Hrafnhildur Haraldsdóttir mun á ráðstefnunni á Bifröst um þjónandi forystu 31. október nk. fjalla um rannsókn sína á á viðhorfum framhaldsskólakennara til samskipta og samvinnu. Heiti rannsókninnar er ,,Manneskja sem lætur sig aðra manneskju varða” og er lýst með þessum orðum:
Menntastofnanir eru að færast í auknum mæli að aukinni samvinnu, gagnsæi og einstaklingsmiðuðu námi og starf kennarans er orðið meira krefjandi en áður var. Til þess að markmiðum kennslu verði náð er mikilvægt að samskipti og samvinna kennara og nemenda séu góð. Rannsóknir, erlendis og hérlendis, benda til þess að kennarar og skólastjórar sem móta starf sitt á hugmyndafræði þjónandi forystu eru í meiri metum hjá samstarfsfólki sínu, sýna betri árangur í starfi, samstarf verði betra og starfsánægja aukist. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt; að kanna hverjar áherslur framhaldsskólakennaranna í Verkmenntaskólanum á Akureyri væru í samskiptum og samvinnu við nemendur og starfsfólk skólans og hvort þær áherslur endurspegli hugmyndafræði þjónandi forystu. Rannsóknin var eigindleg í formi viðtala við sex framhaldsskólakennara vorið 2013. Niðurstöður sýna að áherslur framhaldsskólakennara við Verkmenntaskólann á Akureyri einkennast af velvild til nemenda og samstarfsfólks þeirra. Samvinna, agi, árangur og þjónusta voru orð sem voru viðmælendum töm. Niðurstöðurnar bera þess merki að samhengi sé á milli áherslna kennaranna og hugmyndafræði þjónandi forystu. Kennararnir lögðu áherslu á það að fá nemendurna með sér og koma þeim í skilning um það að mikilvægt sé að vinna saman að sameiginlegum markmiðum. Í ljósi þessara niðurstaðna er mikilvægt að auka vægi þessara þátta í kennslu og rannsaka betur samskipti og samvinnu allra innan námssamfélagsins þannig að allir nái að blómstra á sínum vettvangi.
Hrafnhildur Haraldsdóttir er bókhalds- og innheimtufulltrúi Verkmenntaskólans á Akureyri. Hún er sjúkraliði og MS í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði og stjórnun og vann rannsóknina sem hún mun kynna til M.Ed gráðu í kennara- og menntunarfræðum með áherslu á stjórnun menntastofnanna við Háskólann á Akureyri.
Ráðstefnan á Bifröst 31. október 2014 á vegum Háskólans á Bifröst og Þekkingarseturs um þjónandi forystu, Þjónandi forysta: Samskipti og samfélagsleg ábyrgð. Nánari upplýsingar og skráning á heimasíðu Þekkingarseturs um þjónandi forystu.