Nýlega lauk Hrafnhildur Haraldsdóttir eigindlegri rannsókn til meistaragráðu við Háskólann á Akureyri: Viðhorf framhaldsskólakennara til samskipta og samvinnu við nemendur og starfsfólk. ,,Manneskja sem lætur sig aðra manneskju varða”.
Í útdrætti rannsóknarinnar segir m.a. ,,Niðurstöður þessarar rannsóknar eru þær að áherslur framhaldsskólakennara við Verkmenntaskólann á Akureyri einkennast af velvild til nemenda og samstarfsfólks þeirra. Samvinna, agi, árangur og þjónusta voru orð sem voru viðmælendum töm. Niðurstöðurnar bera þess merki að samhengi sé á milli áherslna kennaranna og hugmyndafræði þjónandi forystu. Kennararnir lögðu áherslu á það að fá nemendurna með sér og koma þeim í skilning um það að mikilvægt sé að vinna saman að sameiginlegum markmiðum. Í ljósi þessara niðurstaðna er mikilvægt að auka vægi þessara þátta í kennslu og rannsaka betur samskipti og samvinnu allra innan námssamfélagsins þannig að allir nái að blómstra á sínum vettvangi.”