessara gagnrýniverðu aðferða mælti Greenleaf með sannfæringu sem hann lýsti sem heiðarlegu samtali á jafningjagrundvelli þar sem hvor um sig hvetti hinn til að fallast á skoðun sína. Sérstaklega mælti Greenleaf með þeirri aðferð að varpa fram sjónarmiðum og spurningum og láta viðmælandanum eftir að svara þeim fyrir sig. Þá getur verið auðvelt að freistast til að segja alltaf eigin skoðun og rökin fyrir henni og krefja viðmælandann um afstöðu til hennar. Aðferð Greenleafs var þó mun fremur að leggja til sjónarmið, jafnvel fleiri en eitt og treysta viðmælandanum til að komast að skynsamlegri niðurstöðu eða niðurstöðu sem virkaði fyrir hann í þeim aðstæðum sem hann var í.
Texti: Guðjón Ingi Guðjónsson