Óttarr Proppé, alþingismaður mun fjalla um ást og umhyggju í stjórnmálum á ráðstefnunni um þjónandi forystu á Bifröst 31. október nk. og ber erindið yfirskriftina: Er rúm fyrir ást og umhyggju í stjórnmálum og opinberri umræðu? Erindinu lýsir Óttarr svo í stuttu máli:
Hugmyndin um sterkan leiðtoga sem allt veit og er fullviss í sinni sök er furðu lífseig þegar kemur að stjórnmálum. Þessi hugmynd er að sama skapi vinsæl meðal stjórnmálamannanna sjálfra og í opinberri umræðu. Þegar minnst er á stjórnmál sjá margir fyrir sér ágreining og rifrildi. Jafnvel pukur og undirferli. Stjórnmálin eru í kreppu. Æ færri treysta sér til þess að starfa að stjórnmálum. Traust og kosningaþáttaka hrynur. Þetta er þróunin á heimsvísu. Hvað veldur? Í starfsumhverfi þar sem samkeppni um hylli og völd er alltumlykjandi þykir eðlilegt að efast um að gildi á borð við ást, umhyggju og þjónandi forystu geti komið að gagni. En eru slík gildi kannski einmitt nauðsynleg til þess að endurvekja traust og tryggja að lýðræðið þróist og dýpki? Góður leiðtogi skipar ekki lengur fyrir í skjóli virðingar og valds. Hún/hann þarf að leiða með því að hlusta og toga sem flesta með til verksins.
Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 31. október 2014. Þjónandi forysta: Samskipti og samfélagsleg ábyrgð. Upplýsingar og skráning á heimasíðu Þekkingarseturs um þjónandi forystu.